Sigursæl Hildur Maja Guðmundsdóttir fékk fern gullverðlaun á Norðurlandamótinu í áhaldafimleikum í Ósló um síðustu helgi.
Sigursæl Hildur Maja Guðmundsdóttir fékk fern gullverðlaun á Norðurlandamótinu í áhaldafimleikum í Ósló um síðustu helgi. — Ljósmynd/FSÍ
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland náði sínum besta árangri á Norðurlandamóti í áhaldafimleikum í sögunni þegar íslensku keppendurnir sönkuðu að sér verðlaunum á NM 2024 sem fór fram í Ósló í Noregi um síðustu helgi. Á fyrri deginum á laugardag varð íslenska kvennalandsliðið…

Fimleikar

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Ísland náði sínum besta árangri á Norðurlandamóti í áhaldafimleikum í sögunni þegar íslensku keppendurnir sönkuðu að sér verðlaunum á NM 2024 sem fór fram í Ósló í Noregi um síðustu helgi.

Á fyrri deginum á laugardag varð íslenska kvennalandsliðið Norðurlandameistari í liðakeppni og Hildur Maja Guðmundsdóttir varð Norðurlandameistari í fjölþraut. Thelma Aðalsteinsdóttir hafnaði í öðru sæti í fjölþraut.

Hildur Maja er aðeins önnur íslenska konan sem verður Norðurlandameistari í fjölþraut á eftir frænku sinni, Sif Pálsdóttur, sem hrósaði sigri árið 2006. Hildur Maja sagði Sif hafa hvatt sig til dáða fyrir NM, sem hafi haft góð áhrif á sig.

Karlalandsliðið hafnaði í þriðja sæti í liðakeppninni og var þar um sögulegan árangur að ræða enda í fyrsta skipti sem íslenskt karlalandslið vinnur til verðlauna á NM.

Á síðari deginum á sunnudag var keppt á einstökum áhöldum þar sem Hildur Maja vann til tvennra gullverðlauna til viðbótar. Hún hrósaði þá sigri á stökki og jafnvægisslá. Varð Hildur Maja því fjórfaldur Norðurlandameistari.

Thelma varð Norðurlandameistari á gólfi og Hildur Maja hafnaði í öðru sæti á því áhaldi. Valgarð Reinhardsson varð Norðurlandameistari á gólfi og hafnaði í öðru sæti á svifrá og þriðja sæti á tvíslá. Martin Bjarni Guðmundsson vann til silfurverðlauna í stökki.

Vildi gera betur

„Tilfinningin er mjög góð. Ég bjóst alls ekki við þessu,“ sagði fjórfaldi Norðurlandameistarinn Hildur Maja í samtali við Morgunblaðið.

Hver var lykillinn að þessum árangri?

„Góður undirbúningur myndi ég segja. Ég kom bara til þess að gera mínar æfingar og það gekk mjög vel. Ég gerði ein stór mistök á tvíslánni en eftir þau vildi ég gera enn betur á hinum áhöldunum sem voru eftir.

Þá voru tvö áhöld eftir, jafnvægisslá og gólf, og ég náði mínum besta persónulega árangri á þeim tveimur. Ég held að það hafi hjálpað mér.

Ég hef lent í svona mótlæti áður, að detta á áhaldi snemma í keppni, en svo þarf að stíga upp af því að það eru fleiri áhöld. Ég veit að mótið er ekki búið fyrr en það er búið,“ útskýrði hún.

Kom mér á óvart

Spurð hvort þessi frábæri árangur hafi komið henni sjálfri á óvart, sagði Hildur Maja: „Það kom mér á óvart. Ég hef náttúrlega dottið áður en ég er mjög góð í að stíga upp. Ég er mjög sátt við að ná að halda einbeitingu og gera enn betur á hinum áhöldunum.“

Hún hrósaði íslenska liðinu í hástert og þótti liðsandinn vera fyrsta flokks.

„Liðsheildin var mjög góð. Liðakeppnin gekk náttúrlega frábærlega, við urðum Norðurlandameistarar kvenna megin og strákarnir höfnuðu í þriðja sæti. Hjá unglingunum voru stelpurnar í öðru sæti og strákarnir í þriðja sæti,“ sagði Hildur Maja.

