Elín Ragnarsdóttir fæddist í Reykjavík 5. janúar 1948. Hún lést á Landspítalanum 2. apríl 2024.

Útför hennar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 11. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku mamma.

Við systur trúum varla að þú sért farin frá okkur. Að missa báða foreldra sína með stuttu millibili fylgir óbærilegur sársauki og eftir sitja brostin hjörtu og stórt skarð sem ekki er hægt að fylla.

Þú varst svo einstaklega gjafmild og góð móðir, amma, langamma og vinur með skemmtilega lúmskan húmor og þrátt fyrir veikindin tapaðir þú honum aldrei. Þú gekkst alltaf skrefinu lengra til að veita okkur öllum ást og umhyggju og varst alltaf tilbúin til að hjálpa hvort sem það var að þrífa, baka eða bara spjalla.

Heimilið ykkar pabba var alltaf opið fyrir alla þá sem vildu koma til ykkar. Þú varst elskuð af svo mörgum, ekki bara af okkur fjölskyldunni, einnig vinum okkar og hafðir einstakt lag á börnum hvort sem það voru okkar börn, börn vina okkar eða börnin í leikskólanum, þau máttu öll kalla þig ömmu því þú gerðir aldrei upp á milli, við erum svo óendanlega þakklátar að hafa fengið tækifæri til að segja þér hversu mikilvæg þú varst fyrir okkur öll og þökkum við þér fyrir það góða sem við gerum í okkar lífi.

Jólin voru í miklu uppáhaldi hjá þér og þegar íbúðin fylltist af jólaskrauti, misstórir jólasveinar sátu í öllum hillum og öll box fylltust af kökum vildum við og barnabörnin hvergi annars staðar vera.

Núna ertu farin til pabba og litlu systur okkar og með söknuði viljum við kveðja þig með þessum orðum.

Allt vilt þú fyrir aðra gera

hjálpa til í gegnum súrt og sætt.

Á öllum stöðum í einu vill hún vera

og á svipstundu er móðir mín mætt.

Ást móður er hjarta fjölskyldunnar.

Við elskum þig mamma og

munum ávallt gera.

Þínar stoltu dætur,

Hrefna Hauksdóttir,
Guðrún Rósa

Hauksdóttir,
Halla Hauksdóttir.

Nú er Ella farin í sumarlandið og er að henni sár missir og söknuður. Hún og Haukur hafa þá sameinast.

Ég kynnist Ellu nánast frá fæðingu '61 þar sem við vorum nágrannar og hún í fyrstu barnapían mín sem unglingur ásamt nokkrum öðrum. Snemma felldu hún og Haukur bróðir hugi saman, hún flutti inn og þar með varð hún strax nánasta fjölskylda okkar. Þau voru ansi ung. Mamma, Ólöf Hrefna, vann í Austurbæjarbíói fram á kvöld, og Ella tók snemma að sér að sjá um heimilið og mig þrátt fyrir ungan aldur. Og allt sem hún tók sér fyrir hendur gerði hún vel, með röggsemi og sóma.

Það var oft mikið um fjör í Hólmgarðinum fyrstu árin enda Bítlar og tjútt málið. Ella og Haukur voru auk þess miklir dansarar svo það var oft líflegt hjá okkur. Þau eignuðust Hrefnu og giftu sig 1965. Við bjuggum samt áfram í Hólmgarðinum næstu fjögur árin þar til þau fluttu á Hjaltabakkann þegar Guðrún Rósa var væntanleg 1969.

Fyrstu árin voru jól og hátíðisdagar haldnir í Hólmgarðinum hjá okkur mömmu en Ella og Haukur tóku síðar við. Og þegar mamma féll frá tók Ella við sem ættmóðir okkar allra.

Ella sýndi öllum ást, góðmennsku og virðingu. Hún var trúuð og miðlaði því fallega áfram. Ég minnist hennar varla öðruvísi en brosandi. Ella og Haukur gengu í gegnum sína erfiðleika en unnu sig í gegnum þá hverja af öðrum og alltaf samheldin þótt ólík væru. Ella var mesta barnagæla sem ég hef kynnst á ævinni og var hún harðákveðin í að eignast fleiri börn. Það tókst þegar Halla kom í heiminn 1978 en þau höfðu misst stúlku í millitíðinni. Halla var fyrirburi og mjög veik í byrjun, en allt gekk upp þrátt fyrir að líkurnar væru henni ekki í hag.

Þegar ég átti dóttur mína, Hrefnu Dögg, 1986 tóku Ella og Haukur henni opnum örmum sem hún væri ekki aðeins frænka heldur ömmubarn og Hrefna Dögg leit á þau sem slík. Það sama var þegar Hrefna Dögg og sambýlismaður hennar, Heiðar, áttu sín börn, fyrst Siggu Báru 2018 og svo tvíburana Elínu Emblu og Hörð Henry 2021. Ég er þeim hjónum ævinlega þakklát fyrir það og þann stuðning sem þau ætíð sýndu okkur.

Fyrst systranna til að eignast barn var Guðrún Rósa, sem átti Hauk Heimisson 1988. Þá var mikið um dýrðir – kominn drengur. Hrefna og hennar maður þá, Hans, eignuðust þrjá stráka og þar af tvíbura, fyrst Hans Patrek og svo Nökkva Má og Elis Per; Guðrún Rósa ásamt sambýlismanni þá, Birni, eignaðist Elínu og Tristan, og Halla og Steingrímur eignuðust Evu Marín og Rakel Sif. Ella og Haukur voru himinlifandi með barnabörnin sín og var heimili þeirra alltaf opið fyrir þau. Hún átti í sérstöku sambandi við þau öll og var í miklum hávegum hjá þeim. Þegar fyrsta langömmubarnið hennar kom í heiminn, hann Bjartur hans Hans Patreks, var mikið um dýrðir.

Ella var góð heim að sækja, tók fólki opnum örmum og myndaði strax tengingu. Ég held að öllum sem henni kynntust hafi þótt vænt um hana. Hún var einstök og sennilega góðhjartaðasta vera sem ég hef kynnst. Ég elska hana sem mína aðra móður. Guð blessi hana og styrki fjölskylduna í sorg sinni.

Sigríður Stefánsdóttir.