Baldur Rafnsson bóndi á Vattarnesi fæddist í Reykjavík 25. febrúar 1954. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans 3. apríl 2024.

Foreldrar Baldurs voru Helena Hálfdanardóttir sjúkraliði, f. 23.6. 1935, d. 22.4. 2014 og Rafn Benediktsson poppari, f. 14.5. 1935, d. 23.6. 2009. Alsystur eru Guðbjörg Linda, f. 21.9. 1957, Brynhildur Björk, f. 8.12. 1962, Arnheiður Edda, f. 9.5. 1965. Með seinni eiginkonu sinni Huldu Hjaltadóttur átti Rafn þau Benedikt Rafn, f. 22.11. 1973 og Laufeyju Björgu, f. 9.8. 1975.

Eftirlifandi eiginkona Baldurs er Elinóra Kristín Guðjónsdóttir bóndi á Vattarnesi, f. 26.1. 1955. Þau giftust 5.10. 1974. Foreldrar Elinóru eru Laufey Guðrún Magnúsdóttir, f. 9.9. 1929 og Guðjón Reynisson, f. 21.11. 1927, d. 26.12. 2015. Baldur og Elinóra eignuðust þrjár dætur, þær Helenu Vattar, f. 23.4. 1975. Maki hennar er Einar Björn Jónsson, f. 23.12. 1973. Dætur þeirra eru Elinóra, f. 2001 og á hún soninn Nökkva Leó, f. 2022. Emma, f. 2005 og Ásta Marín, f. 2011. Laufey Guðrún Vattar, f. 22.7. 1978. Maki Hjörtur Rafn Jóhannsson, f. 25.4. 1983. Synir þeirra eru Rúnar Berg Vattar, f. 2012 og Esjar Atli Vattar, f. 2019. Laufey á einnig Aþenu Ösp Vattar Oddsdóttur, f. 8.5. 2002 og Baldur Bent Vattar Oddsson, f. 27.2. 2005. Brynja Vattar, f. 2.5. 1983. Maki Steinólfur Jónasson, f. 15.11. 1981. Börn þeirra eru Mía Vattar, f. 2013 og Nói Vattar, f. 2019.

Baldur var frumburður foreldra sinna, Helenu Hálfdanardóttur og Rafns Benediktssonar. Baldur bjó ásamt foreldrum sínum fyrstu árin við Tunguveg 19 í Reykjavík, hjá föðurömmu sinni, Laufeyju Stefánsdóttur, og manni hennar, Garðari Bjarnasyni. Rafn og Helena keyptu hús í Smálöndum og þar ólst Baldur síðan upp til 11 ára aldurs. Fjölskyldan flutti þá í Selás í Árbæjarhverfi og varð Baldur mikill Fylkismaður. Hann hóf þegar að æfa fótbolta af miklu kappi og studdi félagið í anda alla sína tíð. Baldur var mjög músíkalskur og spilaði meðal annars á básúnu í Lúðrasveit verkalýðsins.

Baldur útskrifaðast úr Iðnskóla Reykjavíkur sem húsasmíðameistari og nokkrum árum síðar úr bókbandsnámi. Árið 1983 flutti fjölskyldan á Vattarnes og hóf hann störf sem bóndi og vann við það til æviloka. Baldur vann ýmis önnur störf, var sláturhússtjóri, skólabílstjóri, húsasmiður, var í hreppsnefnd, sjómaður, tónlistarkennari, Skrúðsbóndi og síðast en ekki síst vitavörður. Baldur sinnti jafnframt ýmsum félagsstörfum, söng í kirkjukórnum, var í sóknarnefnd, tók þátt í starfi Lionsklúbbs, var með tónlistarstundir á dvalarheimilinu Uppsölum og var bílstjóri fermingarbarna við hin ýmsu tilefni sem og kórstjóri Skólabílakórsins.

Minningargrein á: www.mbl.is/andlat/.

Útför Baldurs fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 11. apríl 2024, klukkan 13.

