Árni Stefán Norðfjörð fæddist á Akureyri 15. febrúar 1936. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 3. apríl 2024.

Foreldrar Árna voru Wilhelm Norðfjörð kaupmaður, f. í Reykjavík 19. ágúst 1916, d. 25. júní 1985, og Guðrún Anna Sæmundsdóttir Norðfjörð húsmóðir, f. á Ólafsfirði 15. september 1913, d. 6. janúar 1992.

Bræður Árna eru Kjartan Norðfjörð, f. 1942, maki Auður Aradóttir, f. 1942, og Wilhelm Norðfjörð, f. 1950, maki Jóhanna Guðbjörnsdóttir, f. 1951.

Árni kvæntist 8. júní 1957 Lilju Guðrúnu Hallgrímsdóttur, f. 18. mars 1937. Foreldrar Lilju voru Hallgrímur Oddsson útgerðarmaður m.m., f. 1. október 1905, d. 21. október 1982, og Aldís Eyrún Þórðardóttir verslunarmaður, f. 23. október 1916, d. 26. desember 1993.

Börn Árna og Lilju eru: 1) Aldís Magnea, f. 1955, maki Arnar Páll Hauksson, f. 1954, börn þeirra eru Oddur Árni, f. 1976, maki Hrafnhildur Telma Þórarinsdóttir, f. 1978, Atli Haukur, f. 1977, maki Telma Hrönn Númadóttir, f. 1978, og Óðinn Páll, f. 1995, sambýliskona Sara Margrét Dougherty. 2) Wilhelm Gunnar, f. 1960, sambýliskona Sigurlaug Jónsdóttir, f. 1969. Börn Wilhelms með Ásu Katrínu Hjartardóttur eru Wilhelm Hjörtur, f. 2002, og Árni Steinn, f. 2004. 3) Ása Lilja, f. 1966, maki Terje Ragnvaldsen, f. 1959. Börn Ásu Lilju eru Villi Þorri, f. 1986, með Vilhjálmi Þór Vilhjálmssyni, Lilja, f. 1990, og Eskil, f. 1992, með Jan Kåre Jakobsen og Petter Valentinus, f. 2004, með Hans Petter Frafjord.

Langafabörn Árna eru 14 talsins.

Árni fluttist tveggja ára til Reykjavíkur, bjó lengstum á Víðimel í Vesturbænum þar sem hann gekk í skóla, m.a. Gaggó Vest. Hann var mörg sumur í sveit hjá ömmusystur sinni, (Andreu) Dreiju ömmu í Leirhöfn á Melrakkasléttu. Hann vann 16 ára hjá hernum á Keflavíkurflugvelli þar sem hann ók vörubíl, auðvitað próflaus. Árni vann við að sækja síldarstúlkur um allar sveitir á Sléttunni fyrir síldarvinnsluna á Raufarhöfn.

Árni lærði bifvélavirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík hjá Kristjáni í Ford. Strax að námi loknu fór hann á Rif á Snæfellsnesi þar sem Bandaríkjamenn voru að reisa mastur sem þá var hæsta mannvirki Evrópu. Árni lærði úrsmíði í Iðnskólanum í Reykjavík. Hann vann í mörg ár sem úrsmiður í fjölskyldufyrirtækinu Jóhannesi Norðfjörð, síðan vann hann sem fulltrúi hjá Brunabótafélagi Íslands, sundlaugarvörður í sundlaug Seltjarnarness og endaði svo starfsferil sinn sem forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar við Ásgarð í Garðabæ.

Árni var mikið fyrir félagsstörf, var meðal annars í stjórn handknattleiksdeildar KR, formaður handknattleiksráðs Reykjavíkur, í stjórn Úrsmiðafélags Íslands, Lionsfélagi, bróðir í Oddfellowstúkunni Snorra goða í Garðabæ og var stofnandi og formaður Landssambands forstöðumanna sundlauga- og íþróttamannvirkja.

Útför Árna fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 11. apríl 2024, klukkan 13.

Það er með trega og sorg sem ég kveð tengdaföður minn. Ég held reyndar að honum hafi ekkert litist á mig þegar ég hitti hann fyrst fyrir rétt tæpum 50 árum. Ég þá með sítt og mikið hár og rytjulegt skegg. Hann var að mínu mati rígfullorðinn með skegg og tottaði reglulega pípu. Hann var nú samt bara 40 ára, sem nú eru hálfgerð börn í mínum huga. Við urðum fljótt mestu mátar.

