Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing er enn undir þrýstingi eftir að uppljóstrari tilkynnti bandarískum eftirlitsstofnunum að fyrirtækið færi flýtileiðir í framleiðslu á Boeing 787- og 777-breiðþotum

Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing er enn undir þrýstingi eftir að uppljóstrari tilkynnti bandarískum eftirlitsstofnunum að fyrirtækið færi flýtileiðir í framleiðslu á Boeing 787- og 777-breiðþotum. BBC-fréttaveitan greinir frá þessu.

Fram kemur í fréttinni að uppljóstrarinn er starfsmaður Boeing, verkfræðingurinn Sam Salehpour, sem kveðst hafa tilkynnt eftirlitsaðilum eftir að yfirmenn hótuðu honum uppsögn. Boeing sagði að fullyrðingarnar væru ónákvæmar og fyrirtækið væri fullvisst um að flugvélarnar væru öruggar

Hlutabréf í Boeing lækkuðu um tæp 2% á þriðjudaginn sl. þegar bandaríska flugmálastjórnin, FAA, sagðist rannsaka meintar ávirðingar og fyrirtækið tilkynnti að það hefði aðeins afhent viðskiptavinum sínum 83 flugvélar á fyrstu þremur mánuðum ársins, sem er minnsti fjöldi síðan 2021.