[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Jóhannes Jón Eyleifsson fæddist á Akranesi 19. janúar 1944. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 1. apríl 2024.

Foreldrar hans, bæði frá Akranesi, voru Sigríður Sigmundsdóttir húsmóðir frá Ívarshúsum, f. 19.5. 1900, d. 19.3. 1972, og Eyleifur Ísaksson skipstjóri frá Dalsmynni, f. 27.9. 1892, d. 19.7. 1976.

Jóhannes var langyngstur í stórum systkinahópi en þau ólust upp á Lögbergi á Akranesi. Systkini hans eru öll látin en þau voru: Guðmundur, Ísak, Viggó, Ingileif, Ársæll, Oddný og Einar. Auk þeirra ólst upp á Lögbergi systursonur Jóhannesar, Eyleifur Hafsteinsson, búsettur á Akranesi.

Jóhannes kvæntist 30. september 1967 Drífu Garðarsdóttur, f. 9. janúar 1949. Foreldrar hennar eru bæði látin en þau voru Garðar Bergmann Benediktsson og Ásta Guðjónsdóttir.

Börn Jóhannesar og Drífu eru: 1) Garðar, f. 4. júlí 1967, maki Vera Bulaevskaya. Dætur þeirra eru Daria og Emilia. 2) Eyleifur Ísak, f. 17. janúar 1971, maki Halldóra Sverrisdóttir. Börn þeirra eru Jóhannes Jón og Gerður Ósk. Áður átti Eyleifur soninn Kristófer. 3) Linda Dröfn, f. 19. september 1973, maki Sigtryggur Karlsson. 4) Lovísa, f. 15. maí 1980. Dóttir hennar er Drífa Katrín. Jóhannes og Drífa bjuggu allan sinn búskap á Akranesi.

Hanni, eins og hann var ávallt kallaður, byrjaði aðeins 12 ára að stunda sjómennsku með föður sínum. Ungur að árum starfaði hann sem verkstjóri í fiskverkun í Grindavík. Hanni starfaði einnig í Sementsverksmiðjunni í yfir 25 ár en samhliða því stundaði hann þó alltaf sjómennskuna. Að lokum sneri hann sér alfarið að eigin útgerð á trillunni Leifi AK 2.

Útför Jóhannesar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 11. apríl 2024, og hefst athöfnin kl. 13.

Símtalið kom á óvart, eins og var við að búast, þó að ég hafi reynt að undirbúa mig fyrir það – ég var farinn að venjast því að hann gæti tekist á við allt og komist frá öllu réttum megin. Þannig var pabbi.

Það er margs að minnast og margs að sakna.

Undanfarið, sem pabbi tveggja lítilla stelpna, verður mér oft hugsað til pabba og minnar eigin æsku. Innst inni gat pabbi verið ótrúlegur prakkari og ekki var langt í krakkann í honum, sem var náttúrulega einstaklega skemmtilegt þegar maður er sjálfur krakki. Á þeim tíma vann hann í Sementverksmiðjunni og stundaði svo sjóinn með. Sem þýðir; að fara út á sjó eftir vinnu upp úr fjögur að vitja grásleppuneta um vorið og snemma sumars, skak og lína og auðvitað lúðulóðir seinni parts sumars og um haustið, og jafnvel fram á vetur. Og auðvitað var farið á sjó um helgar ef gaf. Á sama tíma gat hann fundið tíma til standa í hinni og þessari vitleysunni með mér og Leifa bróður – sem mig grunar að hann hafi haft jafn gaman af og við Leifi! Ævintýri sem fólust til dæmis í að búa til risastóra flugdreka úr svörtum ruslapokum, með löngum hala með blöðum úr gömlu dagblaði. Eða búa til trésverð og skjöld, skorinn úr krossviði og skreyttur, þannig að maður gat farið og barist við hina pollana uppi á Skaga, sem voru ekkert nema öfund. Og ekki talandi um aðdragandann að gamlárskvöldi, þar sem maður fékk einkakennslu í að búa til heimatilbúnar bombur með púðri úr hvítum poka.

Það var ekkert meira kúl en að eiga pabba sem keyrði lyftara á daginn og veiddi lúður eftir vinnu. Og stundum hákarl.

Ég vona að ég eigi eftir að skilja eftir álíka minningar meðal dætra minna (sleppum kannski heimatilbúnum gamlársbombum).

Takk fyrir allt saman pabbi. Þín er sárt saknað og minnst daglega.

Garðar Jóhannesson.

Elsku pabbi.

Það er svo óraunverulegt að setjast niður, rifja upp og átta sig smám saman á því að þú ert farinn frá okkur. Mér finnst einhvern veginn eins og þú sért bara ennþá á Kanarí eða þá að sansa eitthvað. Þú varst nefnilega sjaldnast verkefnalaus, ef það var rólegt fannstu eitthvað sem hægt var að gera, hvort sem það var í bílskúrnum, í bátnum, niðri í gám eða úti í garði.

Það var oft ótrúlegt að hlusta á þig segja frá því sem þú hafðir upplifað eða afrekað í gegnum árin, hvort sem það var í tengslum við sjóinn, ferðalög eða annað. Þú varst klárlega einn af þeim allra duglegustu og hörðustu og lést fátt stoppa þig. Þú varst oft ákveðinn, þrjóskur og stundum hrjúfur en þú varst samt svo ofboðslega góður og skemmtilegur.

