Tilbrigði ljóss Steindi glugginn í dómkirkjunni í Greifswald.
Tilbrigði ljóss Steindi glugginn í dómkirkjunni í Greifswald. — Ljósmynd/Jens Ziehe, Studio Olafur Eliasson
Steindir gluggar eftir Ólaf Elíasson voru vígðir um helgina í dómkirkju heilags Nikulásar í Greifswald í Mecklenburg-Vorpommern í Þýskalandi. Gluggarnir eru settir saman úr 3.383 handblásnum bláum, gulum og rauðum einingum

Steindir gluggar eftir Ólaf Elíasson voru vígðir um helgina í dómkirkju heilags Nikulásar í Greifswald í Mecklenburg-Vorpommern í Þýskalandi.

Gluggarnir eru settir saman úr 3.383 handblásnum bláum, gulum og rauðum einingum. Dagsbirtan fellur í gegnum gluggana og á að minna á litatilbrigði sólarupprásar. Fjölda spegla milli glugga og kórs á að nota til að leiða ljósið lengra inn í kirkjuna.

Í frétt þýska ríkisútvarpsins í Norður-Þýskalandi, NDR, er haft eftir Tilman Beyrich, dómkirkjupresti í Greifswald, að það hafi frá upphafi verið „draumur okkar“ að fá glugga eftir Ólaf í kirkjuna.

Um þessar mundir er þess minnst að 250 ár eru frá fæðingu málarans Caspars Davids Friedrichs. Hann fæddist í Greifswald 1774 og var skírður í kirkjunni.

Manuela Schwesig, forsætisráðherra Mecklenburg-Vorpommern, sagði að Ólafur endurspeglaði náttúruöflin í innsetningum ­sínum og léki sér að skynjun ­okkar og upplifun: „Hér er það ljósið og útkoman er áhrifarík.“

Ólafur leitaði í verk Friedrichs eftir innblæstri. Hann var viðstaddur vígsluna á gluggunum og sagði þar að ljósið í málverkum Friedrichs hefði haft áhrif á sig, sérstaklega í málverkinu „Gröf Huttens“ frá 1823. „Lituðu glerin eiga að grípa ljósið sem fellur inn í kirkjuna úr austri og lýsa upp kirkjuskipið,“ sagði Ólafur.

Segir í frétt NDR að kirkjuglugginn sé listaverk sem sé einstakt í Evrópu. Verkið nefnist „Gluggi fyrir ljós á hreyfingu“.