Vestmannaeyjabær Ókomið listaverk skapar umræðu í samfélaginu.
Vestmannaeyjabær Ókomið listaverk skapar umræðu í samfélaginu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Í ljósi umræðu um inngrip í náttúru Eldfells með göngustígagerð viljum við fyrst og fremst vita almennilega hvernig listaverkið verði útfært í umhverfinu. Mörgum spurningum er ósvarað en svör ættu að vera sjálfsögð,“ segir Eyþór…

„Í ljósi umræðu um inngrip í náttúru Eldfells með göngustígagerð viljum við fyrst og fremst vita almennilega hvernig listaverkið verði útfært í umhverfinu. Mörgum spurningum er ósvarað en svör ættu að vera sjálfsögð,“ segir Eyþór Harðarson, bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum. Á fundi bæjarstjórnar í Eyjum í dag verða til umræðu áform um uppsetningu listaverks Ólafs Elíassonar sem skírskota á til Heimaeyjargossins árið 1973.

Ákveðið var af bæjarstjórn og fleirum árið 2022 að fá Ólaf til að gera slíkt verk sem átti að vera komið upp ári síðar; hálfri öld frá gosi. Verkið er ókomið enn.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sem eru í minnihluta bæjarstjórnar Vestmannaeyja, lögðu á dögunum fram tillögu þess efnis að efnt yrði til íbúakosningar um listaverkið að lokinni betri kynningu á því. Þar væri undir það inngrip sem verkið hefði í náttúruna, það er stígagerð í Eldfelli. „Við veltum líka fyrir okkur kostnaðinum; en skiptingin á 120 milljónum króna átti að vera sú að bærinn greiddi 50 milljónir og ríkið 70 milljónir. En ljóst er að sá kostnaður yrði umtalsvert meiri og óljóst á hverjum sú upphæð lendir. Svo viljum við líka sjá útlit verksins, okkur dugar ekki að fá aðeins að vita að Ólafur Elíasson sé hönnuður, þótt stórt nafn sé,“ segir Eyþór.

Sem fyrr segir fjallar bæjarstjórn í Eyjum um fyrirhugað listaverk á fundi í dag og þá tillögu Sjálfstæðisflokksins að málið fari í íbúakosningu. Sjónarmið meirihlutans hefur verið að kosning nú jafngildi því að hætta við listaverkið. sbs@mbl.is