Árni var Vesturbæingur að uppruna sem varð til þess að hann var alla tíð harður stuðningsmaður KR. Reyndar fæddur á Akureyri þar sem hann bjó fyrstu tvö æviárin. Hann hafði taugar til Stjörnunnar því þar bjuggu hann og Lilja í um 55 ár. Hann leysti vandann þegar þessi lið kepptu á móti hvort öðru með því að fagna mörkunum hjá þeim báðum! Árni var líka einarður stuðningsmaður Newcastle. Meginskýringin á því var að hans sögn sú að hann valdi þetta lið vegna þess að liðið er í röndóttum búningi eins og KR. Hann vissi reyndar ekki að þetta væru í raun svartar og hvítar rendur því ákvörðunin um að styðja Newcastle var tekin þegar hér var bara svart-hvítt sjónvarp. Það var líka dýrmæt stund fyrir hann þegar hann fór með Willa syni sínum og tveimur barnabörnum, Oddi og Óðni, á Newcastle-leik fyrir nokkrum árum. Leikurinn var á móti Swansea city þegar Gylfi Sigurðsson lék með liðinu. Og það var ekki verra að leikurinn fór 3-0 fyrir Newcastle.

Árni fór til sjós sem ungur maður og var alla tíð áhugasamur um báta og sjómennsku. Sunnudagsbíltúrarnir enduðu alltaf með því að fara niður á höfn og kíkja á bátana.

Hann kunni því að meta það þegar við fórum á trillunni minni Smugunni út á Pollinn á Akureyri og drógum nokkra þorska úr sjó. Það voru skemmtilegar stundir með Árna.

Ég náði að eiga góðar stundir með Árna í janúar þegar hann flutt inn á Ísafold í Garðabæ. Hjálpaði til með að hengja upp fjölmörg falleg málverk eftir Lilju tengdamóður mína. Hann var þakklátur fyrir allt sem ég gerði þó svo að hann hafi ekki verið yfir sig hrifinn að vera kominn á hjúkrunarheimili. Við horfðum á fótboltaleiki og alltaf var boðið upp á nammi úr boxi sem Lilja fyllti reglulega. Árni fékk sér þó bara sykurlaust góðgæti. Á lokasprettinum náði hann að gleðjast yfir því að sjá sjá Newcastle vinna West Ham 3-2.

Ég minnist Árna með virðingu og þakklæti. Hann var húmoristi og ávallt þakklátur fyrir allt sem ég hjálpaði honum við. Hvíl þú í friði, kæri tengdafaðir.

Þinn tengdasonur,

Arnar Páll Hauksson.

Árni bróðir er dáinn. Það kom okkur ekki á óvart. Síðasta vikan hans gaf þetta til kynna. Það má segja að Árni hafi verið búinn að klára sig, lifa eins lengi og hægt var, hjartað búið og sykursýkin búin að taka sinn toll – þó er alveg hugsanlegt að hann hefði viljað sjá Newcastle vinna einu sinni enn – liðið í KR-búningnum. Árni var elstur, Kjartan kom sjö árum seinna, svo kom Willi 1950 daginn eftir að Árni fermdist. Við þrír vorum svo heppnir að eignast Einar fósturbróður í restina sjö árum seinna þannig að við urðum fjórir. Svo skemmtilega vill til að á vissu tímabili eru sjö ár á milli hvers og eins.

Það var áreiðanlega mikil gleðistund þegar pabbi og mamma tóku á móti Árna þegar hann kom í heiminn 15. febrúar 1936 á Akureyri. Hann fékk samfellt tveggja ára dekur hjá þeim fyrir norðan enda fyrsta barnabarn afa og ömmu. Sjálfsagt hefur það verið verðugt verkefni ungra foreldra að ala hann Árna upp miðað við sögurnar sem hann sagði okkur af prakkarastrikum á Víðimelnum. Á þessum tíma gátu börn verið uppátækjasöm, alltaf að, sýnt prakkarastrik, verið óstundvís, verið óþekk án þess að vera börn með ADHD. Foreldrar okkar voru áreiðanlega fljót að átta sig á því að það væri óhætt að setja hann Árna bróður í hendurnar á henni Lilju því þau giftu sig með leyfi forseta 1957 þar sem þau voru ekki komin á giftingaraldur sem var þá 18 ár fyrir konur og 21 ár fyrir karlmenn. Þau höfðu hitt hvort annað þegar Lilja var 15 ára og Árni 16 ára og haldist í hendur þar til Árni kvaddi heiminn. Hvað skyldi hafa valdið því að Lilja vildi halda í höndina á Árna sínum allt lífið? Í sjálfu sér vitum við það ekki en okkur finnst trúlegt að það hafi verið eitthvað af því sem okkur fannst svo gott við hann bróður okkar. Okkur fannst hann Árni skemmtilegur maður með allar sögurnar sínar um allt það fólk sem hann þekkti. Með sögunum kynntumst við því vel hvað honum fannst gaman að vera til og hve honum þótti vænt um fólk. Hann reyndist okkur vel og okkur þótti alltaf vænt um hann. Við bræðurnir voru ekki nánir í þeim skilningi að við værum alltaf að hittast en við áttum saman með Árna kærleiksbræðraþráð. Móðir okkar lagði mikið upp úr því að við yrðum góðir menn. Árni var góður maður. Blessuð sé minning hans.

