Kjartan Egilsson fæddist 26. febrúar 1955. Hann lést á heimili sínu 26. mars 2024.

Kjartan fæddist í Reykjavík. Faðir Kjartans var Egill Óskarsson, f. 19. 7. 1929, d. 6.6. 1988, rennismíðameistari frá Reykjavík. Móðir Kjartans var Sigríður Mekkín Þorbjarnardóttir, f. 3.8. 1927, d. 29.11. 2019, húsmóðir frá Rannveigarstöðum í Álftafirði. Systkini Kjartans voru Ásgeir Egilsson, f. 14.6. 1952, Óskar Egilsson, f. 20.6. 1953, d. 25.8. 1974, Unnur Egilsdóttir, f. 6.3. 1956 og Pálmi Egilsson, f 10.5. 1962, d. 11. 7. 2021. Hinn 7. ágúst 1982 kvæntist Kjartan Guðfinnu Elínborgu Guðmundsdóttur, f. 11.11. 1955, d. 18.6. 2020. Synir þeirra eru Ragnar Már, f. 20.8. 1977 og Hlynur Örn, f. 31.5. 1984. Eiginkona Hlyns er Tara Brekkan Pétursdóttir, f. 21.6. 1985. Börn þeirra eru Natalía Marín B. Hlynsdóttir, f. 24.10. 2006 og Pétur Ragnar B. Hlynsson, f. 13.3. 2012. Dóttir Kjartans er Sandra Ríkey Önnudóttur, f. 14.10. 1981. Börn Söndru eru Tinna Diljá Kala Söndrudóttir, f. 15.6. 2003, Rökkvi Már Amil Söndruson, f. 18.11. 2010, Ýmir Þeyr Kamal Söndruson, f. 31.8. 2014 og Stirnir Hugi Nadiruson, f. 5.11. 2017.

Kjartan fæddist á Laugavegi 24 í Fálkahúsinu, elst upp á Nesvegi 12 í vesturbænum og gengur í hverfisskólana þar, Melaskóla og Hagaskóla. Árið 1971 flytur fjölskyldan í Breiðagerði og klárar Kjartan þar grunnskólagöngu sína árið 1972 í Réttarholtsskóla. Kjartan starfaði árin 1972 og 1973 sem háseti á fossum Eimskips og vinnur síðan um tíma á bílaverkstæði föður síns. Kjartan og Guðfinna hófu sambúð í Stórholti árið 1977 og settust síðar að árið 1984 í Blönduhlíð sem var heimili þeirra hjóna alla tíð eftir það. Kjartan stundaði nám við rafvirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík en hætti 1977 þegar hann fékk vinnu hjá tölvudeild Eimskips. Kjartan lærði mikið á tölvutæknina á árum sínum hjá Eimskip og fór ótal námsferðir. Ráðinn sem kerfisfræðingur hjá Nýherja 1993. Sumarið 1998 fluttist Kjartan með fjölskylduna til Colorado og vann þar sem kerfisfræðingur. Guðfinna sneri aftur til Íslands með syni þeirra í lok árs 1998 en vinnan tók Kjartan suður til Rio De Janeiro, Brasilíu. Kjartan kom aftur heim til Íslands skömmu eftir aldamótin 2000. Árið 2006 byrjaði Kjartan að vinna fyrir Alþingi Íslands sem þingvörður. Kjartan ferðaðist mikið á ævinni annaðhvort með vinum, vinnufélögum eða fjölskyldu. Þá ferðuðust þau hjónin mikið með Round Table 8-klúbbnum, þar sem hann var félagi í mörg ár. Kjartan var mikill fjölskyldumaður og varði miklum tíma í það hlutverk. Árið 2017 settist Kjartan í helgan stein vegna veikinda. Guðfinna féll frá árið 2020 og stuttu seinna árið 2021 fluttist Kjartan í Austurhlíð 12. Synir hans veittu honum góðan félagsskap, sérstaklega Ragnar Már. Eyddu þeir feðgar góðum tíma saman í sumarbústað þeirra, ferðuðust um landið og út fyrir það. Kjartan naut einnig góðs af félagsstarfi í Vitatorgi á sínum síðustu árum.

