Framleiðsla Á Múlalundi eru m.a. framleiddar ráðstefnu- og fundamöppur og kápur fyrir mat- og vínseðla.
Framleiðsla Á Múlalundi eru m.a. framleiddar ráðstefnu- og fundamöppur og kápur fyrir mat- og vínseðla. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ólafur Pálsson olafur@mbl.is

Baksvið

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Múlalundur, vinnustofa SÍBS fyrir fólk með skerta starfsorku, verður 65 ára í maí. Þar eru hin sígildu Egla bréfabindi framleidd sem og dagatöl, plastvasar, klemmuspjöld, ráðstefnu- og fundamöppur, hótelmöppur og kápur fyrir mat- og vínseðla svo fátt eitt sé nefnt. Þá framleiðir Múlalundur reglulega fjölbreytt úrval sérhannaðra mappa fyrir viðskiptavini á borð við möppur í yfirstærð og sérhannaðar möppur fyrir ýmsar starfsstéttir. Þar hafa starfað um 35 manns með skerta starfsorku í um 15 stöðugildum.

Sveinn Guðmundsson, formaður stjórnar SÍBS, segist harma að stjórnvöld sjái sér ekki lengur fært að styðja við atvinnutækifæri starfsfólks með skerta starfsorku á Múlalundi. Lýsir hann þó þakklæti fyrir stuðninginn á liðnum árum umfram það sem fjárlög hafa boðað. Hann segir endurskipulagningu í breyttu umhverfi hafna en að of snemmt sé að segja til hvers sú vinna muni leiða. Segir Sveinn að verið sé að stofna félag utan um reksturinn og farið verði í viðræður við sveitarfélög um samstarf. „Þá munum við fá til okkar mjög færan rekstrarráðgjafa, sem við treystum að geti fundið leiðir fyrir okkur, til að leysa þessi peningamál. Við erum ekki búin að gefast upp – Múlalundi verður ekki lokað,“ segir Sveinn.

Þegar blaðamaður heimsótti Múlalund var starfsfólkið meðal annars að ganga frá framleiðslu á borðspili en auk þess voru plastmöppur og ljósmyndaplöst í vélunum sem og fermingarbækur í gyllingu. Vélarnar í framleiðslusalnum eru margar hverjar hannaðar og framleiddar sérstaklega fyrir fólk með skerta starfsgetu, sem til dæmis getur ekki unnið með báðum höndum. Ýmiss konar mót fyrir framleiðslu á hinum og þessum plastafurðum í ýmsum stærðum og gerðum eru þá hönnuð og sett saman á staðnum.

Ferlið gengur með ógnarhraða

Markús Máni Gröndal og Vilborg Eiríksdóttir þroskaþjálfi eru verkstjórar á Múlalundi. Þau segja nú þegar nokkra einstaklinga farna og að ferlið hafi gengið með ógnarhraða. „Það á bara að sópa öllu út og það er bara happa og glappa hvort við verkstjórarnir fáum að vita hvort fólkið okkar sé komið í vinnu annars staðar,“ segir Vilborg og bætir því við að stjórnendur á Múlalundi reyni að fylgjast með afdrifum síns fólks. Þau segja að engum hafi verið sagt upp formlega og furða sig á því og spyrja sig hvort fólkið, sem horfið sé til annarra starfa, sé í raun starfsmenn á tveimur stöðum. Þá velta þau jafnframt fyrir sér hvert hlutverk þeirra, sem haldið hafi utan um fólkið með hvað minnstu starfsgetuna, verði þegar fólkið verði að mestu leyti farið.

Anna Monika Arnórsdóttir, deildarstjóri á ráðgjafar- og vinnumiðlunarsviði Vinnumálastofnunar, segir ráðgjafa hafa verið mjög sýnilega á Múlalundi, kynnt ferlið og þá þjónustu sem fólkið geti nýtt sér. Segir hún unnið hörðum höndum að því að finna atvinnutækifæri fyrir fólk en nú þegar hafi stór hluti þess sótt um hjá Vinnumálastofnun. „Fjölbreytt störf og starfsþróun einstaklinga er höfð að leiðarljósi í þessari vinnu,“ segir Anna Monika í samtali við Morgunblaðið. Segir hún fólk leggja fram óskir um vinnutíma, starfshlutfall og starfsvettvang og ráðgjafar fari þá inn í fyrirtækin og reyni að koma á atvinnuviðtali. „Fólki býðst að hafa ráðgjafa sér til halds og trausts í viðtalinu og þannig reynum við að koma á ráðningarsambandi,“ segir hún. Oft þurfi að skapa ákveðinn ramma innan fyrirtækja fyrir fólk og starfstækifæri séu af ólíkum toga. Segir hún að öllum sé valfrjálst að þiggja þau tilboð sem bjóðist og að stundum gangi dæmið upp í fyrstu tilraun en stundum þurfi að prófa nokkur störf.

Ríkið mun greiða 75% af launum þessa starfsfólks fyrstu tvö árin á móti 25% frá atvinnurekanda. Fólkið á að vinna sig inn í störfin og hljóta fastráðningu að tveimur árum liðnum. Ekki er víst að það fólk sem starfað hefur á Múlalundi í vernduðu umhverfi haldi út í tvö ár á almennum vinnumarkaði en mörgum hefur ekki tekist að fóta sig þar áður og Múlalundur verið þrautalending þeirra. Fyrirkomulag sem þetta gæti gefið tilefni til að hugsa að einhverjir atvinnurekendur muni hugsa sér gott til glóðarinnar og losa fólk undan vinnuskyldum innan tveggja ára til þess eins að fá inn nýtt fólk á 75% niðurgreiðslu til næstu tveggja ára.

Afskaplega sorglegt

Nói Síríus er eitt þeirra fyrirtækja sem sækjast eftir starfsfólki af Múlalundi í starfslið sitt. Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir forstjóri segir í samtali við Morgunblaðið fyrirtækið horfa til þess að ráða fólkið frá Múlalundi til framtíðar. „Við erum með starfsfólk í vinnu hjá okkur í dag með skerta starfsorku, oft á tíðum hörkuduglegt fólk og ekkert síðra en annað starfsfólk. Við værum mjög ánægð með að fá fólk af Múlalundi í okkar lið.“ Hún segir fyrirtækið hafa verið lánsamt að fá til liðs við sig fólk með skerta starfsorku sem hefur getað sinnt störfum í matvælaframleiðslu, og að fólkið hafi aðlagast vel inni á vinnustaðnum. Hvetur Sigríður önnur fyrirtæki til að sýna gott fordæmi og fara þessa leið en segir um leið afskaplega sorglegt að verið sé að loka starfseminni á Múlalundi.

Örn Sigurðsson, ritstjóri kortaútgáfu og bílabóka hjá Forlaginu, segist munu sjá eftir starfseminni. „Ég styð þetta ágæta fyrirtæki og að hægt sé að veita fólki vinnu þar.“ Örn segir Forlagið hafa skipt við Múlalund í aldarfjórðung og á tímabilinu hafi Forlagið framleitt um eina milljón landakorta sem öll hafa farið í plastvasa frá Múlalundi. „Þeir hafa bæði verið hagstæðastir og svo höfum við líka viljað styðja við starfsemina.“ Örn segir auðvitað betra að hafa starfsemi sem þessa innan höfuðborgarsvæðisins fremur en að Forlagið þurfi að kaupa vöruna erlendis. „Það hefur læðst að mér sá grunur að einhverjir samkeppnisaðilar, til dæmis innflutningsaðilar, hafi fett fingur út í að á Múlalandi séu framleiddar vörur, niðurgreiddar af hálfu ríkisins,“ segir Örn.

Þungar áhyggjur

Verkstjórarnir hafa þungar áhyggjur af afdrifum starfsfólksins. Markús segir m.a. um að ræða fólk sem hafi ekki náð að fóta sig á almennum vinnumarkaði, lent í einelti á vinnustað, jafnvel oft, og mætt skilningsleysi gagnvart takmörkunum sínum. Segja þau aðstæður sem þessar fara illa með alla, hvað þá ef fólk geti ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Þá missi það alveg fótanna og fyllist kvíða yfir framtíðinni.

Ómakleg ummæli

Framleitt eftir pöntunum

„Allar vörur eru framleiddar eftir pöntunum og margar sérpantanir koma frá fyrirtækjum sem starfsfólkið er glúrið að afgreiða,“ segir Vilborg, sorgmædd yfir ómaklegum ummælum Unnar Sverrisdóttur forstjóra Vinnumálastofnunar í Morgunblaðinu í síðustu viku, þar sem hún sagði hugmyndafræðina á bak við Múlalund úrelta og ekki verjandi að styrkja framleiðslu þar sem afurðum væri oft hent. Þá segir hún ummælin einkennileg þar sem Vinnumálastofnun kaupi meðal annars möppur, dagatöl og dagbækur frá Múlalundi.

Höf.: Ólafur Pálsson