Kjartan, Wilhelm (Willi)
og Einar, bræðurnir
hans Árna.

Það var veisla á Sunnuflötinni. Hlaðborðið svignaði undan kræsingum. Ég var gutti í veislu hjá Árna og Lilju og mér er ómögulegt að muna tilefnið. Það gæti hafa verið ferming, jólafögnuður eða hvað sem er. Þau voru þarna frændsystkini mín; Ása Lilja sem er næst mér í aldri, Willi Gunnar á óræðum unglings-fullorðinsaldri, kannski var hann að fermast, og Alla Magga sem er elst þeirra systkina. Ég var í góðum fíling, alsæll með veitingarnar sem ég var búinn að raða á diskinn en þá benti Árni frændi mér á eitthvað sniðugt, mér varð litið upp en ekkert að sjá. Hvað var Árni að spá? Og nú var diskurinn með öllu góðgætinu horfinn! Einkennilegt … ég fór að skima og leita. Þá heyrði ég Árna hlæja dátt. Svona er fyrsta minning mín af föðurbróður mínum Árna Stefáni Norðfjörð og ekki tilviljun að sú minning tengist hrekk sem iðulega var fylgt eftir með djúpum og mildum hlátri.

Frá 10 ára aldri vann ég um sumrin við sendlastörf í fjölskyldufyrirtækinu þar sem pabbi og afi stóðu vaktina á efri hæðinni. Árni var á jarðhæðinni og stýrði úraverkstæðinu. Ég var stundum sendur á lagerinn niður í kjallara, oftar en ekki að bjástra við trékassa frá Hinu Konunglega. Fyrst var kúbeinið mundað og naglar dregnir úr rammgerðu trévirkinu, þá var hálmurinn hreinsaður frá þar til glitti í bleikan silkipappír sem var vandlega vafinn utan um konunglega postulínið. Það var fært á bakka og flutt upp á jarðhæð, gengið fram hjá úraverkstæðinu, gegnum sveifluhurðina, inn í afgreiðslu þar sem fínlegri hendur tóku við dýrgripunum og nákvæmlega þannig rötuðu mávastell og jólaplattar inn á ótal heimili landsmanna. Á leiðinni til baka með tóman bakkann gat ég átt von á að heyra sögur frá Árna eða við gerðum upp söluna á getraunamiðum sem við seldum fyrir KR og fórum yfir hvor hafði fleiri rétta í síðustu viku – það þurfti jú alltaf að vera keppni.

Árni vildi að ég segði honum frá sigurleikjum mínum í yngri flokkum KR en það var óþarfi að segja frá hinum. Sögustundir voru Árna kærar og þessar fyndnu í uppáhaldi. Árna hefði þótt það skondið að í minningunni hafi mér þótt þessar stundir tímalausar þar sem á að giska þrjátíu veggklukkur tikkuðu í kringum okkur, að ógleymdum úrunum sem tifuðu inni í brúnum bréfpokum, kirfilega merktum eiganda ásamt firmastimpli, lýsingu á viðgerð og prís. Allt í föstum skorðum í verslun Jóhannesar Norðfjörð h/f á Hverfisgötu 49.

Þannig minnist ég Árna eins og ég minnist sendlastarfanna, allt baðað sumarbirtu og hlýju manna sem gat ekki staðið meira á sama um tímann því hann bara tifaði á meðan þeir gerðu sitt og hlógu dátt þess á milli. En þótt maður mæli tímann, geri stundum við hann, auk þess að hafa stríðna lund, náði Árni ekki að plata hann. Það verður ekkert falið fyrir tímans þunga nið og þannig fór að Árni flaut með fram í óendanleikann. Árni hefði reyndar ekki viljað orða þetta svona hátíðlega. Betra svona: Tíminn – Árni. Vissara að setja 1 á þau úrslit en í góð 88 ár var Árni með forystuna. Fór ansi langt á glettninni.

Sæmundur Norðfjörð.