Kjartan verður jarðsunginn frá Háteigskirkju í dag, 11. apríl 2024, og hefst athöfnin klukkan 11.

Nú er hann elsku besti pabbi farinn. Við vorum alltaf bestu vinir í gegnum lífið. Ég átti mjög góða æsku með mömmu og pabba. Pabbi hafði alltaf tíma fyrir fjölskyldu sína og við vorum mjög nánir, hittumst nánast daglega síðustu árin. Alltaf var hann hjálpsamur hann pabbi. Langar mig að segja frá því þegar hann gaf sér tíma til að hjálpa með að bera út Morgunblaðið, og gerði það oft þennan áratug sem ég var að bera út. Enda var hann gamall blaðburðarsnáði eins og ég.

Ég á fjöldann allan af góðum minningum um ferðalög okkar, bæði innan- og utanlands. Fórum við feðgarnir oft á skíði í Bláfjöllum þegar við bræður vorum ungir. Það var farið í sund nánast hverja helgi og keypt pylsa og kók eftir sund. Pabba fannst gaman að hjóla og hjólaði oft í vinnuna og einnig með okkur bræðrum. Hann átti góðar minningar um Led Zeppelin-tónleika sem hann fór á 1970 hérna heima og talaði oft hlýlega um þá. Gaman er að minnast á það að í febrúar sl. fór hann á sína síðustu tónleika sem voru einmitt Led Zeppelin-ábreiðutónleikar. Pabbi var mikið fyrir að lesa um vísindi og tækni og var iðinn að tileinka sér nýjustu tækni. Fengum ég og bróðir minn að njóta góðs af því þegar við vorum ungir strákar.

Eftir þá erfiðu tíma árið 2020 þegar móðir mín lést vorum við pabbi duglegir að fara saman í ferðalög. Tvær utanlandsferðir til Spánar og var sú seinni heilar fjórar vikur, hvorki meira né minna. Margar voru innanlandsferðirnar sem við fórum saman. Árið 2020 til Hafnar í Hornafirði og 2023 til Stykkishólms. Frá árinu 2011 höfum við líklega farið mörg hundruð ferðir í bústaðinn í Hvalfirði. Góður ferðafélagi er eitt af því sem pabbi minn var. Hann var alltaf til í að fara í sumarbústaðinn og var alltaf mjög viljugur að fara í ferðalög. „Já, já. Förum“ var ávallt svar hans.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Takk fyrir allt minn besti pabbi, þín verður sárt saknað.

Nú eruð þið mamma sameinuð á ný.

Þinn sonur,

Ragnar Már.

Nú er hann elskulegur faðir minn lagður af stað í sitt hinsta ferðalag. Ég er þakklátur að hafa fengið gott og stöðugt heimili og föður sem var alltaf reiðubúinn að verja tíma með okkur. Æskan sem betur fer áhyggjulaus og skemmtileg. Svona til að segja stuttlega frá þessum tíma þá voru það fastir liðir á föstudögum að grilla hamborgara, laugardaga var farið í hjólreiðaferðir eða sundferðir og alltaf ís eða pylsur eftir á. Ótal heimsóknir suður til Ragga í Halakoti, í Breiðagerði til ömmu Siggu eða á Lynghagann til Unnar, systur pabba. Veiðiferðir og útilegur á sumrin og skíðaferðir á veturna.

