Guðmundur Karl Brynjarsson
Guðmundur Karl Brynjarsson
Við þurfum að mæta andlegri leit fólks með margvíslegum hætti en þó alltaf á traustum grunni kristinnar trúar.

Guðmundur Karl Brynjarsson

Í dag hefjast kosningar til embættis biskups Íslands.

Ég er einn þeirra þriggja sem var treyst fyrir því að vera í kjöri eftir tilnefningar starfandi djákna og presta þjóðkirkjunnar. Ég tók þeirri tilnefningu af auðmýkt og af einurð. Þær vikur sem síðan hafa liðið munu verða mér ógleymanlegar, að kynnast landinu mínu á þessum árstíma og hitta skemmtilegt og áhugavert fólk, bæði leika og lærða, sem á það sameiginlegt að helga kirkjunni sinni krafta, kærleika og tíma og unna henni.

Breytt staða

Staða og hlutverk biskups hefur breyst mikið á skömmum tíma samhliða breyttri stöðu þjóðkirkjunnar. Þeim hluta biskupsþjónustunnar sem fólst í veraldarvafstri innan stjórnkerfis þjóðkirkjunnar, þar sem glímt var við fjármuni og rekstur, hefur að miklu leyti verið létt af biskupi og lagt í hendur kirkjuþings og nýkjörinnar stjórnar þjóðkirkjunnar. Með því má segja að embætti biskups og hlutverk hans sé komið á lygnari sjó en áður.

Þó erfitt sé að sjá hvert þær breytingar leiði okkur til lengri tíma litið sé ég mikil tækifæri í nýrri stöðu biskups. Með henni skapast rými fyrir biskup til að vera einfaldlega hirðir á hinum kirkjulega vettvangi og einnig á breiðari grunni samfélagsins. Hirðir er sá sem vakir yfir hjörð sinni og finnur henni öruggan veg og leitast við að tryggja aðstæður svo hún geti vaxið og dafnað í öryggi og friði. Þess konar biskup vil ég vera.

Hlutverk biskups er meðal annars að tala máli kristinnar trúar og þjóðkirkjunnar og standa vörð um boðun hennar og styðja við þjónustu hennar og þau sem starfa á vettvangi hennar. Íslenskt samfélag er fjölbreytt og krefjandi og sá jarðvegur sem í boði er fyrir kristna trú og áhrif er af öllu tagi. Þeim mun mikilvægara er að biskup leyfi sér að vera ákveðin og óhrædd rödd sem talar máli kirkju og kristni með fjölbreyttu móti.

Áskoranir og tækifæri

Það eru gerðar miklar kröfur til þjóðkirkjunnar, sem betur fer. Og hún á að gera miklar kröfur til sjálfrar sín. Þjóðkirkjan og kristin trú mæta líka öllum mögulegum viðhorfum í nútímasamfélagi, jákvæðum og styrkjandi, neikvæðum og meiðandi, réttum og röngum. Þannig mun það alltaf vera og þar liggja líka áskoranir og tækifæri.

Það er enginn hörgull á áskorunum. Söfnuðir ná margir illa endum saman í rekstri á starfi sínu, þjónustu og kirkjuhúsum. Skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar fækkar. Skírðum börnum fækkar. Það þarf að koma á samtali við viðeigandi yfirvöld um þá breytingu að skírn innan þjóðkirkjunnar leiði af sér sjálfkrafa skráningu inn í þjóðkirkjuna.

Sumt er tákn tímanna enda hefur íslenskt samfélag breyst að gerð og lögun eins og vestræn samfélög almennt, einnig hvað trúarleg viðhorf varðar. Við getum ekki horft fram á við er viðmiðið er sú „dýrðarstaða“ sem þjóðkirkjan bjó við áður fyrr þegar meðlimir komu á færibandi af fæðingardeildinni. Sá tími er liðinn. Við þurfum að læra að vera þjóðkirkja í veraldlegu samfélagi. Í þeim áskorunum sem felast í breyttri stöðu og aðstæðum þjóðkirkjunnar felast tækifæri til sóknar.

Hér er ekki rúm til að telja upp hvernig ég sem biskup mundi vilja láta til mín taka. En ég vil samt nefna eftirfarandi sem skiptir mig mjög miklu máli:

Að hlusta eftir hugsunum, viðhorfum og hjartslætti kirkjufólks og forsvarsfólks í sóknum landsins. Þar eru raddirnar og fólkið sem biskup má ekki gleyma og ber að hlusta á og læra af, hvetja og efla og hjálpa safnaðarstarfi að blómstra hverju á sínum stað

Kirkjan á að nýta sér alla farvegi og stafræna miðla til að kalla á fólk og miðla því hver hún er og hvers vegna hún er.

Við lifum á tímum þar sem við erum öll með nefið fast í símum. Símaskjárinn er torg nútímans, þar erum við. Rödd kristni og kirkju þarf að hljóma hærra á því torgi. Þjóðkirkjan þarf að taka sitt eigið dagskrárvald í hendur á þeim vettvangi, sýna sitt rétta andlit, miðla því hver hún er. Þjóðkirkjan er öllum opinn faðmur og hefur sameinað hjörtu fólks á ögurstundum, skemmst er að minnast atburðanna kringum eldgosin á Reykjanesi. Nauðsynlegt er að benda á fjölbreytt og lifandi starf þjóðkirkjunnar víða um land þar sem reynt er að koma til móts við mismunandi þarfir fólks í nútímanum. Á símaskjánum er einnig vettvangur til að miðla voninni, Jesú, ljósi heimsins. Kirkjan þarf að vera rödd hrópandans í eyðimörk stafræns veruleika sem kallar fólk til lifandi kærleikssamfélags.

Að efla gerð og notkun fræðsluefnis fyrir alla aldurshópa, að efla barna- og æskulýðsstarf, þjálfun starfsfólks o.s.frv og fylgja því eftir með þeim úrræðum sem embætti biskups býður upp á. Við þurfum einnig að mæta andlegri leit fólks með margvíslegum hætti en þó alltaf á traustum grunni kristinnar trúar.

Ég valdi mér einkunnarorð í upphafi þessa ferðalags.

Verum uppbyggileg, örugg og óhrædd. Verum uppbyggileg kirkja sem miðlar elsku Guðs til allra og sýnir kærleikann í verki.

Verum örugg kirkja sem byggir á traustum grunni orðsins, játninganna og kærleika Jesú Krists.

Verum óhrædd kirkja sem felur Guði alla hluti, þiggur það hugrekki sem bænin veitir og tekst þannig á við allar hindranir og áskoranir.

Höfundur er í kjöri til biskups Íslands.

Höf.: Guðmundur Karl Brynjarsson