Úrslitakeppnin Aron Dagur Pálsson úr Val með boltann í gær í Reykjavíkurslagnum við Fram á Hlíðarenda, þar sem hálfleikstölur voru 22:11 fyrir Val. Leikjum gærdagsins var ekki lokið þegar blaðið fór í prentun í gærkvöldi.
Úrslitakeppnin Aron Dagur Pálsson úr Val með boltann í gær í Reykjavíkurslagnum við Fram á Hlíðarenda, þar sem hálfleikstölur voru 22:11 fyrir Val. Leikjum gærdagsins var ekki lokið þegar blaðið fór í prentun í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við spiluðum vel í deildarkeppninni í vetur og teljum okkur tilbúna í úrslitakeppnina,“ sagði reynsluboltinn Ásbjörn Friðriksson leikmaður FH í samtali við Morgunblaðið. FH hefur leik í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta með heimaleik gegn KA í kvöld

Úrslitakeppnin

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

„Við spiluðum vel í deildarkeppninni í vetur og teljum okkur tilbúna í úrslitakeppnina,“ sagði reynsluboltinn Ásbjörn Friðriksson leikmaður FH í samtali við Morgunblaðið. FH hefur leik í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta með heimaleik gegn KA í kvöld.

FH fagnaði deildarmeistaratitlinum á dögunum en liðið endaði með 37 stig á toppi úrvalsdeildarinnar, fjórum stigum á undan Aftureldingu sem varð í öðru sæti. Þá fór FH í 16-liða úrslit Evrópubikarsins. Liðið féll hins vegar úr leik gegn erkifjendunum í Haukum í átta liða úrslitum bikarkeppninnar.

„Deildin var flott hjá okkur en það voru vonbrigði að fara ekki lengra í bikarnum. Við spiluðum fullt af góðum Evrópuleikjum og í heildina var þetta nokkuð gott. Það er tilhlökkun hjá okkur og við eigum möguleika á að ná langt í úrslitakeppninni.

Við vitum að við þurfum að spila vel, gegn góðum liðum. Við hugsum um okkur og hugsum þetta þannig að við eigum góða möguleika ef við spilum vel, en við hugsum ekki lengra en í þetta einvígi á móti KA,“ sagði Ásbjörn.

Þá fáum við það í andlitið

Leikstjórnandinn sagði markmiðin skýr hjá FH. Liðið ætlar sér að verða Íslandsmeistari í fyrsta skipti frá árinu 2011. FH þarf hins vegar að vinna tvö einvígi til að komast í úrslit í fyrsta skipti frá árinu 2018.

„Við getum gefið það út og ég er viss um að fleiri lið gera það, en markmiðið okkar er að verða Íslandsmeistari í vor. Við erum samt ekki það vitlausir að halda að það gerist án þess að við setjum fulla einbeitingu á næsta verkefni.

Það eru mörg skref sem við þurfum að taka. Ef við förum fram úr okkur fáum við það í andlitið. Við ætlum okkur samt stóra hluti í vor og ætlum að vinna,“ sagði hann.

Ásbjörn er hrifinn af blöndunni í FH-liðinu, þar sem reynsluboltar og ungir og efnilegir leikmenn hafa náð vel saman og halda hver öðrum á tánum.

„Við erum með góða blöndu. Það eru ungir leikmenn í stórum hlutverkum og svo erum við með reynslu í mönnum eins og Daníel [Frey Andréssyni] í markinu, mér, Aroni [Pálmarssyni] og Ágústi Birgissyni. Svo eru margir leikmenn sem eru á þessum milliárum, 23-28 ára, og þeir eru komnir með fína reynslu. Þetta er góður hópur sem gaman er að vera í.“

Kröfurnar verða meiri

Ásbjörn bar fyrirliðabandið hjá FH þar til landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson kom heim og samdi við uppeldisfélagið. Við það breyttist landslagið hjá Hafnarfjarðarfélaginu og áhrifin leyndu sér ekki innan- og utanvallar.

„Hann kemur inn sem stór karakter og góður leikmaður. Okkur var spáð efsta sæti í deildinni og utanaðkomandi pressa varð meiri. Fólk taldi að við ættum að vinna deildina og við tækluðum það vel.

Svo þegar þú færð góða leikmenn í hópinn, og tala nú ekki um leikmenn eins og Aron, verða æfingarnar enn betri. Menn fara á tærnar og kröfurnar verða meiri. Þetta er upplagt umhverfi til að taka framförum, upplagt fyrir yngri leikmenn að bæta sig. Svo halda þeir okkur eldri á tánum líka,“ útskýrði Ásbjörn.

FH hefur aðeins unnið einn stóran titil frá Íslandsmeistaratitlinum 2011. Ásbjörn finnur hungur innan félagsins til að breyta því.

„Við urðum bikarmeistarar árið 2019 í fyrsta skipti í mjög langan tíma. Við urðum Íslandsmeistarar 2011 og komumst í úrslit 2017 og 2018. Það er mikið hungur hjá félaginu, við finnum það.

Auðvitað var gaman að vinna deildina og það er ákveðin viðurkenning, en það má finna á fólki að það vill ævintýri, fara í úrslit, fá fullt af leikjum í úrslitakeppninni og búa til góða stemningu á heimaleikjum. Við stefnum á það, en það er mikil vinna að komast þangað sem við viljum fara,“ sagði hann.

Fyrsta hindrun FH-inga á leiðinni í úrslitaeinvígið er KA í átta liða úrslitum í kvöld. Liðin mættust í lokaumferð deildarinnar og FH vann þá sannfærandi, 32:22. Þrátt fyrir það á Ásbjörn von á erfiðu einvígi, gegn liði sem vann bæði bikarmeistara Vals á heimavelli og Hauka á útivelli eftir áramót. Þá eru fyrrverandi FH-ingarnir Ólafur Gústafsson og Einar Rafn Eiðsson lykilmenn hjá KA.

„KA er með nokkra unga leikmenn og svo hörkugóða eldri leikmenn í Ólafi og Einari sem við þekkjum vel. Þeir spila hraðan bolta, fara í sjö á sex og geta verið erfiðir. Þeir hafa unnið Val heima og Hauka úti eftir áramót. Við getum alls ekki slakað á í þessu einvígi. Við ætlum að spila góðan varnarleik og agaðan sóknarleik og við sjáum hvert það fleytir okkur,“ sagði Ásbjörn Friðriksson.