Nám Nemendur ljúka framhaldsskóla frekar á réttum tíma nú en áður.
Nám Nemendur ljúka framhaldsskóla frekar á réttum tíma nú en áður. — Ljósmynd/Colourbox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég verð nú að segja að umræðan um að stytting náms til stúdentsprófs virðist vera á algjörum villigötum,“ segir Ársæll Guðmundsson skólastjóri Borgarholtsskóla og vísar þar í umræðu sem hefur verið talsverð undanfarin, ekki síst á háskólastiginu

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Ég verð nú að segja að umræðan um að stytting náms til stúdentsprófs virðist vera á algjörum villigötum,“ segir Ársæll Guðmundsson skólastjóri Borgarholtsskóla og vísar þar í umræðu sem hefur verið talsverð undanfarin, ekki síst á háskólastiginu. Ársæll var á sínum tíma formaður verkefnisstjórnar um styttingu námstíma til stúdentsprófs og hefur að auki verið skólastjóri í fjórum framhaldsskólum og þekkir málið betur en flestir. Hann segir að breytingin hafi verið til mikilla bóta, bæði þegar litið er til gæði námsins og samhæfingu við nágrannalöndin.

„Það er alveg hárrétt sem kom fram í könnun sem skrifað var um í Morgunblaðinu í gær að nemendur eru að skila sér betur í lokapróf á eðlilegum tíma heldur en þegar hvítbók var gefin út fyrir tíu árum síðan,“ segir Ársæll og segir þessa niðurstöðu vera í takt við það sem hann hafi séð í sínu starfi. Hann segir að breytingin hafi gert námið markvissara og að kennslufyrirkomulagið og gæði námsins hafi vaxið.

„Þessi umræða á sér ekki stað meðal skólastjórnenda eða í framhaldsskólunum,“ segir hann, enda nærri áratugur frá því að breytingin fór í gegn og komin góð reynsla að hans mati á nýja fyrirkomulagið. „Það skiptir engu máli hvort nemendur byrja í grunnskóla fimm eða sex ára eða hvort þeir byrja í framhaldsskóla 15 eða 16 ára. Það sem skiptir máli er hvað þú ert að gera með nemendum. Við ræðum alltof mikið um kerfi en ekki nemendur og menntun. Þessi umræða núna er eins og hún sé í excel-skjali er algjörlega röng og hæfir ekki umræðu um menntun. Menntun breytir viðhorfum og skilningi á umheiminum og við lifum á miklum breytingartímum þar sem þróun í námi hefur fleygt fram, hvernig nemendur ná sér í upplýsingar hefur fleygt fram og þetta eru gerbreyttir tímar.“

Ársæll segir að ein ástæðan fyrir því að farið var í þessar breytingar fyrir tæpum tíu árum var að á þeim tíma voru oft ekki nema 60% nemenda búnir að ljúka náminu eftir sex ár í framhaldsskóla og að nemendur hafi flakkað mikið á milli skóla. „Við breytinguna tókum við skilin á milli kennslu og prófatímabila í burtu og þá opnaðist tækifæri til að vera með allt öðruvísi námsmat og öðruvísi menntun. Ég tel að þessi breyting hafi skilað sér í markvissara námi og stuðli frekar að því að nemendur haldist í náminu.“

Hann segir að á sjöunda áratug síðustu aldar var svokölluð menntaskólanefnd að störfum til að skoða möguleika á að stytta námstíma til samræmis við Evrópulöndin og þar var leitað til bæði lærðra og leikna og bar flestum saman um að það væri til bóta að stytta námið. „En af því að íslenska samfélagið var svo nátengt sveitastörfum þá þótti ekki hægt að lengja námið fram á sumarið, enda nemendur oft að vinna í sveitum, svo ekkert varð að breytingunni þá. Þessi breyting á framhaldsskólastiginu og á vinnumati kennara er að mínu mati eitt mesta framfaraskref í skólamálum framhaldsskólanna síðustu áratugi.“ » 38