Hughrif Gyrðir Elíasson segir að myndirnar sem hann málar séu í raun ljóð án orða.
Hughrif Gyrðir Elíasson segir að myndirnar sem hann málar séu í raun ljóð án orða. — Ljósmynd/Einar Falur Ingólfsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gyrðir Elíasson opnaði um síðustu helgi sýningu á myndverkum sínum í Garðinum, Suðurnesjabæ, þar sem hann sýndi afrakstur síðustu fimmtán ára, alls um tólf hundruð myndir. Sem er þó aðeins hluti af þeim myndum sem hann hefur gert eins og ég kemst að …

Viðtal

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Gyrðir Elíasson opnaði um síðustu helgi sýningu á myndverkum sínum í Garðinum, Suðurnesjabæ, þar sem hann sýndi afrakstur síðustu fimmtán ára, alls um tólf hundruð myndir. Sem er þó aðeins hluti af þeim myndum sem hann hefur gert eins og ég kemst að þegar ég geng um sýninguna með honum skömmu fyrir opnun. Það er ævintýralegt að ganga um gríðarstóran salinn á Sunnubraut 4 þar sem myndir þekja alla veggi og borð, já og gluggasyllur – myndir af öllum stærðum, sumar svo smáar að Gyrðir réttir manni stækkunargler til að skoða. Það kemur ekki á óvart að Gyrðir sé að mála myndir, myndir eftir hann eru á bókarkápum hans undanfarin ár, en fjölbreytileiki myndanna er óvæntur og hvernig allt litaspjald tilfinninganna birtist í þeim.

Myndirnar á sýningunni eru þó ekki bara fjölbreyttar hvað varðar aðferð og tækni, heldur eru þær líka í óteljandi tilbrigðum af römmum, enda segist Gyrðir hafa verið iðinn við að sanka að sér römmum. „Ég hef lengi verið með áráttu fyrir nytjamörkuðum og þar hef ég fundið óteljandi ramma í gegnum árin. Sumir rammanna sem ég hef rekist á þar kalla nánast á það að tiltekin mynd verði teiknuð inn í sig, en það getur líka verið snúið að púsla saman römmum og myndum.

Tólf hundruð myndir á fimmtán árum, en þó bara hluti myndanna.

„Þetta er í raun bara hluti myndanna, ég hugsa að ég eigi aðrar tólf hundruð í ramma og svo sennilega 2.500 óinnrammaðar, þannig að það er svolítið mikið sem liggur, ég þurfti því að velja nokkuð strangt úr, svo ótrúlegt sem það kann að virðast! Í gær fékk ég póst frá þýðanda mínum í Svíþjóð sem hafði frétt að myndirnar væru tólf hundruð og þá hafði hann fyrir nokkru tekið sig til og talið ljóðin mín og fundið það út að þau væru tólf hundruð og tvö, en það er á lengri tíma, þau spanna víst ein fjörutíu ár.“

Þú lýstir því þannig við mig um daginn að myndirnar væru eins og ljóð án orða.

„Já, það hafa komið upp viss atvik í mínu lífi þar sem má segja að orðin hafi verið lögð til hliðar, en sálin hélt áfram að starfa í gegnum þennan „miðil“, þetta var nærtækasta tjáningarleiðin til að halda sér gangandi. Sá augnabliksandi sem er í þessum myndum, náttúrustemningar og slíkt að stórum hluta, er bara svo nálægt ljóðinu, hvernig ljóðið sprettur upp hjá mér. Það er engin ein leið hvernig ljóð verða til hjá skáldum, en hvað mig varðar þá er þetta mjög náið hvort öðru.“

Á sýningunni er vissulega mikið af náttúrumyndum, en það eru oft ekki stór náttúrufyrirbæri, heldur smá; ein planta, hundasúruhnaus, stakur fugl eða brot úr fjalli, og þá vissulega ekki langt frá ljóðunum þínum eða smáprósum.

„Ég hef alltaf verið mjög upptekinn af höfuðskepnunum, en líka öllu því smáa sem er innan „þess ramma“, eins og lífið er. Mér finnst bara samspilið milli hins smáa og stóra alltaf jafn áhugavert því við erum öll bara hluti af stærri heild. Þetta er það sem ég blíni á bæði þegar ég er að skrifa og mála.“

Það eru innan um myndir af fjöllum, sem eru eðlilega stór, en þú ert oft að taka hluta úr þeim, mála fjallsöxl eða hluta af egg.

„Það er oft ákveðið sjónarhorn sem grípur mig og stór hluti af þessum fjallamyndum er það sem kalla mætti hugarfjöll, eftir gamalli ljóðabók eftir mig. Oftast er eitthvert fjall á bak við sem er í sjálfu sér til einhvers staðar, en ég fer bara eftir minningunum, ég er ekki með ljósmynd af fjallinu fyrir framan mig, fer ekki á netið og gúgla mynd af fjallinu, heldur bara vinn beint upp úr huganum.“

Þannig að þú ert að mála hughrif.

