Guðmundur Benediktsson (1920-2000) Bárur, 1977 Kopar, hæð 44 cm
Guðmundur Benediktsson (1920-2000) Bárur, 1977 Kopar, hæð 44 cm
Guðmundur Benediktsson lauk sveinsprófi í húsgagnasmíði árið 1944 og nam síðan við Myndlistarskólann í Reykjavík á árunum 1950-1956 og naut þar tilsagnar Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara. Hann steig fram á sjónarsvið íslenskrar listasögu þegar hann …

Guðmundur Benediktsson lauk sveinsprófi í húsgagnasmíði árið 1944 og nam síðan við Myndlistarskólann í Reykjavík á árunum 1950-1956 og naut þar tilsagnar Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara. Hann steig fram á sjónarsvið íslenskrar listasögu þegar hann hélt sína fyrstu einkasýningu í Reykjavík árið 1957 og skipaði sér í flokk þeirra sem unnu út frá lögmálum óhlutbundinnar myndlistar. Á þeim tíma var geómetrísk abstraktlist ríkjandi á Íslandi og lagði Guðmundur sitt af mörkum með stílhreinum járnskúlptúrum sem byggðust alfarið á láréttum og lóðréttum línum. Með tímanum þróaði hann verk sín í átt til lífrænni formbygginga. Þar ber hæst hamraða koparskúlptúra sem bera með sér hreyfingu og einkennast af þokka fágaðs handbragðs og næmri formhugsun.

Að öllu jöfnu eru geómetrísk abstraktverk Guðmundar án titils en þau lífrænu vísa oft í umhverfið, svo sem verkið Bárur. Áferðarfallegur rauðbrúnn málmurinn bylgjast í tveimur stórum aðskildum formum og skapa andstæða hreyfingu er minnir á öldurót en inni á milli er þriðja formið til mótvægis.

Verk Guðmundar má flokka í þrjú tímabil þar sem hæst ber járnskúlptúra frá árunum 1955-1957 og koparmyndir sem hann vann upp úr 1970. Frá þeim tíma vann hann höggmyndir úr tré og járni sem komu skemmtilega á óvart í einfaldleika sínum og voru í ætt við naumhyggju tíunda áratugarins. Þau verk bera vitni um stöðuga leit listamannsins að nýju tjáningarformi og tilfinningu fyrir straumum og stefnum í samtímalist.

Erfingjar Guðmundar gáfu Listasafni Íslands yfir 100 skúlptúra og fjölda af skissum eftir listamanninn árið 2002.