Sumarið 1978 segir Morgunblaðið ítrekað frá því að Baldur Rafnsson hafi verið með bestu mönnum meistaraflokks Fylkis á Íslandsmótinu í knattspyrnu; áræðinn og hættulegur tuttugu og fjögurra ára gamall framherji. En hann var ekki aðeins lykilmaður í Fylkisliðinu á þessum tíma, því um leið var hann að koma upp fjölskyldu og stuttu síðar heilu einbýlishúsi fyrir fjölskylduna. Smíðarnar átti hann auðvelt með, enda að mennta sig sem húsasmiður, auk þess sem hann var að læra bókband í hjáverkum.

Þetta var um það leyti sem ég var að kynnast systur Baldurs, Guðbjörgu Lindu. Á þeim árum unnu margir myrkranna á milli við að koma yfir sig þaki. Verðbólgan át upp stóran hluta nafnvaxtalánanna. En svo varð eins konar forsendubrestur; fyrst með því að allt var verðtryggt, bæði lán og laun, en svo var verðtryggingin tekin af laununum. Þá þyngdist róðurinn hjá mörgum sem von var. Hvað um það; unga fjölskyldan ákvað að flytja í frelsið í sveitinni austur á Vattarnesi sem hafði heillað frá æskuárum, eins og Baldur lýsir svo vel í sjónvarpsþættinum Náttúran mín – Skrúður, sem Ríkisútvarpið sýndi árið 2022.

Á Vattarnesi undi Baldur sér vel. Gerðist auðvitað framsóknarmaður og sagðist ekki flytja neina aðra en framsóknarmenn á báti sínum út í hina stórfenglegu eyju, Skrúð, sem hefur verið vinsæll viðkomustaður náttúruunnenda. Þar var dregin björg í bú á sumrin með fuglatekju, auk þess sem jörðin Vattarnes gaf af sér hefðbundnar landbúnaðarafurðir og fiskur var einnig sóttur á nærliggjandi mið um tíma. Það er varla hægt að hugsa sér fjölbreyttari og frjálsari aðstæður. En Baldri var fleira til lista lagt og til hans var jafnframt sóttur liðsafli og leiðsögn í tónlistarlífi á svæðinu. Þar naut hann þess að hafa leikið í Lúðrasveit verkalýðsins á sínum yngri árum með Jóni Múla Árnasyni og fleiri róttækum verkalýðssinnum. Hann lét þó róttæka pólitík að mestu eiga sig.

Því miður höguðu aðstæður því þannig að leiðir okkar lágu sjaldnar saman en ég hefði kosið. Baldur flutti austur með fjölskylduna fljótlega eftir að ég og systir hans hófum búskap. Svo skildi haf á milli er við hjónin fluttum til útlanda. En tengslin héldust þó í gegnum þéttriðið samskiptanet fjölskyldunnar, hefðbundnar ættar- og fjölskyldusamkomur og sumarferðir. Fjárleitir sem voru áformaðar, að minnsta kosti í huganum, verða að bíða betri tíma.

Ég fylgdist að mestu úr fjarlægð með áralangri baráttu Baldurs við illvígan sjúkdóm og vonaðist til þess að meðferð hér heima og erlendis myndi skila góðum árangri. En svo hallaði á ógæfuhliðina í vetur. Ég votta Elinóru, Helenu, Laufeyju, Brynju og fjölskyldum þeirra innilega samúð mína.

Stefán Jóhann Stefánsson.

Kæri frændi, það er skrítið að kveðja þig svona snemma. Ég heyrði í þér á 70 ára afmælinu þínu 25. febrúar sl.

Þú varst alltaf vanur að hringja í mig kringum afmælið mitt 9. maí, það verður skrítið að fá ekki það símtal í ár.

Ég man góðar stundir með þér, t.d. í fjölskylduboðum, ættarmótum, afmælum og fermingum. Ég man hvað var gaman að koma til ykkar Nóru á Vattarnes þegar ég var lítill og líka eftir ég varð stór.

Það er skrítið að kveðja þig eftir illvígt krabbamein sem þú greindist með en ég veit að þú ert á betri stað núna.

Ég var svo þakklátur að þú hjálpaðir með fjöldasönginn í fermingunni minni 25. apríl árið 2002.

Ég veit að Helena amma og Rafn afi tóku vel á móti þér.

