Stórstjarnan Marisa Abela lærði á gítar og fór í söngtíma daglega til að undirbúa sig fyrir hlutverkið.
Stórstjarnan Marisa Abela lærði á gítar og fór í söngtíma daglega til að undirbúa sig fyrir hlutverkið. — Ljósmyndir/Dean Rogers, Focus Features
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Amy Jade Winehouse var ensk söngkona og lagahöfundur sem fæddist í London hinn 14. september 1983. Hún var einna þekktust fyrir djúpa og kraftmikla rödd sína og fjölbreyttan tónlistarstíl, þar á meðal blús, reggí og djass

Viðtal

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Amy Jade Winehouse var ensk söngkona og lagahöfundur sem fæddist í London hinn 14. september 1983. Hún var einna þekktust fyrir djúpa og kraftmikla rödd sína og fjölbreyttan tónlistarstíl, þar á meðal blús, reggí og djass. Eftir Amy liggur fjöldi laga, má þar kannski helst nefna hina vinsælu slagara „Rehab“ og „You Know I'm No Good“, en plata hennar Back to Black, sem kom út 2006, gerði hana að fimmföldum Grammy-verðlaunahafa. Fyrir vikið komst hún í Heimsmetabók Guinness fyrir að vera sú breska listakona sem unnið hefur flest Grammy-verðlaun. Amy lést langt fyrir aldur fram úr áfengiseitrun, aðeins 27 ára, en hún hafði áður glímt við áfengis- og fíkniefnavanda auk þess að vera með átröskunarsjúkdóminn búlimíu.

Horft til hæfileikanna

Kvikmyndin Back to Black verður frumsýnd hér á landi, sem og víða erlendis, á morgun en myndin spannar seinni hluta unglingsára söngkonunnar fram til dauðadags. Leikstjóri myndarinnar er Sam Taylor-Johnson en hún er þekkt fyrir myndir á borð við Nowhere Boy, Fifty Shades of Grey og Love You More. Blaðamanni Morgunblaðsins bauðst að sjá myndina í dymbilbikunni til að geta undirbúið sig fyrir viðtal við leikstjórann, framleiðandann Alison Owen, handritshöfundinn Matt Greenhalgh og tvo aðalleikara myndarinnar, þau Marisu Abela, sem fer með hlutverk Amy í myndinni, og Eddie Marsan sem leikur föður hennar, Mitch Winehouse. Fór viðtalið fram á fjarfundi en auk fyrrnefndra voru á fundinum nokkrir erlendir kollegar mínir frá ýmsum fjölmiðlum ytra. Gafst okkur kostur á að spyrja aðstandendur myndarinnar til skiptis og nota síðan spurningar og svör allra að vild.

„Fólk er enn að hlusta á tónlist Amy en okkur fannst umræðan um ótímabæran dauða hennar, fíknina og lífsstílinn hafa tekið yfir umræðuna um ótrúlega hæfileika hennar sem söngkonu og lagahöfundar. Okkur langaði því að einblína aftur á hæfileikana og það bjarta frekar en að láta myrkrið verða hennar arfleifð. Það var okkar sýn fyrir þessa mynd í upphafi og það er það sem ég vona að áhorfendur sjái líka og taki með sér,“ segir Owen þegar undirrituð spyr hana út í sýn hennar á myndina og hvað hún telji að hún skilji eftir sig hjá áhorfendum.

„Ég vona að áhorfendur finni sársaukann sem Amy gekk í gegnum en heiðri samt líf hennar og hæfileika með því að fara heim, setja lögin hennar á, hlusta á tónlistina og finna bæði ástríðuna og hæfileikana sem voru svo sannarlega fyrir hendi,“ bætir hún við.

Hið fullkomna handrit

Sam Taylor-Johnson og Matt Greenhalgh höfðu áður unnið saman en kvikmyndin Nowhere Boy, sem Taylor-Johnson leikstýrði, var nokkurs konar annáll um Bítilinn John Lennon. Þegar þau hittust svo fyrst til að ræða handritið að Back to Black voru þau staðráðin í að einblína á það áhugaverðasta í lífi Amy. Vildu fyrst og fremst segja sögu út frá sjónarhorni söngkonunnar og leggja áherslu á hæfileika hennar og viðhorf. Áhersla handritshöfundar var einnig mikil á ástarsamband Amy við eiginmann sinn Blake
Fielder-Civil, leikinn af Jack O'Connell, sem var stóra ástin í lífi hennar en skilnaður þeirra hafði djúpstæð áhrif á Amy. Þegar myndin var svo kvikmynduð var farið eftir fyrsta uppkasti af handritinu sem að sögn leikstjórans er ansi sjaldgæft.

„Yfirleitt gengur handritið fram og til baka að minnsta kosti tíu sinnum, með þartilgerðum breytingum, en þetta handrit var útfært á svo fallegan hátt að það þurfti ekki,“ er haft eftir Taylor-Johnson í kynningarefni um myndina. Þar kemur einnig fram að við handritsgerðina hafi Greenhalgh fundist sérstaklega mikilvægt að sýna hina sönnu ást á milli Amy og Blake þótt vissulega hafi samband þeirra verið eitrað á köflum sökum neyslu þeirra og lífsstíls. „Það hefði verið svo auðvelt að gera Blake að vonda karlinum í lífi hennar en ég trúði því að það væri önnur saga þarna sem þyrfti að segja,“ útskýrir hann.

