Tíðni sýkinga af völdum listeríu virðist fara vaxandi. Fram kemur í Farsóttafréttum sóttvarnalæknis að á fyrstu þremur mánuðum yfirstandandi árs hafi greinst fimm tilfelli af listeríu með blóðræktun á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, hjá fjórum körlum og einni konu, öllum á aldrinum 70-85 ára

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Tíðni sýkinga af völdum listeríu virðist fara vaxandi. Fram kemur í Farsóttafréttum sóttvarnalæknis að á fyrstu þremur mánuðum yfirstandandi árs hafi greinst fimm tilfelli af listeríu með blóðræktun á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, hjá fjórum körlum og einni konu, öllum á aldrinum 70-85 ára.

Að jafnaði greinast tveir til fimm einstaklingar á heilu ári hér á landi. Á árinu 2021 greindust fimm tilfelli af listeríusýkingu og sjö á árinu 2017 og var það þá mesti fjöldi listeríusýkinga á einu ári hér á landi.

Fullfrískum einstaklingum verður yfirleitt ekki meint af listeríusýkingu en sóttvarnalæknir bendir á í Farsóttafréttum að barnshafandi konum geti stafað hætta af listeríusýkingu sem geti leitt til fósturláts eða nýburadauða ef móðir smitast á meðgöngu og sýkillinn berst til fósturs í gegnum fylgjuna.

Helsta smitleið listeríu er með matvælum. Tíðni sýkinga af völdum listeríu hefur verið vaxandi í Evrópu. „Árið 2022 voru 2.770 listeríusmit tilkynnt í ríkjum ESB/EES eða 0,6 tilfelli á 100.000 íbúa. Fjöldi listeríusmita hefur farið hækkandi síðustu ár í Evrópu en hæst er nýgengið í Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku og almennt hjá fólki 65 ára og eldra,“ segir í Farsóttafréttum. Bent er á að í rannsókn hér á landi sem náði yfir 23 ára tímabil, frá 1978 til 2000, var 40 sjúkdómstilvikum lýst og var dánartíðnin um 33%. Síðustu ár hafa eins og fyrr segir tveir til fimm einstaklingar greinst árlega.

Sóttvarnalæknir segir að hækkandi nýgengi listeríu í Evrópu og hugsanlega á Íslandi líka, sérstaklega hjá eldri einstaklingum, sé áhyggjuefni. Listería geti valdið alvarlegum veikindum hjá viðkvæmum, ónæmisbældum, ungbörnum og eldri einstaklingum og því sé mikilvægt að leggja áherslu á forvarnir, vöktun og rannsóknir á mögulegum hópsýkingum.

„Nauðsynlegt er að fræða áhættuhópa um tengsl listeríu við ákveðin matvæli sem borin eru fram óelduð, svo sem mjúkosta, hrátt grænmeti, reyktan/grafinn lax og kjötálegg. Mikilvægt er að hafa í huga að jafnvel matvæli sem eru framleidd í samræmi við gæðastaðla geta valdið sýkingu hjá fólki með skert ónæmiskerfi,“ segir sóttvarnalæknir.