— Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Tónlist gerir lífið skemmtilegra og nám á því sviði gefur börnum mikið. Þetta er þáttur í samfélaginu sem er mikilvægt að gefa gaum og sveitarfélögin þurfa að styðja vel við tónlistarmenntun í landinu,“ segir Júlíana Rún Indriðadóttir, skólastjóri Tónskóla Sigursveins D

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Tónlist gerir lífið skemmtilegra og nám á því sviði gefur börnum mikið. Þetta er þáttur í samfélaginu sem er mikilvægt að gefa gaum og sveitarfélögin þurfa að styðja vel við tónlistarmenntun í landinu,“ segir Júlíana Rún Indriðadóttir, skólastjóri Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Talið verður í og taktur sleginn á 60 ára afmælishátíð skólans sem haldin verður í Hörpu sunnudaginn 14. apríl. Hátíðartónleikar í Eldborgarsal hefjast kl. 14 og þar verða flutt verk sem hafa verið sérstaklega samin eða útsett fyrir hverja deild skólans. Tónleikar í Hörpuhorni hefjast kl. 11.

Fjölbreytt dagskrá á tónleikum

Lögð var áhersla á að gefa öllum 590 nemendum skólans tækifæri á að koma fram í Hörpu á þessum degi. Á hátíðartónleikunum í Eldborg verður frumflutt verk eftir Tryggva M. Baldvinsson, samið fyrir alla 130 píanónemendur skólans, og verk eftir Hauk Tómasson, sem samið var fyrir 50 ára afmæli skólans, verður endurflutt af 150 strengjanemendum. Blásaradeild flytur þjóðlagasyrpu í útsetningu Guðna Franzsonar sem jafnframt stjórnar hljómsveitunum.

Þá koma innlegg frá forskóla, gítarnemendum og rytmadeild. Atriðin verða tengd saman með myndbrotum úr sögu skólans. Í Hörpuhorni koma fram kammerhópar og einleikarar úr framhaldsdeild og hljómsveitir úr rytmadeildinni. Mætti svo lengi telja.

Sigursveinn D. Kristinsson (1911-1990) var maður sem munaði um. Hann kom að ýmsu tónlistarstarfi bæði á Siglufirði og í Reykjavík áður en hann árið 1964 stofnaði Tónskólann sem nú á afmæli. Starfsemi skólans er á Engjateigi 1 í Laugardal og Hraunbergi 2 í Breiðholti. Á síðarnefnda staðnum var byggt á vegum skólans sjálfs í samræmi við þá áherslu Sigursveins að efla tónlistarmenntun alþýðunnar. Landnám skólans í Breiðholti var hluti af þeirri stefnu.

„Hugsjón Sigursveins var að öllum, ekki síst börnum frá efnaminni heimilum, gæfist tækifæri á að prófa sig áfram í tónlist. Einnig vildi hann veita fullorðnu fólki færi á að afla sér tónmenntunar,“ segir Júlíana, sem jafnhliða skólastjórn sinnir kennslu. Tónskólinn er í samstarfi við ýmsa skóla í Breiðholti og Morgunblaðið hitti Júlíönu í Fellaskóla í vikunni. Þar var hún með nokkrum ungum stúlkum, nemendum sínum, sem læra á píanó og syngja.

„Við höfum mjög góða reynslu af samstarfi við grunnskóla,“ segir Júlíana. „Við fórum af stað með nýtt kennsluform í Fellaskóla fyrir fjórum árum, bæði á fiðlu og píanó, þar sem við hittum nemendur daglega ýmist í stuttum einkatímum eða hóptímum. Þátttaka nemenda í tónlistarnámi hefur aukist stórkostlega en við stefnum á að taka alltaf inn að minnsta kosti fimm manna hóp úr 3. bekk á hverju ári. Að kenna innan grunnskólans er líka í anda Sigursveins sem sjálfur kenndi börnum á blokkflautu í frímínútum í Austurbæjarskóla.“

Í dag eru nemendur skólans nærri 600 og biðlistar eru langir, sérstaklega í nám á píanó og fiðlu, að sögn skólastjórans. Því miður hafi Reykjavíkurborg skorið niður framlag sitt til tónlistarkennslu í stað þess að auka það miðað við fjölgun fólks í borginni. Þjónustusamninga borgarinnar við tónlistarskólanna þurfti því að endurskoða.

Góð leiðsögn og ótrúlegir nemendur

Júlíana segir að flestir nemendur í Tónskóla Sigursveins staldri þar við í nokkur ár, sem lýsi þá því að krakkarnir séu ánægðir. Í starfi skólans sé mikið lagt upp úr hljómsveitarstarfi. Til dæmis séu fjórar strengjasveitir og fjórar gítarsveitir í skólanum en félagslegi þátturinn skiptir miklu máli í tónlistarnámi.

„Alls eru um um 60 nemendur í framhaldsdeild skólans og hluti þeirra tekur lokapróf, sem er mjög krefjandi. Einhverjir leggja tónlist svo fyrir sig og fara í tónlistarháskóla. Margir nemendur okkar hafa náð framúrskarandi árangri. Ég trúi því að tónleikarnir á sunnudaginn verði frábær upplifun bæði fyrir nemendur og áheyrendur,“ segir Júlíana Rún Indriðadóttir og að síðustu:

„Ég er hér með frábæra kennara sem eru búnir að vinna hörðum höndum að undirbúningi tónleikanna og taka líka beinan þátt í tónlistarflutningnum. Krakkarnir í skólanum eru auðvitað hæfileikaríkir og ótrúlegt hvað ungir nemendur geta gert saman þegar þeir fá góða leiðsögn. Harpa mun öll óma á sunnudaginn.“