Blaðamanni Morgunblaðsins leikur forvitni á að vita meira um handritið og spyr hann því hvort erfitt hafi verið að velja hvaða þætti í lífi Amy ætti að leggja áherslu á. „Já, bæði og, en þó ekki í upphafi því þá höfðum við úr svo mörgu að velja. En þegar við vorum búin að þrengja hringinn, sem tók ekki svo langan tíma með þessu frábæra teymi sem við höfðum, vorum við frekar ánægð með þemað og tóninn í myndinni og þá Amy sem við vildum sjá. Þegar við vorum svo alveg ákveðin í því í hvaða átt við vildum fara með handritið voru skrifin ein þau bestu, mest skapandi og auðveldustu á mínum ferli. Mér fannst ég alveg í essinu mínu þegar ég settist niður og skrifaði en svo það sé sagt þá er Amy meðhöfundurinn, þetta er ekki ég heldur hún, því flestir textarnir hennar, það sem hún sagði og allar tilvitnanirnar hennar notaði ég óspart og það er allt algjör snilld. Ég held reyndar að hún ætti að fá allan heiðurinn, ég myndi elska það,“ segir Greenhalgh og hlær dátt.

Krefjandi hlutverk

Líkt og fyrr segir fer leikkonan Marisa Abela með hlutverk Amy. Að sögn aðstandenda myndarinnar var mesta áskorunin við gerð hennar að finna leikkonu sem myndi smellpassa í hlutverkið en ljóst var þegar Abela mætti í prufur að leitinni væri lokið. Ekki var lagt upp með að finna tvífara söngkonunnar heldur einhverja sem gæti leikið hlutverkið á sannfærandi hátt. Þegar Abela bauðst hlutverkið tók það hana hins vegar tvær vikur að ákveða hvort hún vildi taka það að sér. Var ástæðan sú að hún vissi að það krefðist mikils af henni og þessu hlutverki þyrfti að mæta með virðingu og ást. Fljótt heyrðust þó óánægjuraddir netverja um að Abela væri ekki nógu lík Amy í útliti og of stutt væri liðið frá dauða söngkonunnar til að gera mynd um hana en framleiðendur ákváðu að láta alla slíka gagnrýni sem vind um eyru þjóta.

Abela undirbjó sig að eigin sögn vel fyrir hlutverkið en hún sér sjálf um allan söng í myndinni. Til að ná enn betri tökum á söngstíl Amy sótti hún söngtíma í tvo og hálfan tíma á dag, á hverjum degi í fjóra mánuði. Þá vann hún jafnframt náið með plötuframleiðandanum Giles Martin, raddþjálfanum Anne-Marie Speed og Söruh Green, sem sá um að þjálfa hana í réttri líkamsbeitingu, svo hún líktist Amy sem mest. Abela fluttist til að mynda til Camden, þar sem Amy bjó og myndin var að mestu tekin upp, til að kynnast bænum sem var Amy svo kær. Þá lærði hún einnig á gítar svo tónlistarsenurnar yrðu enn meira sannfærandi.

Líkt og margir vita var líf Amy á köflum þyrnum stráð og kepptust slúðurmiðlar við að birta myndir af henni í annarlegu ástandi. Þá var holdafar söngkonunnar oft og tíðum til umræðu og þá sérstaklega hvað hún þótti grönn og illa farin vegna neyslu. Mig langaði að vita hvernig Abela undirbjó sig fyrir að leika Amy þegar hún var sem veikust og spurði hana því nánar út í það.

„Ég undirbjó mig að ég held á sama hátt og fyrir allar hinar senurnar en depurðin, ósjálfstæðið og sársaukinn eru alveg á hinum enda skalans samanborið við ástina og gleðina. En Amy var þannig gerð að hún sökkti sér í hyldýpi tilfinninganna og allar tilfinningar hennar voru alltaf í botni. Þegar hún elskaði þá elskaði hún afar heitt, þegar hún fann til var sársaukinn ólýsanlega mikill svo að í öllum senunum reyndi ég að túlka það eins vel og ég gat. Fyrir þessi viðkvæmu augnablik reyndi ég að miðla sársauka Amy, sem í ákveðnum skilningi einangraði hana, en honum fylgir viss kyrrð og íhugun. Þú þarft að hafa ákveðna hugarró til að geta brugðist með sannfærandi hætti við hinum leikurunum,“ svarar hún og brosir í myndavélina.

Amman helsta fyrirmyndin

Cynthia, föðuramma Amy, spilar stórt hlutverk í myndinni en hana leikur Lesley Manville. Cynthia var söngkona og átti stóran þátt í að kynna Amy djasstónlist. Amy leit á hana sem sína helstu fyrirmynd, bæði í söng og tísku, og eru einlægu sambandi þeirra gerð góð skil í myndinni. Þá var Mitch, faðir Amy, mikill aðdáandi Franks Sinatra og söng hann oft fyrir dóttur sína enda var lagið „Fly Me to the Moon“ í miklu uppáhaldi hjá þeim feðginum. Amy var náin föður sínum og þegar hún loks var tilbúin að takast á við fíknina bað hún hann að fara með sig í meðferð. Aðspurður segist Eddie Marsan hafa kynnst Mitch vel þegar hann undirbjó sig fyrir hlutverkið.

„Ég eyddi miklum tíma með Mitch og hef eflaust verið algjörlega óþolandi í nokkra mánuði. Ég spurði hann að öllu sem mér datt í hug, hverra manna hann væri, hvar hann hefði gengið í skóla og hvernig hann kynntist móður Amy. Ég bað hann meira að segja að búa til lagalista fyrir mig og taka upp „Fly Me to the Moon“. Hann var mjög hreinskilinn hvað varðar ást sína á Amy, hvernig hann tókst á við aðstæður og hvaða mistök hann gerði. Ég er sjálfur faðir svo ég lék föður sem elskar barnið sitt, reynir að gera sitt besta, gerir mistök og er alltaf að velta því fyrir sér hvort hann hafi tekið réttar ákvarðanir. Það er það sem faðir gerir og þýðir að vera foreldri.“

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir