— Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
„Ég sé Grindavík fyrir mér eins og hún var, fyrirmyndarsamfélag þar sem íbúar undu glaðir við sitt, sinntu sínum störfum, skiluðu drjúgum skerf í þjóðarbúið, voru glaðir á góðri stund, stóðu saman í gegnum þykkt og þunnt,“ sagði Guðni Th

„Ég sé Grindavík fyrir mér eins og hún var, fyrirmyndarsamfélag þar sem íbúar undu glaðir við sitt, sinntu sínum störfum, skiluðu drjúgum skerf í þjóðarbúið, voru glaðir á góðri stund, stóðu saman í gegnum þykkt og þunnt,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í ávarpi á sérstökum hátíðarfundi bæjarstjórnar Grindavíkur í gær. Fundurinn var haldinn til að minnast 50 ára kaupstaðarafmælis bæjarins.

Ásrún Helga Kristinsdóttir forseti bæjarstjórnar flutti ávarp á fundinum en að því loknu voru sjálfboðaliðum færðar þakkir. Þá fengu átta Grindvíkingar afhentar heiðursviðurkenningar af þessu tilefni. Öll þykja þau hafa skilað umfangsmiklu og mikilvægu framlagi til samfélagsins í Grindavík og verið öðrum til fyrirmyndar.

Á myndinni er Guðni með áttmenningunum. Í efri röð f.v. eru Gunnar Tómasson, Aðalgeir Georg Daði Johansen, Björn Birgisson og Jónas Þórhallsson en í þeirri neðri f.v. eru Stefanía Ólafsdóttir, Guðfinna Bogadóttir, Kristín Elísabet Pálsdóttir og Birna Bjarnadóttir.

Guðni rakti í ávarpi sínu að hann hefði flest ár í forsetatíð sinni komið til Grindavíkur í opinberum erindagjörðum. Þar hefði hann fundið kraft, elju og samkennd. Hann lauk máli sínu með brýningu um að tryggja þyrfti Grindvíkingum búsetuúrræði. „Við verðum að tryggja að Grindvíkingar geti á ný haldið heimili og höndlað hamingjuna, að Grindvíkingar geti áfram látið gott af sér leiða í eigin þágu og þjóðfélagsins alls. Þetta skulum við gera saman, við Íslendingar. Við skulum ekki gefast upp.“ hdm@mbl.is