„Ég er að mála hughrif fyrst og fremst, ég geri eiginlega aldrei neitt eftir beinni fyrirmynd.“

Á sýningunni eru myndir unnar með ýmiskonar tækni, vatnslitum, pastellitum, olíukrít, akrýllitum og trélitum. Hefur það eitthvað breyst með tímanum hvaða verkfæri þú notar?

„Fyrir fimmtán til tuttugu árum þegar ég var að byrja á þessu af einhverri alvöru, ég hafði gert svolítið af myndum áður, þá voru það trélitirnir sem ég byrjaði með. Kannski fannst mér þeir auðveldastir við að eiga og svo er það líka næsti bær við það að vera með blýant, einsog þegar maður skrifar frumdrög að einhverju.

Mér fannst trélitirnir mjög skemmtilegir lengi vel, þeir dugðu mér alveg, en svo smám saman, eftir því sem manni eykst færni, þá leitar maður nýrra leiða, finnur nýja fleti, og þá komu inn vatnslitir og olíukrítin, sem mér finnst sérlega gaman að vinna með. Svo hef ég líka talsvert notað vaxliti, sem margir halda að sé ekki alvöru efni, en til eru vaxlitir sem eru algerlega „fullorðins“ og bjóða upp á heilmikla möguleika, sér í lagi með réttum tegundum af pappír.“

Þú átt eitt stærsta listaverkabókasafn sem um getur, þannig að myndlistaráhuginn nær langt aftur í þínu lífi.

„Hann nær allt aftur í bernsku, ég ólst upp við þetta frá föður mínum og svo er Sigurlaugur bróðir minn myndlistarmaður og ég lærði mikið af þeim og af því að alast upp nánast í vinnustofu málara. Ég teiknaði samt ekki mikið meira en hvert annað barn, hafði alltaf áhuga, en það var nóg að vera með tvo myndlistarmenn í fjölskyldunni og ég færði ég mig yfir í orðin, þó það hafi blundað í mér að að einhverntímann myndi ég kannski fara að mála.

Það var svo einkennilegt með pabba að hann langaði alltaf til að verða skáld, undir niðri, þannig að ég fór eiginlega öfuga leið með það. En það er líka sérstakt að það er ekki fyrr en hann deyr fyrir tæpum sautján að ég fer að leggja í það sjálfur að mála, hafði haldið mig til hlés að mestu fram að því. Það var þó ekki meðvitað, en ég sé það þegar ég fer að tala um það.“

Þú nefndir það líka um daginn að þú málaðir mun meira eftir að þú fluttir út í Garð.

„Þegar við fluttum út í Garð fyrir sex árum fékk ég aukið pláss til að vinna í, fékk heilan bílskúr sem ég gat breytt að hálfu í skrifstofu og að hálfu í myndlistarvinnslu. Svo er það þannig með Reykjanesið að þó það sé svo nakið og bert þá eru þar þessar höfuðskepnur yfirgnæfandi, sjórinn og landið og himininn; já og eldurinn, maður lifandi, ekki má gleyma honum nú á síðustu misserum! Svo er það fjallasýnin, það er Snæfellsjökull í garðinum eins og hjá Ísaki Harðarsyni, nema hér er Garðurinn með stórum staf, og þetta hefur kallað fram í mér einhverja sterka myndræna þörf.“

Myndirnar eru unnar með ýmiskonar tækni, en þær eru líka á ýmiskonar pappír. Það eru hér myndir á gæða-myndlistarpappír, en svo eru aðrar á bréfsnifsum, afrifum, jafnvel kvittunum eða málaðar aftan á notuð umslög.

„Það er einmitt það sem mér finnst skemmtilegt. Annars vegar hef ég mjög gaman af því að vinna á fínasta pappír sem ég fæ, panta frá Japan og víðar, en svo finnst mér ekki síður skemmtilegt ef ég finn mér umslag eða snifsi af umbúðapappír eða þessháttar og ég hef gert myndir aftan á Bónuskvittanir. Það eru kannski mín „Bónusljóð“ svo ég vísi til Andra Snæs Magnasonar. Efniviðurinn getur verið mjög hversdagslegur og skiptir ekki öllu máli.“

Svo finnur þú líka bréfsnifsi sem minnir á fjall, eins og ég sá á einni myndinni.

„Það gerist stundum að ég sé þar sem búið er að rífa af einhverjum minnismiða og hugsa: Nei, þarna er fjall og svo lími ég það á blað og mála yfir svo myndin verður ögn upphleypt. Ég læt bara innsæið ráða því. Ég hlusta alltaf mikið á músík, bæði þegar ég er að skrifa og þegar ég geri myndir, til dæmis oft á Keith Jarrett og það sem mér finnst ég hafa lært af honum er að spinna af fingrum fram, að leyfa mér að vita ekki hvað tekur við næst, að láta kylfu ráða kasti.“