Hafnarfjörður Slökkviliðs- og sjúkrabílar á vettvangi á Völlunum.
Hafnarfjörður Slökkviliðs- og sjúkrabílar á vettvangi á Völlunum. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Fjöldi sjúkrabíla og slökkviliðsbíla var kallaður að byggingarsvæði við Áshamar á Völlunum í Hafnarfirði upp úr hádegi í gær, eða um hálftvöleytið. Þar varð starfsmaður verktaka undir þakplötu sem gaf sig er steypuvinna fór fram

Fjöldi sjúkrabíla og slökkviliðsbíla var kallaður að byggingarsvæði við Áshamar á Völlunum í Hafnarfirði upp úr hádegi í gær, eða um hálftvöleytið. Þar varð starfsmaður verktaka undir þakplötu sem gaf sig er steypuvinna fór fram. Var mikill viðbúnaður á vettvangi.

Nokkurn tíma tók að losa manninn undan farginu og var hann þá fluttur í skyndi á Landspítalann til aðhlynningar. Var hann þá með meðvitund, samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, en ekki vitað um ástand hans að öðru leyti. Þó var talið að betur hefði farið en á horfðist í fyrstu. Fleiri starfsmenn lentu ekki undir plötunni.

Aðgerðum viðbragðsaðila á vettvangi lauk upp úr klukkan þrjú.