Gasasvæðið Palestínumenn í Rafah-borg sjást hér koma saman í tilefni trúarhátíðarinnar Eid al-Fitr.
Gasasvæðið Palestínumenn í Rafah-borg sjást hér koma saman í tilefni trúarhátíðarinnar Eid al-Fitr. — AFP/Mohammed Abed
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í fyrrakvöld að hann teldi að Benjamín Netanjahú og Ísraelsstjórn væru að gera mikil mistök með nálgun sinni á átökin á Gasasvæðinu. Skoraði Biden jafnframt á Netanjahú að blása strax til tímabundins vopnahlés í sex …

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í fyrrakvöld að hann teldi að Benjamín Netanjahú og Ísraelsstjórn væru að gera mikil mistök með nálgun sinni á átökin á Gasasvæðinu. Skoraði Biden jafnframt á Netanjahú að blása strax til tímabundins vopnahlés í sex til átta vikur til þess að leyfa matvælum og lyfjum að komast til óbreyttra borgara á Gasasvæðinu.

Ummæli Bidens féllu í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina Univision, sem sendir aðallega út efni á spænsku, og var viðtalið tekið upp fyrir síðustu helgi. „Ég held að hann sé að gera mistök,“ sagði Biden meðal annars um Netanjahú og nálgun hans á átökin.

Talið er að nokkuð stirt sé á milli leiðtoganna tveggja, en Biden hótaði því í síðustu viku að Bandaríkjamenn myndu draga stuðning sinn við stríðsreksturinn til baka ef Ísraelsher gætti þess ekki betur að verja óbreytta borgara og alþjóðlega hjálparstarfsmenn fyrir árásum.

Hamas hafnaði tillögunni

Biden nefndi ekki í viðtalinu örlög þeirra gísla, sem enn eru í haldi hryðjuverkasamtakanna Hamas eftir hryðjuverkin 7. október, en Hvíta húsið áréttaði í gær að sú vopnahléstillaga sem Bandaríkjamenn hefðu lagt fram fæli í sér að fjörutíu gíslum samtakanna yrði sleppt í skiptum fyrir 900 palestínska fanga sem nú dvelja í ísraelskum fangelsum á meðan vopnahléið stendur yfir, en áætlað er að rúmlega 90 gíslar séu enn á lífi og í haldi Hamas-liða.

Talsmenn samtakanna sögðu hins vegar í gær að Hamas hefði hafnað tillögum Bandaríkjastjórnar, sem verið hafa til umræðu í vopnahlésviðræðunum í Kaíró síðustu daga. Ætla samtökin að leggja fram sína eigin tillögu.

Sögðu talsmenn samtakanna að tillaga Bandaríkjanna hefði ekki falið í sér leið til þess að binda varanlegan enda á átökin á Gasasvæðinu. Þá vilja Hamas-liðar að öll fangaskipti verði gerð í tengslum við að Ísraelsher dragi hluta herliðs síns heim frá Gasasvæðinu á sama tíma.

Háttsettur ísraelskur embættismaður sagði við bandaríska dagblaðið Wall Street Journal í gær að Ísraelsstjórn hefði verið opin fyrir því að leggja tillögu Bandaríkjastjórnar til grundvallar fyrir vopnahlé, þrátt fyrir að stjórnvöld í Ísrael teldu hana vera betri fyrir Hamas-samtökin.

Hátíð í skugga loftárása

Ísraelsmenn héldu áfram loftárásum sínum á Gasasvæðið í gær, en þá héldu múslimar upp á fyrsta dag Eid al-Fitr, eða lok föstumánaðarins ramadan. Loftárásirnar eru liður í undirbúningi Ísraela fyrir hernaðaraðgerðir í Rafah-borg, sem Ísraelsstjórn segir vera síðasta vígi Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu.

Ísraelsher sagði í tilkynningu í gær að hann hefði náð að útrýma nokkrum fjölda hryðjuverkamanna á Gasasvæðinu í bardögum síðustu daga, sem einkum hafa farið fram á Gasasvæðinu miðju. Sagði herinn jafnframt loftárásir sínar hafa beinst að fjölda skotmarka á borð við bækistöðvar, eldflaugapalla, innganga að neðanjarðargöngum og öðrum byggingum sem Hamas-samtökin hefðu á valdi sínu.

Ismail Haniyeh, leiðtogi Hamas-samtakanna, sagði hins vegar í gær að þrír af sonum sínum og nokkur barnabörn hefðu fallið í loftárás Ísraelshers á Gasaborg í gær. Haniyeh hafði áður misst son sinn í árás í febrúar, og bróðir hans og bróðursonur féllu í október á síðasta ári.

Ali Khamenei, æðstiklerkur Írans, sagði í gær að refsa þyrfti Ísraelsmönnum fyrir árás þeirra á ræðismannsbústað Írana í Damaskus í síðustu viku, en þar féllu sjö háttsettir meðlimir íranska byltingarvarðarins. Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, svaraði hótun Khameineis á samfélagsmiðlum sínum og sagði að Ísraelar myndu svara fyrir sig ef Íran réðist á Ísrael með árásum á Íran.