Minningarnar lifa um ókomna tíð.

Þinn frændi,

Bjarki Erlingsson.

Árið er 2014 og ég er komin austur á land á vertíð. Fyrstu dagana er ég í vist hjá ömmu vinar míns á Brimnesi en þegar Baldur bóndi spyr hann hvort hann geti verið bústjóri á Vattarnesi í hálfan mánuð og mér er boðið með stenst ég ekki mátið. Ég fylgi með, forvitin um staðinn, hvaðan veðrið er lesið, sögusvið þjóðsagna um tröll og álfa. Vattarnesið nær að töfra okkur vinina og við endum sem par að bústjórn og vertíð lokinni.

Vattarnes er töfrandi staður. Við keyrðum gegnum skriðurnar í vetrarveðrum, heyrðum tófuna gagga, stjörnurnar á festingunni fyrir ofan okkur. Suma daga þarf að tína grjót af veginum og einn daginn er undurfagur kristalssteinn þar á meðal.

Baldur var svolítið eins og kristalssteinn. Með yndislega nærveru og einstaka kímnigáfu. Húmorinn birtist fólki sem átti leið um staðinn. Fuglahræða með sólgleraugu heilsaði þegar keyrt var í gegnum hliðið, á bílaplaninu í hlaðinu var gult skilti sem á stóð „bannað að leggja“. Litla kartöfluhýsið var merkt „staður fyrir afmæli“.

Við Þorgeir tókum aftur við bústjóratitlinum rúmu ári síðar þegar barnið okkar var nokkurra vikna og tengdumst staðnum órofaböndum. Urðum hálfgerðir heimalningar hjá Nóru og Baldri það sumar. Göngutúrarnir með vagninn um nesið standa í fersku minni sem og selirnir sem heilsuðu okkur í fjörunni. Við vorum búsett í Svíþjóð á veturna þessi ár og hengdum upp mynd af Vattarnesi í íbúðinni okkar.

Baldur. Vitavörðurinn, Skrúðsbóndinn. Ævintýramaður með meiru. Fyrir Baldri voru ekki til vandamál, bara lausnir. Baldur hneigði sig gjarnan þegar hann heilsaði og það var gaman að fá símtöl frá honum þegar við bjuggum í Svíþjóð. „Sæl, Una mín.“ „Sæll, drengur minn.“

Þorgeir hafði tengst þeim hjónum frá barnsaldri. Baldur og Hermann pabbi hans voru sveitungar og góðir vinir og brösuðu mikið saman. Þorgeir og bræður hans fylgdu gjarnan með á nesið og um 13 ára aldurinn var Þorgeir hjá hjónunum í sveit. Það var ekki að ástæðulausu að Þorgeir vísaði gjarnan til Baldurs sem fóstra síns. Þegar við orðuðum Svíþjóðarplönin okkar laumaði Baldur þeirri hugmynd að Þorgeiri að fara í nám og næla sér í réttindi. Sem hann og gerði.

Sjálf tengdist ég Baldri í gegnum tónlistina. Við sátum gjarnan við píanóið, ég spilaði og hann söng og stundum öfugt. Stundum gripum við í harmonikkuna. Við prófuðum okkur áfram með hljómaganga og útsetningar og Baldur hafði mikla trú á mér við hljóðfærið. Þó skein fyrst og fremst ástin á tónlistinni í gegn á þessum stundum. Innblásin af söngvunum okkar fór ég að safna lögum í bók. Ég kallaði hana Söngbókina – „tileinkuð Baldri á Vattarnesi“. Þar á meðal er lagið „When I’m Sixty Four“ sem við sungum fyrir rúmum sex árum, þó mér virðist sem það hafi verið í gær.

Í minningu Baldurs munum við, þakklát fyrir að hafa kynnst honum, halda áfram að safna sönglögum, horfa glettnum augum á lífið og taka þátt í þeim ævintýrum sem lífið mun bjóða upp á.

Við sendum elsku Nóru og dætrum þeirra Baldurs okkar innilegu samúðarkveðjur.

Sólrún Una Þorláksdóttir, Þorgeir Starri Hermannsson.