Morgunblaðsfrétt Þrjár útgáfur af andlitsmynd. Howard Matson bendir á skrifborðið þar sem Korkurinn fannst.
Morgunblaðsfrétt Þrjár útgáfur af andlitsmynd. Howard Matson bendir á skrifborðið þar sem Korkurinn fannst.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1977 Allt í einu stökk hann fram á ganginn í áttina að kvikmyndavélinni og skellti á eftir sér hurðinni. Frásögn Morgunblaðsins.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Af og til koma upp fréttamál sem vekja athygli þjóðarinnar um tíma en falla síðan í gleymsku. Ný mál koma upp sem athyglin beinist að.

Hér verður rifjað upp eitt slíkt mál frá árinu 1977, mál bandarísks afbrotamanns og strokufanga sem kallaður var Korkurinn. Um hann var fjallað á útsíðum dagblaðanna dag eftir dag í tvær vikur. Núna muna eflaust fáir eftir þessu máli og mögulega bara ofanritaður blaðamaður, sem var einmitt löggufréttamaður Morgunblaðsins á þessum árum og skrifaði um það margar fréttir.

Fyrsta fréttin um málið birtist á baksíðu Morgunblaðsins fimmtudaginn 20. janúar 1977. Upphaf fréttarinnar var þannig:

„Varnarliðsmaður sem setið hefur í gæzluvarðhaldi hér á landi um margra vikna skeið vegna rannsóknar fíkniefnamálsins mikla slapp út úr fangelsinu á Keflavíkurflugvelli seint í gærkveldi. Þorgeir Þorsteinsson lögreglustjóri staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi, en vildi ekkert frekar um málið segja, nema hvað mannsins væri ákaft leitað á Keflavíkurflugvelli og í nágrenni.

Morgunblaðið gat aflað sér þeirra upplýsinga, að fanginn hefði náð lyklunum af einum fangaverðinum, ýtt honum inn í klefann og lokað fangavörðinn þannig inni í klefanum. Síðan tók hann bíllykla úr jakkavasa fangavarðarins, stal bílnum hans og ók á brott. Hafði fanginn ekki fundizt klukkan 02.00 í nótt, en lýsing á honum hafði verið send til allra lögreglustöðva.“

Alltaf á vaktinni!

Kvöldvaktin á Morgunblaðinu hefur svo sannarlega verið á tánum þetta kvöld!

Daginn eftir upplýsir Morgunblaðið að bíll fangavarðarins hafi fundist í fjörunni skammt frá Grindavík. Var hann mannlaus. Benti allt til þess að flóttinn hefði verið skipulagður og fanginn haft vitorðsmenn. Howard Matson, blaðafulltrúi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, upplýsir að margir hafi verið yfirheyrðir en ekkert sé vitað um dvalarstað strokufangans.

Nafn mannsins var jafnframt birt og reyndist hann heita Christopher Barbar Smith, 23 ára gamall og gekk undir gælunafninu Korkurinn (Corky). Fóru íslenskir fjölmiðlar fljótlega að nota það nafn. Hann hafði árið 1976 komið mjög við sögu eiturlyfjamála á Íslandi og verið einn af aðalmönnunum í stóru fíkniefnasmygli.

Strax þennan dag fóru blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins í heimsókn á Keflavíkurflugvöll og var sagt ítarlega frá henni.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem blaðið aflaði sér hafði Christopher þessi verið til mikilla vandræða síðan hann kom hingað til lands í herþjónustu í júlí 1974. „Hefur hann verið sérstaklega afkastamikill við smygl og sölu á fíkniefnum. Allir lögfræðingar varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli munu hafa beðist undan því að verja mál Smiths, og var fenginn til þess lögfræðingur frá Norfolk í Bandaríkjunum. Kom sá einmitt til landsins daginn sem Smith strauk úr fangelsinu,“ sagði í fréttinni.

Næstu daga eru daglegar fréttir af leitinni að strokufanganum sem ekki bar árangur. Fjörur voru gengnar í nágrenni Grindavíkur og auglýst eftir mönnum og bílum. Ábendingar bárust frá almenningi, margar á dag að sögn lögreglunnar. Þannig kom ábending um útlending nálægt Ísólfsskála en þetta reyndist vera annar varnarliðsmaður á hlaupaæfingu.

