Bæjarstjórinn Jón Páll Hreinsson með fjallið Erni í baksýn.
Bæjarstjórinn Jón Páll Hreinsson með fjallið Erni í baksýn. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Hálf öld var liðin í gær frá því Bolungarvík fékk kaupstaðarréttindi en hinn 5. apríl árið 1974 hafði það verið lagt til á Alþingi. Bolvíkingar voru hófsamir í hátíðarhöldum í gær en bæjarbúar voru hvattir til að draga fána að húni og minnast tímamótanna

Hálf öld var liðin í gær frá því Bolungarvík fékk kaupstaðarréttindi en hinn 5. apríl árið 1974 hafði það verið lagt til á Alþingi.

Bolvíkingar voru hófsamir í hátíðarhöldum í gær en bæjarbúar voru hvattir til að draga fána að húni og minnast tímamótanna. Gert er ráð fyrir að viðburðir sumarsins verði viðameiri í bænum en á hefðbundnu ári að sögn Jóns Páls Hreinssonar bæjarstjóra. Þar á hann við sjómannadagshelgina og markaðshelgina svokölluðu sem er fyrstu helgina í júlí. „Stórir áfangar eru í kringum sjómannadaginn. Ný laxavinnsla hefur tekið til starfa sem og nýr fiskmarkaður. Þá er sjávarútvegsfyrirtækið Jakob Valgeir með nýja vinnslu og nýjar skrifstofur. Á þessum stöðum verður opið hús á sjómannadaginn og þá getur fólk séð allt sem hefur verið að gerast í starfsemi tengdri höfninni og kynnt sér uppbygginguna. Síðasta ár er eitt mesta uppbyggingarár í sögu sveitarfélagsins.“

Samkvæmt þjóðskrá er 1.031 íbúi í Bolungarvík og er það glettilega nærri íbúatölunni 10. mars 1974 en þá voru 1.027 með lögheimili í Bolungarvík. Íbúum átti eftir að fjölga árin á eftir, svo kom fækkun niður fyrir 900 fyrir rúmum áratug. Nú fjölgar aftur í Bolungarvík, nýjum lóðum hefur verið úthlutað og nýtt hverfi skipulagt. kris@mbl.is