Fjölskyldan Brynjólfur, Ragna og synir á góðri stundu í Suður-Frakklandi.
Fjölskyldan Brynjólfur, Ragna og synir á góðri stundu í Suður-Frakklandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brynjólfur Jón Baldursson fæddist 11. apríl 1974 í Reykjavík og fyrstu árin ólst hann upp á Sporðagrunni í Austurbænum. „Þegar ég var fjögurra ára flutti ég með foreldrum mínum í Vesturbæinn á Sólvallagötu og bjuggum við þá hjá afa mínum…

Brynjólfur Jón Baldursson fæddist 11. apríl 1974 í Reykjavík og fyrstu árin ólst hann upp á Sporðagrunni í Austurbænum. „Þegar ég var fjögurra ára flutti ég með foreldrum mínum í Vesturbæinn á Sólvallagötu og bjuggum við þá hjá afa mínum Brynjólfi í fjögur ár á meðan foreldrar mínir byggðu sitt heimili í Garðabæ. Við fluttum síðan í Dalsbyggð þegar ég var átta ára og ég átti þar heima fram að tvítugu.

Uppvaxtarárin í Garðabænum voru frábær og margar góðar minningar. Ég eignaðist frábæra vini á þessum árum og höldum við enn miklu sambandi í dag. Við félagarnir vorum vel fjörugir og eflaust ekki þeir auðveldustu fyrir kennarana okkar.

Sumrin í æsku voru mjög skemmtileg þar sem mikið var um fjölskylduútilegur, fjölmargar dvalir í sumarbúðum í Kaldárseli og Vatnaskógi ásamt því að vera heppinn að ná að upplifa sumardvöl í sveit í Borgarfirðinum.“

Brynjólfur spilaði fótbolta með Stjörnunni og æfði skíði með Skíðadeild Fram og varð Íslandsmeistari á skíðum. „Faðir minn var einn af stofnendum skíðadeildar Fram og má segja að skíði séu mitt sport enda eyddi ég flestum dögum í Bláfjöllum öll æsku- og unglingsárin ásamt því að sækja í austurrísku Alpana.“

Brynjólfur fór fimm ára í Ísaksskóla, en gekk svo í Flataskóla og áfram í Garðaskóla og lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1994. „Versló-árin voru mjög skemmtileg og eignaðist ég marga frábæra vini sem ég held enn miklu sambandi við. Ég byrjaði snemma að vinna á sumrin og á unglingsárunum vann ég margvísleg störf – ég fann mig síðan vel sem sölumaður hjá Mjólkursamsölunni þar sem ég var ábyrgur fyrir að keyra á milli verslana og taka pantanir og selja. Það var mikill skóli og var fyrsta alvöru reynslan í viðskiptum. Ég lærði þar mikilvægi sölumennsku.“

Eftir stúdentinn lá leiðin til Bandaríkjanna þar sem Brynjólfur lauk viðskiptafræðinámi frá Coastal Carolina University í Suður-Karólinu 1997. Síðar eða 2015 lauk hann svo PLD-gráðu við Harvard Business School í Boston. „Ég man að ég hafði alltaf mikinn áhuga á viðskiptum og var búinn að ákveða snemma að ég ætlaði mér að fara til Bandaríkjanna í háskóla. Það var síðan yfirmaður minn hjá MS sem kynnti Coastal Carolina fyrir mér. Ég sótti um og fékk inni í skólanum og nam viðskiptafræði í þrjú ár. Þetta var frábær tími, lærdómsríkur og eignaðist ég marga góða vini. Skólagangan gekk mjög vel, ég útskrifaðist 1997 með tvöfalda gráðu í viðskiptum ásamt því að vera valinn í heiðursprógramm í skólanum, The Wall Fellows Program. Þetta prógramm var mjög skemmtilegt og gekk út á það að kenna ýmislegt sem ekki var kennt í hefðbundna náminu og tengja betur viðskipti við námið. Þannig var ég heppinn að fá margvíslega reynslu þ. á m. við sumarstörf í New York og Barcelona.“