Minna þessar fréttir mjög á þá miklu leit sem fram fór í kjölfar hvarfs Geirfinns Einarssonar í Keflavík í nóvember 1974. Sú leit bar engan árangur eins og alþjóð veit.

Fimmtudaginn 27. janúar boðaði Howard Matson blaðamenn á sinn fund á Keflavíkurflugvelli og var ítarleg frásögn í Morgunblaðinu daginn eftir.

Matson lýsti flóttanum í smáatriðum og var hann skrautlegur í meira lagi. Grípum niður í frásögnina:

„Verðirnir tveir og fanginn voru í gangi fangelsisins, á milli klefa „Korksins“ og anddyrisins, en þar er stúka fyrir fangaverðina. Var verið að sýna kvikmynd, þar sem sjónvarpið í fangelsinu var bilað. Var sýningartjaldið sett upp í innri enda gangsins, en sýningarvélin framar á ganginum og nær útihurðinni. Varð að hafa hurð á miðjum ganginum opna, til að nægilegt bil væri á milli vélarinnar og tjaldsins. Voru verðirnir þannig staðsettir að annar var vinstra megin við hurðina, hinn aðeins innar á ganginum. „Korkurinn“ var hins vegar hægra megin við hurðina og allt í einu stökk hann fram á ganginn í áttina að kvikmyndavélinni og skellti á eftir sér hurðinni, sem er stjórnað með rafútbúnaði.

Fyrir ofan hurðina og vegginn sem þiljaður er af á miðjum ganginum er um eins metra stórt gat upp að loftinu. Tókst fangavörðunum að klifra upp vegginn og komast í gegnum þetta gat eftir nokkra erfiðleika. Er þeir komu fram í anddyrið sáu þeir að síminn i stúku þeirra hafði verið rifinn úr sambandi og gátu þeir því ekki gert viðvart. Dyrunum að anddyrinu hafði fanginn læst á eftir sér og mun hafa haft í fórum sínum lás til þess.“

Fangelsið var notað til bráðabirgða og ekki traustvekjandi að sjá. Þetta var braggi og eitt fyrsta húsið sem Bandaríkjamenn reistu á Keflavíkurflugvelli, líklega 1942 eða 1943.

Korkurinn slapp út af varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli á bílnum en fór síðan aftur inn á það nokkrum dögum síðar.

Loksins handsamaður

Það var svo aðfaranótt 2. febrúar sem Korkurinn fannst loksins þar sem hann var í felum í birgðaskemmu á flugvellinum. Frá þessu er greint á heilli síðu í Morgunblaðinu daginn eftir.

Lögreglumenn Varnarliðsins fundu fangann um klukkan 1.45 í fyrrinótt og voru þeir sex saman við leit í skemmunni, sagði í fréttinni.

Ekki fannst Korkurinn í hreiðri sínu, heldur í skrifstofu vinstra megin við aðaldyrnar, en verkstæðið og hreiður Korksins voru hægra megin þegar komið var inn í skemmuna.

„Lögreglumaður, sem leitaði í skrifstofunni, heyrði þrusk undir skrifborðinu og þegar hann leit undir borðið sá hann mann liggja þar í hnipri. Lögreglumaðurinn spurði manninn, að sögn Howards Matsons, hvort hann væri Corky Smith. Þegar maðurinn svaraði játandi var hann umsvifalaust tekinn í vörzlu herlögreglunnar, færður til yfirheyrslu og síðan í fangelsi Varnarliðsins.“

Lauk þar með leitinni að strokufanganum Christopher Barbar Smith sem staðið hafði yfir frá 19. janúar.

Hinn 7. júní var Christopher Barbar dæmdur í fjögurra ára fangelsi í sakadómi fyrir stórfellt fíkniefnasmygl. Þetta var langþyngsti fíkniefnadómur sem kveðinn hafði verið upp á Íslandi fram til þessa.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson