Hildur Björnsdóttir
Hildur Björnsdóttir
Koma þarf í veg fyrir að fulltrúar meirihluta borgarstjórnar nýti sjóði Orkuveitunnar sem óþrjótandi sparigrís þegar illa árar í rekstri borgarinnar.

Hildur Björnsdóttir

Borgarbúar eiga ríka hagsmuni af traustum innviðum samfélagsins. Á tímum orkuskorts og álags á bæði orkuinnviði og veitukerfi verður að telja óábyrgt að samþykkja tillögu stjórnar Orkuveitunnar um sex milljarða arðgreiðslu til eigenda á næsta aðalfundi.

Versnandi afkoma en hækkandi arðgreiðslur

Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Orkuveitu Reykjavíkur skilaði samstæðan afkomu sem var nær sjö milljörðum lakari en áætlun hafði gert ráð fyrir. Jafnframt versnaði afkoma samstæðunnar sem nam nærri tveimur milljörðum milli áranna 2022 og 2023.

Þrátt fyrir versnandi afkomu í rekstri OR ákvað meirihluti stjórnar Orkuveitunnar að leggja til við aðalfund arðgreiðslu til eigenda sem nema skyldi sex milljörðum króna, eða nær öllum hagnaði samstæðunnar á liðnu ári. Þá vekur jafnframt athygli að arðgreiðslutillagan er tæplega milljarði hærri en arðgreiðsluáætlun gerði ráð fyrir.

Minnihluti stjórnarmanna greiddi atkvæði gegn tillögunni og færði rök fyrir afstöðunni í greinargóðri bókun.

Fjárfestum í innviðum

Á borgarstjórnarfundi liðinn þriðjudag lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks til að fallið yrði frá arðgreiðslukröfu á Orkuveitusamstæðuna og arðgreiðslutillögu stjórnar hafnað á aðalfundi 17. apríl nk. Borgarstjórn kaus hins vegar að fresta tillögunni og verður hún því lögð fyrir fund borgarráðs í dag.

Á tímum orkuskorts og gríðarlegs álags á orkuinnviði landsins verður arðgreiðslutillaga stjórnar að teljast verulega óábyrg. Ekki síður með hliðsjón af vaxandi álagi á mikilvæg veitukerfi borgarinnar. Fyrirhugaðar fjárfestingar OR á árunum 2024 til 2028 munu nema um 229 milljörðum króna samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun og vega þar þyngst fjárfestingar í veitukerfum og orkuverum.

Hvorki afkoma OR-samstæðunnar né heldur kjör á fjármagnsmörkuðum gefa tilefni til að greiða svo ríflegan arð til eigenda. Ekki síst með hliðsjón af þeirri gríðarlegu innviðauppbyggingu sem fyrirhuguð er. Taka má undir þau sjónarmið minnihluta stjórnar OR, að jafnvel þótt eigendur OR vilji njóta ávöxtunar af því fjármagni sem bundið er í rekstri samstæðunnar er eðlilegt að þau sjónarmið víki fyrir þeim mikilvægu hagsmunum sem borgarbúar eiga undir traustum innviðum samfélagsins.

Innviðafyrirtæki í almannaeigu

Auðvitað eru arðgreiðslur til eigenda í góðu árferði sjálfsagðar og eðlilegar í hefðbundnum fyrirtækjarekstri. Orkuveitan er þó byggð á öðrum grunni – hún er innviðafyrirtæki í almannaeigu. Lögbundið hlutverk hennar er að stunda vinnslu, framleiðslu og sölu raforku og heits vatns og gufu. Jafnframt rekstur grunnkerfa, svo sem dreifiveitu rafmagns, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu. Óábyrg arðgreiðsluáform grafa undan rekstri Orkuveitunnar, en svo hún geti staðið undir lögbundu hlutverki sínu þarf hún að fjárfesta í og viðhalda mikilvægum innviðum.

Rekstur borgarsjóðs er kominn í slíkt öngstræti að markaðurinn hefur misst alla tiltrú. Það birtist glöggt í liðnum skuldabréfaútboðum hvar áhugi var svo takmarkaður að borgin sá sér aðeins fært að taka tilboðum fyrir smálegar fjárhæðir á afarkjörum. Það er löngu tímabært að meirihluti borgarstjórnar bregðist við ósjálfbærum rekstri borgarsjóðs með skýrum aðgerðum og áþreifanlegri hagræðingu – en leiti ekki sífelldra plástralausna.

Koma þarf í veg fyrir að fulltrúar meirihluta borgarstjórnar nýti sjóði Orkuveitunnar sem óþrjótandi sparigrís þegar illa árar í rekstri borgarinnar. Standa þarf vörð um þá mikilvægu hagsmuni sem borgarbúar eiga af traustum innviðum og langtíma orkuöryggi.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Höf.: Hildur Björnsdóttir