Unglingarnir sigursælir

Líkt og hún bendir á gekk íslensku liðunum í unglingaflokki einnig einkar vel. Auk þess að hafna í öðru sæti í liðakeppni stúlkna og þriðja í liðakeppni drengja fór Rakel Sara Pétursdóttir fremst í flokki hjá unglingunum.

Vann hún til silfurverðlauna í stökki og á gólfi og bronsverðlauna á jafnvægisslá. Rakel Sara vann þar með til verðlauna á þremur af fjórum áhöldum. Kolbrún Eva Hólmarsdóttir vann þá til bronsverðlauna á gólfi.

Ætlum okkur stóra hluti á EM

„Liðið er búið að vera í mikilli uppsveiflu undanfarin ár en þó það hafi gengið vel um helgina eigum við samt ennþá ýmislegt inni. Kvennaliðið vann síðast 2016 þannig að það var mjög gaman að ná sigri aftur,“ bætti Hildur Maja við.

Næst á dagskrá hjá íslensku landsliðunum í áhaldafimleikum er Evrópumótið í Rimini á Ítalíu. Hjá körlunum fer það fram frá 24. til 28. apríl og hjá konunum fer það fram frá 2. til 5. maí.

„Evrópumótið er eftir þrjár vikur. Við ætlum okkur stóra hluti þar, við eigum ennþá eitthvað inni og getum gert enn betur. Ég sé fyrir mér að það mót muni þróast á góðan hátt.

Við ætlum að bæta okkur frá því á Norðurlandamótinu og höfum alveg svigrúm til þess. Við erum mjög bjartsýn á að það gangi vel. Undirbúningurinn er að hefjast núna og við förum út eftir þrjár vikur,“ sagði hún við Morgunblaðið.

Kom þjálfaranum ekki á óvart

„Ég fylgdist með liðsmönnum mínum á Íslandsmótinu og ég hafði það á tilfinningunni að við myndum koma á óvart með frammistöðu okkar á Norðurlandamótinu, vegna þess hversu hátt þær hafa verið að skora að undanförnu,“ sagði Ferenc Kováts, ungverskur þjálfari kvennalandsliðs Íslands, í samtali við Morgunblaðið, eftir frábæran árangur liðsins um síðustu helgi.

„Þær hafa verið að vinna sér inn stigafjölda sem er í háum klassa á evrópskan mælikvarða. Þess vegna bjóst ég svolítið við því að þær myndu ná góðum árangri á Norðurlandamótinu.

Þær stóðu sig allar mjög vel bæði í liðakeppninni og á einstökum áhöldum. Þetta var mjög ánægjulegt,“ hélt Kováts áfram.

Af þeim sökum kom það honum sjálfum ekki á óvart hversu vel gekk á Norðurlandamótinu.

Vill enda ofar í ár

Líkt og Hildur Maja er Kováts
bjartsýnn á góðan árangur á Evrópumótinu í Rimini.

„Ég er auðvitað mjög bjartsýnn. Ég er alltaf bjartsýnn. Fimleikar eru ein erfiðasta íþróttin og það er mjög erfitt að vera fullur sjálfstrausts og með fulla einbeitingu á keppnisdegi.

En við hefjum undirbúning fljótlega. Við byrjum strax í næstu viku að undirbúa Evrópumótið með liðinu. Ég hef verið að reikna svolítið út og ég bind vonir við að endum ofar en á síðasta ári.

Ég vona að við stöndum okkur mun betur hvað varðar erfiðleikastig og framkvæmd samanborið við síðasta ár,“ sagði Kováts við Morgunblaðið.

Á Evrópumótinu í Antalya í Tyrklandi á síðasta ári varð Thelma efst íslensku kvennanna í 48. sæti, Margrét Lea Kristinsdóttir hafnaði í 58. sæti, Hildur Maja í 62. sæti og Agnes Suto hafnaði í 75. sæti en keppendur í kvennaflokki voru 97.