Brynjólfur hóf störf hjá Landsbankanum 1997, fyrst hjá Landsbréfum en síðast sem framkvæmdastjóri hjá Heritable Bank, sem Landsbankinn hafði keypt, í Mayfair í London og bjó þar í tæp tvö ár. „Ég hef alltaf verið frumkvöðull í eðli mínu og fundið mig í verkefnum sem snúa að því að byggja eitthvað nýtt upp og þróa hlutina. Ég ákvað því að stofna verðbréfafyrirtæki með samstarfsmanni mínum, Sigurði Atla Jónssyni, árið 2001 sem fékk nafnið Alfa Verðbréf. Við náðum mjög öflugu samstarfi með stórum alþjóðabanka og störfuðum með honum í kringum 10 ár, mest í London þar sem við vorum með annan fótinn. Árið 2011 seldum við síðan fyrirtækið til MP banka.“

Brynjólfur tók við eignastýringu bankans sem nú heitir Kvika og settist í framkvæmdastjórn. „Eitt stærsta verkefnið var að koma af stað nýju fasteigna- og fjárfestingarfélagi sem fékk heitið FÍ fasteignafélag en þar unnum við þétt með stærstu lífeyrissjóðum landsins og var ég þar stjórnarformaður. Ég var síðan farinn að fá aðeins leið á bankageiranum og frumkvöðullinn togaði í mig – ég ákvað því að hætta í bankanum 2016 og nýta mína reynslu í eigin verkefnum. Árið 2018 kom síðan upp áhugavert tækifæri í Hveragerði en þar var gamall félagi minn, Valgarð Sörensen, búinn að finna lóð sem hentaði vel fyrir ferðamannageirann og var með áhugaverðar hugmyndir sem pössuðu vel við mína sýn.

Við ákváðum því að vinna saman í þessu þróunarverkefni sem síðan varð Gróðurhúsið (The Greenhouse). Það er áfangastaður með fjölbreyttri þjónustu bæði fyrir heimamenn og ferðalanga – en þar er að finna hótel, mathöll, kaffihús, bar, verslanir og fleira.

Við byggðum samhliða upp nýtt hótelvörumerki sem fékk nafnið „The Greenhouse Hotel“. Það eru síðan ýmis þróunarverkefni í pípunum en til að mynda kláruðum við ásamt partnerum okkar nýverið stóran samstarfssamning við Hveragerðisbæ um heildræna uppbyggingu við rætur Reykjadals á landi Árhólma sem inniheldur m.a. náttúrulaugar, Greenhouse-hótelhuttur og fjölbreytta útivist ásamt veitingahúsi og viðburðarýmum. Við teljum ferðamannageirann spennandi og eru mikil tækifæri fram undan.“

Brynjólfur er mikill fjölskyldumaður en aðaláhugamál hans eru íþróttir og útivist. „Golf er mín sumaríþrótt og skíði mín vetraríþrótt. Ég hef mjög gaman af því að ferðast bæði innan lands og utan. Svo hef ég verið heppinn að vinnan mín í dag er einnig áhugamálið mitt.“

Fjölskylda

Eiginkona Brynjólfs er Vilborg Ragna Ágústsdóttir, f. 12.2. 1974, ráðgjafi hjá umboðsmanni skuldara. Þau giftu sig 2010 og hafa verið búsett í Garðabæ frá 2012. Foreldrar Rögnu: Ágúst Stefánsson, f. 9.8. 1952, d. 4.9. 2023, og Stefanía Emma Ragnarsdóttir, f. 9.4. 1956, búsett í Kópavogi.

Synir Brynjólfs og Rögnu eru Baldur Orri, f. 19.12. 2002, nemi í kvikmyndafræði og heimspeki við HÍ, Stefán Breki, f. 6.11. 2004, nemi í viðskiptafræði við HÍ, og Viktor Darri, f. 8.4. 2013, nemi í Hofsstaðaskóla.

Alsystur Brynjólfs eru Helga Bestla, f. 11.9. 1984, búsett í Reykjavík, Birna Rún, f. 4.5. 1988, búsett í Reykjavík, og hálfsystir samfeðra er Hjördís Rögn, f. 17.11. 1973, búsett í Kópavogi.

Foreldrar Brynjólfs eru hjónin Baldur Jónsson, f. 13.7. 1947, fv. framkvæmdastjóri, og Ragnheiður Brynjólfsdóttir, f. 26.3. 1949, fv. flugfreyja, búsett í Garðabæ.