Það veit á gott hversu fljótt forystumenn ríkisstjórnar skiluðu niðurstöðu

Það var vissulega styrkleikamerki fyrir stjórnarflokkana þrjá, hversu skamman tíma það tók að setja saman að nokkru nýja gerð af ríkisstjórn, án þess að nokkur eftirmál séu sjáanleg. Hafa verður í huga, að það tekur að jafnaði ekki mikla vinnu eða snúna, þegar einn ráðherra kýs að hverfa úr ríkisstjórn eða er „ýtt“ út úr ríkisstjórn, vegna einhverra atvika sem þykja gefa tilefni til þess, og slík viðbrögð séu óhjákvæmileg. Það síðarnefnda er ekki algengt en þó þekkt.

En vandinn að þessu sinni var stærri í sniðum vegna þess að það var sjálfur forsætisráðherrann, Katrín Jakobsdóttir, sem ákvað að velja sér nýjan vettvang, vilji fólkið í landinu veita henni brautargengi til þess.

Hún hafði, eðli málsins samkvæmt, skipt miklu máli fyrir anda, verkstjórn og skipulag ríkisstjórnarinnar, enda náði hún að gegna því starfi lengi samfellt. Hafa aðeins þrír forsætisráðherrar af 31 í sögu þjóðarinnar gegnt því embætti lengur samfellt en Katrín Jakobsdóttir. Hún sat í forsætisráðuneytinu í sex ár og fjóra mánuði samfellt. En þeir þrír, sem sátu það lengur samfellt, voru í sex ár og átta mánuði, rétt átta ár og þrettán ár og tæpa fjóra mánuði.

Auðvitað verður því ekki neitað að fyrrnefnd ríkisstjórn leysti stundum ágreining sem vaknaði með því að leysa hann ekki. Óhjákvæmilegt reyndist að ýta honum á undan sér og því eru óleystu málin fleiri og alvarlegri en æskilegt hefði verið.

Einhverjir þeirra, sem þurfa að gera sér rellu út af öllu, þóttust geta gert það tortryggilegt að forsætisráðherra landsins sæktist eftir því að verða kjörinn forseti í framhaldinu. Ríkið er ungt og forsetarnir eru ekki margir. Sá eini, sem fram til þessa hafði gegnt embætti forsætisráðherra og varð síðar forseti, var Ásgeir Ásgeirsson, sem sat á þingi þegar hann var kjörinn forseti. Ásgeir Ásgeirsson galt ekki reynslu sinnar sem forsætisráðherra, nema síður væri, og var um flest sannfærandi forseti. Áður hafði sendiherra og ríkisstjóri orðið forseti, svo virtur fornleifafræðingur, þá leikhússtjóri og loks fyrrverandi fjármálaráðherra. Og nú síðast var það kunnur sagnfræðingur, þannig að ekki hefur enn orðið til formúla um það, hverjir „megi“ verða forsetar og hverjir alls ekki, eins og sumir vilja endilega slá föstu. Fordæmin benda alls ekki til þess. Íslenskur almenningur virðist hugsa til flestra annarra þátta, þegar hann tekur afstöðu til kandídata í forsetaembættið.

Þótt stundum hafi verið hart deilt í baráttunni um forsetaefni og verulegur ágreiningur um það, hver skuli hljóta hnossið, þá verður ekki annað sagt en að heildarmyndin gefi til kynna, að landsmenn hafi í megindráttum talið sig, að kosningum loknum, hafa verið bærilega heppna og fljótlega orðið sáttir við sína forseta, hvort sem þeir kusu viðkomandi eða ekki og verður að vona að svo verði áfram.

Það er alkunna úr heimi stjórnmálanna að auðveldara er að koma saman tveggja flokka stjórn en þriggja eða fleiri flokka. Tveggja flokka stjórnir sitja gjarnan lengur og þar ríkir almennt meiri sátt en þegar flokkar eru fleiri í ríkisstjórninni og líklegra er að það takist að endurreisa samstarfið að kjörtímabili loknu, haldi flokkarnir bærilega velli í kosningum. Þegar flokkarnir eru fleiri reynir óneitanlega meir á formenn þeirra, sem hafa auðvitað metnað fyrir sjálfa sig og flokka sína, svo sem eðlilegt má telja. Það er sennilega sanngjarn mat, að fyrrverandi forsætisráðherra hafi í ríkisstjórninni skilið eftir sig góðan arf, að þessu leyti, og það hafi varðað mestu þegar forystumennirnir, sem eftir urðu, tóku ákvarðanir um framhaldið. En forystumenn flokkanna þriggja gerðu það fljótt og vonandi hafa þeir að mestu einnig gert það vel.