Ef það var eitthvað sem þú passaðir sérstaklega vel upp á vorum það við, fjölskyldan. Ég er mjög þakklát því þú studdir mig alltaf, í gegnum gleði og sorg. Þú varst alltaf tilbúinn að aðstoða mig eða dóttur mína Drífu Katrínu ef þörf var á. Við eigum eftir að sakna þín óendanlega mikið en um leið minnumst við þín með hlýju og mikilli ást og þökkum fyrir allar samverustundirnar sem við áttum.

Gleði, hlátur, sorg og tár,

þakklát ég er fyrir öll okkar ár.

Ég minnist þín með mikilli hlýju

en veit þú ert með mér þar til við hittumst að nýju.

(Lovísa)

Ég trúi því af heilum hug að þú hafir siglt þína síðustu ferð, inn í draumalandið, eins og þér einum var lagið.

Hvíl í friði, elsku pabbi minn, og takk fyrir allt.

Þín,

Lovísa.

Elsku afi minn.

Mér finnst mjög skrítið að þú sért farinn en við áttum mjög góðar stundir saman sem mér þykir rosalega vænt um. Við gerðum margt skemmtilegt. Við tókum rúnt á vinnubílnum, fórum á sjóinn og svo fannst mér rosalega skemmtilegt þegar við vorum saman á Kanarí og spiluðum mínigolf. Ég mun alltaf hugsa til þín og ég veit að þú verður alltaf hjá mér. Ég er svo þakklát fyrir að hafa knúsað þig vel og spjallað við þig daginn áður en þú kvaddir.

Ég mun alltaf sakna þín og elska þig.

Þín afastelpa,

Drífa Katrín.

Nú er bjart um Skipaskaga,

skín á nes og vör,

sendir honum ástarauga

aldin jökulskör.

Hillir uppi gömlu Garða,

góða kostajörð,

leikur mildur austrænn andi

yfir Borgarfjörð.

Fiskisælir fjarðarálar

faðma auðugt land,

brotnar faldhvít undiralda

inn við Langasand.

Heiðin ber að baki sveitar

bjartan hamrastall,

yfir bæ í bráðum vexti

brosir Akrafjall.

Er hér margt sem augað laðar:

önn í sveit og bæ,

vaskar hendur vinnufúsar,

verk á landi og sæ.

Már á báru, síld í sundum,

sígrænt hey á teig,

höfuðborgin handan flóans

heilsar gullineyg.

Þannig kvað Ragnar Jóhannesson um Skipaskaga. Og þannig var Akranes þegar móðir mín ung að árum kom þangað, í fjölskynduna á Lögbergi, sem eiginkona Einars Skafta, bróður Hanna.

Hanni kveður síðastur systkinanna á Lögbergi. Allt dugnaðarfólk og öll voru sterkir persónuleikar, hvert og eitt.

Hanni var bara 11 ára þegar móðir mín kom að Lögbergi og aðeins rúmum fimm árum yngri. Hún hafði oft á orði að Hanni hefði verið henni sem litli bróðir hennar.

Úr faðmi hafnar hraustir sveinar

hrinda skeið á mar,

hlýjar kveðjur hýrra meyja

heiman fylgja þar.

Flytja heim á kyrru kveldi

knerrir dýran feng.

Hafsins auður hefir löngum

heillað röskan dreng.

Hanni var ungur þegar hann fór að róa sinni skektu og fiska. Var honum það í blóð borið, enda sonur eins mesta fiskimanns Akurnesinga, Leifa á Lögbergi. Hanni var gæfumaður á sjónum og annálað snyrtimenni.

Gæfumaður í einkalífinu þegar hann hitti Drífu sína og átti með henni börnin sín fjögur, sem öll hafa komið sér vel fyrir í lífinu.

Eftir að móðir mín var orðin ekkja fyrir um 30 árum, og kynntist seinni manni sínum, þá myndaðist með þeim góð vinátta Hanna og Hilla heitnum. Árviss samvera á Kanaríeyjum í mörg ár var ógleymanleg og fyrir það ber að þakka.

Ég fékk að vera með gráslepputrossu og reri með Hanna sem unglingur á Leifa. Seinna, nú fyrir fáeinum árum, var ég með bát við strandveiðar að gamni mínu með félaga mínum. Þá var Hanni strax til í að gefa góð ráð og fylgdist vel með. Hann átti það til að hringja þegar ég var að fiska grunnt og ráðleggja mér: „Þú færð ekkert þarna, drengur, færðu þig innar og grynnra.“ Það þótt mér vænt um.

Heill þér, drottning flóans fagra,

fengsælt Akranes,

meðan brag við bakka þína

bylgja hvikul les.

Auð og giftu góðra vætta

gríptu höndum tveim,

fylgi hún hverju fleyi þínu

farsællega heim.

(Ragnar Jóhannesson)

Þannig endar ljóðið Skipaskagi. Akranes hefur breyst mikið og verður aldrei samt, líkt og Ragnar lýsir.

Hanni hefur siglt sínu fleyi farsællega heim í höfn í sumarlandinu, síðastur systkinanna á Lögbergi. Þar ríkir sátt og þar ríkir friður.

Innilegar samúðarkveðjur til elsku Drífu, barna og fjölskyldunnar allrar.

Blessuð sé minning Hanna á Lögbergi.

Fyrir hönd móður minnar Guðnýjar Ernu Þórarinsdóttur.

Kveðja frá Fosnavogi í Noregi,

Einar Örn Einarsson.