Upprunasveit Pólska upprunasveitin Arte dei Suonatori fagnar nú um stundir 30 ára starfsafmæli sínu.
Upprunasveit Pólska upprunasveitin Arte dei Suonatori fagnar nú um stundir 30 ára starfsafmæli sínu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harpa La Stravaganza ★★★★★ Tónlist: Antonio Vivaldi, Carl Philipp Emanuel Bach, Johann Georg Pisendel og Georg Philipp Telemann. Leiðari og einleikari: Rachel Podger. Hljómsveit: Arte dei Suonatori. Konsertmeistari: Aureliusz Goliński. Tónleikar í Norðurljósum Hörpu þriðjudaginn 26. mars 2024.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Á sama tíma og íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu freistaði þess að komast á lokamót Evrópukeppninnar í sumar fór fram nokkurs konar Evrópumót í barokktónlist í Hörpu. Um var að ræða fyrstu Reykjavík Early Music-hátíðina sem haldin er hér á landi og í sem stystu máli má segja að hátíðinni hafi tekist það sem karlalandsliðinu tókst ekki: Að slá í gegn. Að sögn listræns stjórnanda hátíðarinnar, Elfu Rúnar Kristinsdóttur, var markmiðið að „auðga tónlistarlífið á Íslandi enn frekar og gefa landsmönnum tækifæri til að upplifa einstaka tónleika með fremstu flytjendum heims í upprunaflutningi“.

Það var enski fiðluleikarinn Rachel Podger sem reið á vaðið á opnunartónleikunum en þeir báru heitið La Stravaganza. Með henni lék pólska upprunasveitin Arte dei Suonatori en hún fagnar nú um stundir 30 ára starfsafmæli sínu. Allir þessir listamenn njóta mikillar velgengni í heimi upprunaflutnings, þar á meðal á barokkverkum, en á efnisskránni voru hvorki meira né minna en fjórir fiðlukonsertar auk tveggja hljómsveitarverka. Þekktust voru verk Ítalans Antonios Vivaldis (1678-1741) en auk þeirra hljómuðu verk eftir samtímamenn hans, þá Carl Philipp Emanuel Bach (1714-1788), Johann Georg Pisendel (1688-1755) og Georg Philipp Telemann (1681-1767).

Rachel Podger er heimsþekktur fiðluleikari og hún hefur sérhæft sig í flutningi barrokktónlistar. Má sem dæmi nefna að hún var valin listamaður ársins hjá breska tónlistartímaritinu Gramophone árið 2018 ásamt því að gegna stöðu sendiherra hjá Réseau Européen de Musique Ancienne (REMA) árið 2020. Hún leikur á fiðlu frá árinu 1739, smíðaða af Pesarinius, en hann var síðar nemandi Stradivariusar.

Það var greinilegt frá fyrstu töktum fiðlukonserts Vivaldis í D-dúr (RV 204) að fram undan var veisla í boði fyrir tónleikagesti. Samhentur leikur hljómsveitar og Podger var áberandi og flutningurinn var ekki bara dýnamískur, heldur líka afar músíkalskur og hver einasti tónn fékk að „syngja“. Allar hendingar voru skýrar og raunar má segja að samhljómurinn hafi verið fullkominn. Það sást líka ekki hvað síst á látbragði hljóðfæraleikaranna. Það voru nefnilega ekki bara tónarnir sem voru samhentir, heldur voru hreyfingar þeirra líka í takt og það sem skipti máli var að allir hljóðfæraleikararnir brostu á meðan á leik stóð; þeir nutu þess sem þeir voru að gera og það smitaði út frá sér. Allt á tónleikunum hljómaði þannig „sjálfsprottið“, ekki þaulæft og vélrænt.

Flutningurinn var í alla staði prýðilegur og gildir þá einu hvort um einleikskonserta var að ræða (Vivaldi og Pisendel) eða hljómsveitarverk (C.P.E. Bach og Telemann). Hljómurinn var giska mjúkur og hlýr, sem ekki er alltaf raunin þegar um upprunaflutning er að ræða. Rúsínan í pylsuendanum var lokaverk tónleikanna, „Veturinn“ úr Árstíðunum eftir Vivaldi (fiðlukonsert í f-moll, RV 297). Þetta var auðvitað „frægasta“ verkið á tónleikunum og ég hef heyrt það margoft flutt. Hér hljómaði það hins vegar nánast eins og ég væri að heyra það í fyrsta skipti. Verkið tók þannig á sig ýmsar „myndir“, fékk stundum að hljóma býsna gróft en einnig á köflum einkar ljóðrænt (eins og til að mynda 2. þátturinn, „Largo“). Saman myndaði túlkunin órofa heild og var afar sannfærandi. Ég hefði þannig getað setið helmingi lengur að hlusta og raunar hefði ég gefið flutningum á „Vetrinum“ sex stjörnur, væri ég ekki bundinn þeim takmörkunum að geta aðeins farið upp í fimm.

Tónlistarhátíðin Reykjavík Early Music Festival fer einkar sannfærandi af stað og ég vona innilega að á henni verði framhald strax á næsta ári. Hún auðgar sannarlega tónlistarlífið hér á landi og er kærkomin viðbót við flóruna.