Samkeppni Skipaflutningafélögin Samskip og Eimskip hafa um árabil elt grátt silfur á flutningamarkaði.
Samkeppni Skipaflutningafélögin Samskip og Eimskip hafa um árabil elt grátt silfur á flutningamarkaði. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is Samskip telja að Eimskip hafi, með sátt sinni við Samkeppniseftirlitið (SKE) sumarið 2021, valdið félaginu umtalsverðu og fjölþættu tjóni.

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Samskip telja að Eimskip hafi, með sátt sinni við Samkeppniseftirlitið (SKE) sumarið 2021, valdið félaginu umtalsverðu og fjölþættu tjóni.

Þetta kemur fram í ítarlegri stefnu Samskipa, en eins og greint var frá í fyrrakvöld hefur félagið höfðað mál gegn Eimskip þar sem þess er krafist að Eimskip beri óskipta bótaábyrgð á tjóni Samskipa vegna skriflegrar sáttar sem Eimskip og SKE gerðu með sér 16. júní 2021. Með sáttinni viðurkenndi Eimskip að hafa átt í samráði við Samskip á tímabilinu 2008 til 2013 og greiddi 1,5 milljarða króna í stjórnvaldssekt. Bæði félög höfðu verið til rannsóknar vegna meintra samkeppnisbrota í rúman áratug, þó án niðurstöðu, þegar sáttin var gerð.

Rannsókn SKE á meintum brotum Samskipa hélt áfram og lauk með því að félagið var sl. haust sektað um 4,2 milljarða króna. Stór hluti af niðurstöðu SKE byggðist á sátt Eimskips við eftirlitið tveimur árum áður. Í stefnu Samskipa, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, kemur fram að í ákvörðun SKE vísi stofnunin um það bil 500 sinnum til sáttar Eimskips við umfjöllun um einstök atvik sem stofnunin telur til marks um ætlað samráð félaganna. Þá hafi Páll Gunnar Pálsson forstjóri SKE komið fram opinberlega og staðfest að sáttin hafi verið „mikilvægt innlegg í rannsóknina“.

Eimskip hafi veitt villandi upplýsingar um Samskip

Í fyrrnefndri sátt viðurkenndi Eimskip meðal annars að félögin hefðu átt í samráði á síðari hluta ársins 2008 um breytingar á siglingakerfum og takmörkun á flutningsgetu í sjóflutningum til og frá Íslandi, skiptingu á mörkuðum í sjó- og landflutningum, afsláttarkjör í flutningsþjónustu, um sjóflutninga, gagnkvæma leigu eða lán á gámum og ýmsa aðra þætti sem miðuðu að því að raska samkeppni í flutningaþjónustu.

Í stefnunni, sem telur um 30 bls., kemur fram að það sé mat Samskipa að ákvörðun Eimskips um að ganga til sáttar hafi einfaldlega verið rekstrarleg og taktísk ákvörðun nýrra stjórnenda og eigenda Eimskips. Sem kunnugt er varð breyting á eignarhaldi Eimskips snemma árs 2021, þegar Samherji Holding keypti um þriðjungshlut í félaginu. Þá halda Samskip því fram að ákvörðun um að játa sök og undirgangast sekt hafi þjónað hagsmunum Eimskips í samkeppni við Samskip, sem reynst hafi Eimskip óþægur ljár í þúfu til fjölda ára.

Þá telja Samskip að Eimskip hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með því að gefa rangar og villandi yfirlýsingar í sátt félagsins við SKE. Yfirlýsingarnar hafi nú þegar valdið umtalsverðu tjóni í rekstri Samskipa og séu til þess fallnar að valda tjóni í rekstri Samskipa til langframa. Jafnframt er vísað til þess að efnahagslegir yfirburðir Eimskips hafi á árinu 2021 verið meiri en nokkru sinni fyrr auk þess sem gengi hlutabréfa félagsins hafi hækkað umtalsvert á markaði í kjölfarið.

Loks telja Samskip að háttsemi Eimskips brjóti gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, þar sem lagt sé bann við því að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar gagnvart keppinautum. Félagið telur að rangar yfirlýsingar Eimskips til SKE hafi verið til þess fallnar að hafa óeðlileg áhrif á starfsemi Samskipa og eftirspurn eftir þjónustu félagsins.

Stefna líka forstjóra Eimskips

Stefnan er sem fyrr segir löng og ítarleg. Hún byggist þó að miklu leyti á þeim gögnum og upplýsingum sem þegar höfðu komið fram í málinu við rannsókn þess – til viðbótar við nýjar röksemdir. Í henni eru rakin sjónarmið sem komið höfðu fram á fyrri stigum. Þá er því haldið fram að yfirlýsinginar Eimskips í fyrrnefndri sátt séu í andstöðu við samtímagögn úr rekstri félaganna, í andstöðu við fyrri yfirlýsingar Eimskips og fyrrverandi lykilstarfsmanna félagsins sem og raunveruleg atvik í rekstri félaganna tveggja. Málið er því höfðað gegn Eimskip og Vilhelm Má Baldvinssyni forstjóra Eimskips þar sem Samskip telja að hann og félagið beri ábyrgð á því tjóni sem sáttin hefur valdið Samskipum.

Hið meinta upphaf

Fundurinn
6. júní 2008

Í ákvörðun SKE, sem birt var í 15 bindum, um að leggja 4,2 milljarða króna sekt á Samskip sl. haust var ítrekað vísað til fundar sem forsvarsmenn skipafélaganna áttu 6. júní 2008. Kenning SKE er sú að sá fundur hafi markað upphafið að meintu samráði félaganna.

Fjórir einstaklingar sátu fundinn, þeir Ólafur Ólafsson og Ásbjörn Gíslason f.h. Samskipa og Sindri Sindrason og Gylfi Sigfússon f.h. Eimskips. Mbl. hefur áður greint frá því að forsvarsmenn Samskipa höfðu á þeim tímapunkti haft spurnir af bágri fjárhagsstöðu Eimskips og föluðust í kjölfarið eftir erlendum eignum félagsins, nánar tiltekið finnska gámaflutningafélaginu Containerships og hollenska frystigeymslufyrirtækinu Daalimpex.

Í stefnunni sem hér er fjallað um er fundarefnið rakið nánar og meðal annars byggt á tilvitnunum helstu stjórnenda félaganna við yfirheyrslu hjá lögreglu vegna málsins. Það staðfestir það sem áður hefur komið fram í umfjöllun blaðsins um málið. Þá er einnig vísað til tölvupósts frá forstjóra Kjalar (aðaleiganda Samskipa), þar sem hann sama dag ráðleggur Ólafi að láta það ógert að ráðast í frekari fjárfestingar, meðal annars á Containerships. Þá er einnig vísað til þess að aðrar skýrslur rannsakenda af stjórnendum staðfesti að þetta hafi verið efni fundarins.