Fiskiskip Ný skip Vinnslustöðvarinnar verða glæsileg en hönnunarferlið er langt og flókið. Það er nokkuð í að þau verði afhent tilbúin til veiða.
Fiskiskip Ný skip Vinnslustöðvarinnar verða glæsileg en hönnunarferlið er langt og flókið. Það er nokkuð í að þau verði afhent tilbúin til veiða. — Teikning/Skipasýn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú stendur yfir hönnun tveggja nýrra fiskiskipa fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum en til stendur að nýsmíðin leysi af hólmi nóta- og netabátinn Kap VE og togbátinn Drangavík VE. Um er að ræða umfangsmikla fjárfestingu sem hleypur á milljörðum…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Nú stendur yfir hönnun tveggja nýrra fiskiskipa fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum en til stendur að nýsmíðin leysi af hólmi nóta- og netabátinn Kap VE og togbátinn Drangavík VE. Um er að ræða umfangsmikla fjárfestingu sem hleypur á milljörðum króna en fátt er vitað um kostnað á þessu stigi enda er hönnun bátanna ekki tilbúin og útboð á smíði og fleira hefur ekki farið fram.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson (Binni), framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir hönnunina langt komna með annað sjófarið sem gert er ráð fyrir að verði 29 metra togbátur. Hann segir að vanda þurfi til verka og hefur útgerðin fengið til liðs við sig Sævar Birgisson hjá Skipasýn sem hannað hefur skip í áraraðir. Mikilvægt er að geta treyst á umfangsmikla reynslu Sævars að sögn Binna enda um mikla nákvæmnisvinnu að ræða því hver sentímetri sem nýttur er í eitthvað sé á kostnað einhvers annars þáttar.

„Það er nefnilega miklu erfiðara að hanna 29 metra bát en 40 metra því það munar svo mikið um pláss. Við erum með hugmyndir um að í þessum bát verði lest þar sem allt er sjálfvirknivætt og að þar verði enginn starfandi, öll vinna verði bara uppi á millidekki. Þetta kallar á mikið skipulag því allt er þetta takmarkað af lengd og breidd bátsins. Sem gamall sjóari finnst mér mjög gaman að taka þátt í þessu, en þetta er mjög flókið.“

Bætt orkunýting

Háleit markmið eru um bætta orkunýtingu við hönnun 29 metra bátsins og hafa ýmsar lausnir verið skoðaðar í tengslum við orkugjafa, en eins og staða tækniþróunar er nú er ljóst að togbátur verði ávallt háður olíu að sögn Binna.

„Okkar áhersla er að báturinn sé hagkvæmur og hann fari vel með sjálfan sig og áhöfn, ekki síst að báturinn verði afkastameiri en fyrri skip. Einnig erum við að vinna að því að hann verði sparneytinn á olíu og dragi þannig úr losun.“

Þakkar Binni Svandísi Svavarsdóttur, fyrrv. matvælaráðherra og núv. innviðaráðherra, fyrir að hafa lagt fram frumvarp um afnám takmarkana á aflvísa. Slíkt hafi opnað fyrir hönnun mun sparneytnari fiskiskipa.

Neta- og togbátur

Spurður um hinn bátinn viðurkennir Binni að hönnunin sé skemmra komin en þar er um að ræða 40 metra togbát sem gæti stundað netaveiðar samhliða. „Þá værum við að tala um bát sem er svipaður Brynjólfi, sem við lögðum fyrir 2 árum. Vinnslustöðin er eina stærri útgerðin sem stundar netaveiðar.“

Binni segir ljóst að netaveiðar hafi mikla kosti og fullyrðir að losun gróðurhúsalofttegunda við netaveiðar sé líklega sú minnsta á hvert veitt kíló. „Nema menn séu hreinlega að róa til veiða á árabáti,“ bætir hann við og hlær.

Ein af áskorununum er að hanna bát til þessara sérhæfðu veiða sem á að geta sinnt verkefninu í 15 til 20 ár og að hann uppfylli kröfur til annarra veiða þannig að báturinn verði söluvænlegur að tímabilinu loknu.

„Síðan bætist auðvitað við flækjustig fyrir báða bátana, það er að við getum ekki rýnt í kristalskúlu þegar kemur að kvótanum okkar. Kannski verður hætt að veiða karfa eftir tíu ár t.d. Við þurfum í hönnuninni að gera ráð fyrir allskyns breytingum sem geta átt sér stað,“ segir Binni.

Stefnt er að því að hönnun nýrra báta verði lokið í haust en það getur auðvitað tekið breytingum í flóknu ferli eins og þessu að sögn framkvæmdastjórans.

Eiga sér langa sögu

Óhætt er að segja að bátarnir tveir sem skipta á út séu komnir til ára sinna. Kap VE er 57 ára og var smíðaður af Stálvík hf. í Garðabæ árið 1967 en fékk þá nafnið Óskar Magnússon AK. Skipið hefur tekið nokkrum breytingum og var fyrst lengt 1973 og yfirbyggt 1974. Ákveðið var að lengja skipið aftur 1995 og er mesta lengd nú 52 metrar en skipið er 7,9 metrar að breidd.

Drangavík VE var smíðuð 1991 af Carave Shipyard í Portúgal og var eitt fjögurra skipa sem smíðuð voru þar fyrir Íslendinga upp úr 1990. Upphaflega hét báturinn Æskan SF en var seldur til Vestmannaeyja 1992 og fékk nafnið Drangavík en Vinnslustöðin eignaðist bátinn 1994 og hefur gert hann út síðan. Breytingar voru gerðar á Drangavík 2008.

„Bæði þessi skip eru börn síns tíma og augljóst að við munum ekki gera þau út í mörg ár í viðbót, sérstaklega Kap. Drangavíkin hefur þjónað okkur vel og hefur verið aflamesta og eitt afkastamesta skip íslenska flotans í þrjátíu ár og það auðvitað endar með því að það láti á sjá,“ segir Binni.

Spurður hvort stefnt verði að því að selja Kap og Drangavík svarar hann að það eigi eftir að koma í ljós hvað verði gert við skipin, en reynt verði eftir mesta megni að hámarka afkomu Vinnslustöðvarinnar í þessum efnum sem öðrum.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson