Hæfileikaríkur Reggie þykir einstakur í sínu fagi.
Hæfileikaríkur Reggie þykir einstakur í sínu fagi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við erum eldgamlir vinir. Við kynntumst á lítilli knæpu í New York árið 2007, þannig var mitt 2007. Við urðum góðir vinir og hann ýtti mér út í burlesque á þeim tíma. Hann reddaði mér áhorfendaprufum og stóð þétt við bakið á mér,“ segir …

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

„Við erum eldgamlir vinir. Við kynntumst á lítilli knæpu í New York árið 2007, þannig var mitt 2007. Við urðum góðir vinir og hann ýtti mér út í burlesque á þeim tíma. Hann reddaði mér áhorfendaprufum og stóð þétt við bakið á mér,“ segir skemmtanadrottningin og fjöllistakonan Margrét Erla Maack um Reggie Watts.

Grínistinn og tónlistarmaðurinn Reggie Watts er væntanlegur til landsins síðar í mánuðinum þar sem hann kemur fram í Gamla bíói í Reykjavík, Vagninum á Flateyri og í Samkomuhúsinu á Akureyri. Skemmtanirnar eru lokahnykkur á Evrópuferðalagi hans. Reggie er þekktastur fyrir að hafa verið hljómsveitarstjóri í Late Late Show með James Corden í mörg ár en þar áður var hann þáttastjórnandi Comedy Bang! Bang! Í uppistandinu blandar hann saman tónlist, taktkjafti (e. beat-box) og spuna þar sem allt er nær búið til á staðnum. Einnig hefur hann fengið yfir tíu milljón áhorf á Youtube.

Margrét verður á ferð með Reggie um landið en ástæðan fyrir því að hann kemur á þessum tíma árs er afmæli Margrétar. „Ég kvíði alveg fyrir því að keyra með honum vestur því ég verð svo þreytt. Hann er alltaf „on“, hann segir sjö sögur í einu svo maður þarf að hægja á honum. Þetta verður áskorun fyrir mig,“ segir hún og hlær.

Vildi eitthvað lítið og sveitt

„Hann kom til Íslands 2009 síðast þar sem hann kom fram á Sódóma, gömlum stað og það var lítið gigg. Eftir það varð hann risastór,“ segir Margrét.

„Hann var hjá James Corden í sjö ár og það eru svolitlir hlekkir, þú getur voðalega lítið gert því þú ert að spila á hverju einasta kvöldi. Svo í fyrrasumar hittumst við í Berlín og þá segir hann að hann geti loksins ferðast aftur og langi að koma til Íslands.“

Hann vildi fara út fyrir Reykjavík líka svo hann kemur fram á Akureyri. Hann sagði að hann langaði í eitthvað eitt lítið, rosalega sveitt. Þá sagði ég, já við förum á Vagninn á Flateyri,“ segir hún hlæjandi.

Kenna skemmtanavísindi

Þau Reggie verða einnig með námskeið í Lýðskólanum á Flateyri og segir Margrét þau vera langt komin með undirbúninginn. „Við erum að fara að kenna hvernig maður blandar ýmsu saman. Hann vinnur með uppistand og tónlist, ég vinn með leikhús og næturlíf. Við viljum kenna að það er hægt að gera hvort tveggja og það er ekki slæmt að fljóta á milli,“ útskýrir hún.

„Svo kennum við líka alls konar framkomu- og skemmtanavísindi. Hvernig þú hleður sjálfan þig til að geta gefið af þér fyrir þá sem lifa á því að gefa af sér endalaust. Við vonumst til þess að þetta verði eitthvað skemmtilegt út í lífið.

En við vinnum mikið með spuna. Það getur verið að við verðum nánast búin að rita eitthvað í stein en allt aðrar týpur mæta okkur síðan en við erum að búast við. Við flæðum inn í það, mjög hippalegt ég veit.“

Lifir og hrærist í sköpun

En við hverju má fólk búast á uppistandinu?

Við erum að ganga frá upphitun en það verður smá skrýtið, smá kabarett. Við komum upphaflega úr þeim heimi bæði tvö. En ég á erfitt með að útskýra hans sýningar. Hann er uppistandari og notar tónlist, hann er beat-boxari og er að búa til lög á staðnum.

Þegar ég fer á gigg með honum veit ég ekki hvort ég sé að hlæja af því að mér finnst þetta ótrúlega fyndið eða hvort ég sé að hlæja af því að ég er að spá hvernig mannshugurinn getur gert þetta. Það er ótrúlegt sem hann gerir. Hvernig hann nær að búa þetta til, vera svona ótrúlega fyndinn og hæfileikaríkur.“

Margrét segir Reggie ná til margra, hann sé vel metinn í hipphopp-heiminum, sirkus- og kabarettheiminum og af þeim sem hafa gaman af því að sjá uppistand. „Hann lifir og hrærist í sköpun, sem er ótrúlega magnað. Þegar hann kom síðast árið 2009, megnið af þeim sem komu var fólk úr hipphopp-senunni því hann var þekktur í þeim heimi. En nú er hann kominn inn í grínið líka.“

Stefnumótamenningin hjálpar

Það er mikil gróska í uppistands- og skemmtanasenunni hér á landi að sögn Margrétar og telur hún að allt hafi sprungið út á sama tíma. „Uppistandið var leiðandi, svo kom improvið og dragið og svo burlesque. Það er ótrúlega fallegt hvað það er mikill samgangur á milli.

Ég er ekki að segja að það hafi ekki verið neitt áður. En það var aldrei neitt sem hægt verður að kalla senu. Nú er hægt að fara á uppistand í hverri viku, drag-sýningu í hverri viku. Það sem er svo skemmtilegt við þessar jaðarsenur er að maður þarf ekki margra ára nám til að eiga erindi upp á svið. Það eru til kvöld fyrir þá sem eru að búa til og skapa. Sena þar sem allir tala saman og benda hver á annan.

En mig langar að segja að ég held að stór hluti af þessu sé vegna þess að við erum komin með stefnumótamenningu, það spilar inn í og ég held að þetta vinni saman. Fjölbreytt skemmtanasena er að styrkja deitmenninguna eða deitmenningin er að styrkja skemmtanasenuna.“

Miðar á Reggie Watts fást á Tix.is. Reggie kemur fram í Samkomuhúsinu á Akureyri 25. apríl, í Gamla bíói í Reykjavík 26. apríl og 3. maí á Vagninum á Flateyri.