Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Mótlæti gæti verið dulbúin blessun ef það verður til þess að horfst verði í augu við fjárhagsvandann og tekist á við hann af fullri alvöru. Með víðtæku aðhaldi og sparnaði væri unnt að láta af hallarekstri Reykjavíkurborgar og hefja niðurgreiðslu skulda.

Kjartan Magnússon

Áhugi fjárfesta á skuldabréfum Reykjavíkurborgar er lítill og fer þverrandi. Aðeins bárust tilboð upp á samtals 480 milljónir króna í tvo skuldabréfaflokka borgarinnar, sem boðnir voru út í síðustu viku. Borgin sá sér aðeins fært að taka tilboðum fyrir um 300 milljónir á afarkjörum.

Í umræddu útboði tók borgin tilboðum í verðtryggða skuldabréfaflokkinn RVK53 1 fyrir samtals 215 milljónir króna að markaðsvirði á ávöxtunarkröfunni 3,45%. Þá tók borgin tilboðum í óverðtryggðan skuldabréfaflokk, RVKN 35 1, fyrir samtals 101 milljón króna að markaðsvirði á kröfunni 8,85%.

Geigvænleg skuldasöfnun

Skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar munu hækka um rúma 26 milljarða króna á árinu og nema 516 milljörðum króna í árslok samkvæmt gildandi fjárhagsáætlun. Þar af munu skuldir borgarsjóðs hækka um tæpa tíu milljarða á milli ára og nema 209 milljörðum um næstu áramót.

Meirihluti borgarstjórnar ætlar borgarsjóði að taka ný lán fyrir allt að 16.500 milljónir króna á árinu 2024. Áformað er að lánsfjárins verði aflað með stækkun á virkum skuldabréfaflokkum borgarsjóðs, með útgáfu á nýjum skuldabréfaflokkum eða öðrum hætti.

Borgin hefur nú gefið út skuldabréf fyrir rúma fjóra milljarða króna að söluvirði það sem af er ári eða tæpan fjórðung þeirrar upphæðar sem lántökuáætlunin gerir ráð fyrir.

Þegar verðbólga er 6,8% verður ekki fram hjá því litið að Reykjavíkurborg er nú að fjármagna sig á yfir 10% vöxtum þar sem um verðtryggð skuldabréf er að ræða. Það eru afarkjör fyrir stóran aðila eins og Reykjavíkurborg. Langvarandi skuldasöfnun gerir að verkum að borgin er orðin mjög berskjölduð fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum.

Óviðunandi fjárhagsstaða

Slæm lánskjör Reykjavíkurborgar eru órækur vottur þess að fjárhagsstaða hennar sé óviðunandi og komin yfir hættumörk. Öllum ætti að vera ljóst að vandinn verður ekki leystur með áframhaldandi taprekstri og skuldasöfnun.

Í skoðanadálki Viðskiptablaðsins í liðinni viku sagði að tvö síðustu skuldabréfaútboð borgarinnar sýndu að fjárhagur borgarinnar væri í rjúkandi rúst.

Borgarstjórn verður að svara þeirri spurningu hversu langt sé hægt að ganga í skuldasöfnun og á hvaða kjörum. Nú virðist sú stefna ráða að taka öll lán sem bjóðast og á hvaða kjörum sem er.

Dulbúin blessun?

Mótlæti á lánsfjármörkuðum gæti verið dulbúin blessun ef það yrði til þess að meirihluti borgarstjórnar horfðist í augu við fjárhagsvandann og tækist á við hann af fullri alvöru.

Með víðtæku aðhaldi og sparnaði væri unnt að láta af hallarekstri Reykjavíkurborgar og hefja niðurgreiðslu skulda. Ljóst er að ábyrgur rekstur myndi styrkja stöðu borgarinnar á lánsfjármarkaði og bæta vaxtakjör hennar til muna.

Eitt brýnasta verkefni hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, er að ná tökum á hinni háu verðbólgu sem nú geisar. Til þess þarf að hemja útgjaldaaukningu hins opinbera og helst að lækka opinber útgjöld.

Ljóst er að umsnúningur í rekstri Reykjavíkurborgar til hins betra hefði jákvæð áhrif í baráttunni við verðbólguna, sem kæmi þannig öllum til góða.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.