Pabbi var hógvær og æðrulaus, var ekki mikið að minnast á gömlu tímana. Gott dæmi um það var tíminn þegar ég var að undirbúa Evrópuferð og var eitthvað að tauta að mig vantaði bakpoka. Sagðist hann eiga til bakpoka sem hann gæti lánað mér, þennan fína bláa bakpoka. Var það þá sem ég fékk að vita að hann hefði farið í Evrópureisu með vini sínum og notað þennan sama bakpoka sjálfur, mér til undrunar. Já, það hefur margt gerst hjá honum um ævina, ævintýri með fólki sem hefur staldrað við hjá honum, aðrir komið og farið sína leið. Lífið hefur nefnilega marga kafla að geyma, skemmtilega kafla að dæma út frá þeim ótal myndum sem eru í myndasafni hans (og mömmu). Enda mikill ljósmyndari hann faðir minn. Glögglega má sjá það í þessu myndasafni, að hann hafi lifað ansi viðburðaríku lífi á miklum umbrotatímum. Fullt af ævintýrum og ferðalögum út um allar trissur, bæði innanlands sem utan. Strandar meðal annars á skipi Eimskips á Seyðisfirði, þetta var ég að læra frá Unni frænku og Ásgeiri frænda. Ég fæ kannski að heyra fleiri sögur seinna meir frá fólki sem hafði viðkomu í þessum köflum sem voru fyrir mína daga. En það þýðir nú ekkert fyrir mig að hneykslast yfir þessu, því ég hef þessar nákvæmlegu sömu tilhneigingar og faðir minn. Eplið féll ekki langt frá þessari eik greinilega. Það var þó eitt sem honum fannst gaman að deila með okkur. Það voru tónleikar Led Zeppelin sem hann sótti árið 1970, 15 ára gamall. Honum fannst ekkert mál að nudda því framan í okkur. Enda trúi ég því að það hafi alveg verið í frásögur færandi. Í sambandi við það, þá var eitt af mörgu öðru nytsamlegu sem hann pabbi skildi eftir sig, það var tónlistarsmekkurinn. Eitt það besta sem uppgangskynslóðin gaf frá sér, af mér að dæma. Ógrynni af vínilplötum og geisladiskum var í hans eigu og gekk hann í skugga um það að ég og bróðir minn fengjum alvöru tónlistarsmekk að gjöf. Hljómsveitir á borð við Led Zeppelin, CCR, Pink Floyd og margt annað var spilað á æskuheimilinu. Algjört stuð hjá okkur.

Ég var heppinn að fá að eiga stundir með föður mínum síðustu mánuðina og ótrúlegt að ég fékk tækifæri til að kveðja hann, síðasta kvöldið hans.

Ég bið Guð að gæta mín,

góða anda að hugga mig.

Sama ósk er eins til þín:

Almættið það sjái um þig.

(Leifur Eiríksson)

Takk fyrir allt það liðna, elsku besti pabbi.

Þinn sonur,

Hlynur Örn.

Elsku besti afi Kjartan. Kjarnaminningar hef ég margar af tíma mínum heima hjá þér og ömmu Guðfinnu í Blönduhlíðinni. Fannst svo gaman að gista hjá ykkur. Vorum alltaf að spila, horfa á myndir, borða nammi og hafa gaman, svo þegar við vöknuðum næsta dag fengum við okkur hafragraut sem amma eldaði og lásum Morgunblaðið. Man vel eftir að hafa fengið að fara með þér í vinnuna upp í Alþingi og man svo vel eftir konunni sem hvíslaði í steininum. Skemmti mér alltaf svo konunglega. Svo fórum ég, þú og amma oft á kaffihús og fengum okkur köku og heitt kakó. Það var aldrei leiðinlegt heima hjá þér og ömmu og ég mun halda þessum minningum í hjarta mínu að eilífu.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Hvíldu í friði elsku afi og ég skila kveðju til ömmu frá litlu prinsessunni ykkar.

Kveðja,

Natalía.

Elsku besti Kjartan.

Við minnumst þín með hlýju í hjarta, Biðjum að heilsa Guðfinnu.

Gráttu ekki

yfir góðum

liðnum tíma.

Njóttu þess heldur

að ylja þér

við minningarnar,

gleðjast yfir þeim

og þakka fyrir þær

með tár í augum,

en hlýju í hjarta

og brosi á vör.

Því brosið

færir birtu bjarta,

og minningarnar

geyma fegurð og yl

þakklætis í hjarta.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Takk fyrir allt það liðna.

Kveðja,

Tara og Pétur Ragnar.