Breiðhöfði 27 Drög að fjölbýlishúsum á einni lóðinni á Ártúnshöfða.
Breiðhöfði 27 Drög að fjölbýlishúsum á einni lóðinni á Ártúnshöfða. — Teikning/JVST arkitektar/Þorpið vistfélag
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Sumarið 2019 sagði Viðskiptablaðið frá því að samningar hefðu verið undirritaðir um uppbyggingu á 10 hektara landi á Ártúnshöfða.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Sumarið 2019 sagði Viðskiptablaðið frá því að samningar hefðu verið undirritaðir um uppbyggingu á 10 hektara landi á Ártúnshöfða.

Með fréttinni fylgdi mynd af þeim Ingva Jónassyni framkvæmdastjóra Klasa, Degi B. Eggertssyni, þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur, og Pétri Árna Jónssyni, framkvæmdastjóra Heildar fasteignafélags, undirrita samning um uppbygginguna.

Klasi og Heild fasteignafélag, fyrir hönd Árlands ehf., voru sögð stærstu lóðarhafar fyrir utan borgina.

Áætlað byggingarmagn á lóðum Árlands væri um 80 þúsund fermetrar.

Hinn 29. október 2021 sagði Viðskiptablaðið svo frá því að Þorpið 6 ehf., dótturfélag Þorpsins vistfélags, hefði keypt byggingarrétt á Ártúnshöfða að 80 þúsund fermetrum ofanjarðar. Seljandi væri Árland ehf., félag í eigu Agros fjárfestingasjóðs. Heildarfjárhæð samningsins væri 7 milljarðar króna en Arctica Finance hefði stýrt fjármögnun verkefnisins fyrir Þorpið.

Það var svo sagt frá því í Morgunblaðinu síðastliðinn þriðjudag að Þorpið 6 ehf. hefði selt félaginu Skugga 4 ehf. byggingarréttinn á Ártúnshöfða.

Tvíþætt viðskipti

Samkvæmt heimildum blaðsins greiðir Skuggi annars vegar 683 milljónir fyrir lóðina Breiðhöfða 9 og hins vegar 10,3 milljarða fyrir um 80 þúsund fermetra af byggingarrétti. Samanlagt greiði Skuggi því um 11 milljarða fyrir byggingarlóðir sem Þorpið keypti í lok október 2021.

Samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofunnar eru 7,4 milljarðar í október 2021 um 9 milljarðar á núvirði, á verðlagi í mars 2024. Lóðirnar hafa því hækkað um 2 milljarða króna á núvirði en frá því dregst vaxtakostnaður hjá Þorpinu 6 ehf. sem átt hefur lóðirnar í tvö og hálft ár. Á það má benda að meginvextir Seðlabanka Íslands voru 1,5% í október 2021 en eru nú 9,25%.

Í ársreikningi Árlands ehf. árið 2021, árið sem félagið seldi Þorpinu 6 lóðirnar á Ártúnshöfða, er getið um tengda aðila. „Tengdir aðilar eru þeir aðilar sem hafa umtalsverð áhrif á félagið, beint eða óbeint, þ.m.t. móðurfélag, systurfélag, hlutdeildarfélag, stjórnarmenn, lykilstarfsmenn, félög í meirihlutaeigu þessara aðila, sjóðir í stýringu GAMMA Capital Management hf. og félög í þeirra eigu.“

Fyrstu íbúðir yrðu klárar 2023

Fulltrúar Þorpsins 6 ehf. voru stórhuga þegar kaupin á Höfðanum voru gengin í gegn. Afhenda átti fyrstu íbúðirnar í júní 2023 og ljúka uppbyggingunni á þremur til fimm árum.

Nú hefur Þorpið hins vegar selt lóðirnar frá sér og engin íbúð hefur verið afhent. Salan var gegn vilja Áslaugar Guðrúnardóttur, stjórnarformanns Þorpsins vistfélags, eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær.

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins í október 2021 sagði að svæðið sem Þorpið 6 ehf. hefði keypt yrði þróað og markaðssett undir heitinu Grænhöfði: „Það liggur að Krossmýrartorgi þar sem endastöð fyrsta áfanga Borgarlínu opnar í júní 2025 en Borgarlínan liggur í gegnum svæðið.“

Boðaði félagslegar áherslur

Runólfur Ágústsson, verkefnastjóri þróunar hjá Þorpinu vistfélagi, boðaði í sömu frétt félagslegar áherslur við uppbyggingu hverfisins.

„Við munum einnig leggja áherslu á félagslega blöndun varðandi efnahag og aldur. Hluti íbúðanna verður leiguíbúðir, hluti fyrir eldri borgara og þarna verða glæsilegar þakíbúðir með útsýni til suðvesturs yfir borgina. Þá viljum við einnig þróa með borginni hagkvæmar íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur líkt og við höfum verið að byggja í Gufunesi auk þess sem Félagsbústaðir munu hafa kauprétt að 5% íbúða,“ sagði Runólfur í samtali við Viðskiptablaðið.

Hjá borginni fengust þær upplýsingar að Ártúnshöfðinn væri hagnaðardrifið verkefni á frjálsum markaði og borgin hvorki að úthluta lóðum beint í hagkvæmt né „grænt“ húsnæði.

Höf.: Baldur Arnarson