Kerfi Guðmundur H. Hannesson framkvæmdastjóri félagsins.
Kerfi Guðmundur H. Hannesson framkvæmdastjóri félagsins. — Morgunblaðið/Margrét Þóra Þórsdóttir
Kælismiðjan Frost ehf. hagnaðist um 76 milljónir króna á síðasta ári sem er nokkuð minna en árið á undan þegar félagið hagnaðist um 133 milljónir. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins. Eignir fyrirtækisins nema nú rúmum 1,3 milljörðum króna og jukust þær lítillega milli ára

Kælismiðjan Frost ehf. hagnaðist um 76 milljónir króna á síðasta ári sem er nokkuð minna en árið á undan þegar félagið hagnaðist um 133 milljónir.

Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins.

Eignir fyrirtækisins nema nú rúmum 1,3 milljörðum króna og jukust þær lítillega milli ára. Eigið fé kælismiðjunnar er 931 m.kr. en það var 915 m.kr. árið á undan.

Eiginfjárhlutfall félagsins er 69,8%. Tekjur fyrirtækisins á síðasta ári námu rúmum 2,4 milljörðum króna og jukust lítillega frá árinu 2022.

Í ársreikningnum segir að starfsmenn séu 65, miðað við 62 árið á undan, en félagið hafi verið að bæta við sig menntuðum þjónustumönnum á undanförnum árum til þess að mæta auknum verkefnum í þjónustu og minni verkefnum.

Starfsemi félagsins felst í hönnun, sölu og uppbyggingu nýrra kæli- og frystikerfa, sem og viðhaldi og þjónustu eldri kerfa. Félagið er með starfsstöðvar á Akureyri, í Garðabæ, á Selfossi og Kolding í Danmörku.

Mikil áskorun

Í skýrslunni segir að erlend verkefni séu að jafnaði stór hluti af heildarveltu og rekstur 2022 og 2023 hafi verið mikil áskorun þar sem stór verkefni hafi frestast vegna erfiðra ytri aðstæðna. „Þrátt fyrir þetta hefur félagið lagt áherslu á að sækja ný verkefni og skilaði það sér m.a. í fjölgun á innlendum verkefnum á árinu 2023 sem hefur skilað félaginu góðri afkomu. Stórt verkefni sem félagið er með í Rússlandi hefur verið í biðstöðu og á félagið útistandandi kröfur vegna þess sem ekki hafa fengist greiddar. Vegna óvissu um áframhald verkefnisins og innheimtu á kröfunum hefur verið tekin ákvörðun um að færa verk- og kröfustöðu félagsins niður og eru áhrif á rekstur ársins 2023 veruleg eða um 85,6 milljónir króna.“

Stjórn félagsins leggur til að greiddar verði 60 m.kr. í arð á árinu 2024 vegna 2023.