Baldvin Jóhann Erlingsson fæddist 9. september 1946 á Húsavík. Hann lést 6. apríl 2024 á hjartadeild Landspítalans.

Foreldrar hans voru Sigrún Baldvinsdóttir húsfrú og Erlingur Jóhannsson, bóndi og skógarvörður í Ásbyrgi í Kelduhverfi.

Systur hans eru: Sigurveig, látin 2015, Hulda og Kristín.

Eftirlifandi eiginkona Baldvins er Guðrún Helga Jónsdóttir.

Synir þeirra: 1) Björn Baldvinsson, sambýliskona Marianne Juul. Börn Björns: Guðjón Birkir og Dagný. Móðir þeirra er Hrönn Guðjónsdóttir. 2) Jón Halldór Baldvinsson, eiginkona Stella Thors. Börn þeirra: Baldvin Smári og Anita. Börn Jóns: Andrea Rosenberg og Guðrún Helga. Móðir þeirra er Anne D. Carstens. Viktor Örn og Ísak Logi. Móðir þeirra er Sigríður Jóhanna Haraldsdóttir.

Baldvin ólst upp í Ásbyrgi til 16 ára aldurs, en þá fluttu foreldrar hans til Reykjavíkur. Hann kláraði gagnfræðapróf frá Vogaskóla.

Baldvin starfaði lengst af við bílasölu og var í þrjátíu ár sölustjóri Honda-umboðsins. Ekki gat hann setið auðum höndum þegar á eftirlaun var komið og eftir tvo mánuði réð hann sig sem vaktstjóra hjá Olís í Hamraborg, Kópavogi, og var þar í sjö ár.

Útför fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 11. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku hjartans tengdapabbi minn.

Mikið er nú sárt að kveðja svona yndislegan mann sem elskaði ekkert meira en að vera innan um hóp af fólki að spjalla, segja sögur og heyra hvað hafði á daga manns drifið. Það að eignast góða tengdaforeldra er sko ekki sjálfgefið en ég datt nú heldur betur í lukkupottinn.

Frá því að ég hitti þig fyrst hefur þú alltaf breitt út faðminn og látið mér líða eins ég hafi alltaf verið í fjölskyldunni. Með þitt bjarta bros og yndislegu nærveru. Það var því mikill heiður að fá að skíra Baldvin okkar í höfuðið á afa sínum. Man þegar við tilkynntum þér að hann fengi þitt nafn og hversu ótrúlega stoltur þú varst. Þú varst yndislegur pabbi og frábær afi. Öll barnabörnin þín eiga góðar minningar um afa enda sagðir þú aldrei nei þegar þau hringdu eða báðu þig að gera eitthvað með sér. Ég minnist þess að eitt skiptið þegar Baldvin okkar var yngri þá átti hann það til að hringja alltaf í mömmu og pabba til að láta sækja sig í skólann. Við foreldrarnir ákváðum að nú skyldum við virkja hann í að labba sjálfan heim og var hann til í það. Þetta virtist ganga svo vel hjá honum; ekki eitt símtal eftir skóla um að vera sóttur. Nokkrum dögum seinna mættir þú til okkar í heimsókn. Þá fórstu að tala um hvað þér þætti nú vænt um það að nafni þinn hringdi í þig alla daga eftir skóla og fengi far með þér heim. Þetta er bara eitt dæmi af svo mörgum þar sem þú varst alltaf boðinn og búinn að hjálpa til með allan barnaskarann okkar.

Elsku hjartans Baldvin minn, takk fyrir allt. Það er stórt gat í hjarta okkar allra eftir að þú fórst. Við pössum upp á Gunnu þína og munum halda minningu þinni lifandi með skemmtilegum sögum af prakkarastrikum afa og rifja upp skemmtilegar sögur. Ég treysti því að þú sért núna dansandi upp á himnum með öllu þínu besta fólki. Þangað til næst …

Þín tengdadóttir,

Stella.

Við fráfall Baldvins mágs míns kom í huga mér eins og oft áður þessi vísa eftir Pál J. Árdal:

Að hryggjast og gleðjast

hér um fáa daga,

að heilsast og kveðjast.

- Það er lífsins saga.

Kynni okkar Baldvins hófust fyrir nærfellt sextíu árum. Það er langur tími sem ég hafði vonast til að gæti verið enn lengri en raunin varð á en alvarleg veikindi mágs míns sáu til þess að svo varð ekki. Baldvin var yngstur fjögurra systkina frá Ásbyrgi en fyrir átti hann þrjár systur, en elsta systirin Sigurveig lést fyrir níu árum. Nærri má geta að fögnuður var meðal foreldra Baldvins við fæðingu hans, sem skírður var í höfuðið á öfum sínum, Baldvini á Ófeigsstöðum í Köldukinn og Jóhanni í Arnarnesi í Kelduhverfi. Rætur Baldvins Jóhanns voru því sterkar. Hann var Þingeyingur í húð og hár og rakti ætt sína í báðar sýslurnar. Hann þurfti því ekki að metast um það hverjir væru merkilegri Kinnungar eða Keldhverfingar, því hann var hvort tveggja.

Fyrstu uppvaxtarárin ólst Baldvin upp á fallegasta stað landsins, Ásbyrgi, þar sem Erlingur faðir hans og tengdafaðir minn var bæði skógarvörður og bóndi og Sigrún kona hans húsfreyja á gestkvæmum stað. Þegar dæturnar fluttu að heiman brugðu þau hjónin búi og fluttu til Reykjavíkur. Það var viðkvæmt fyrir ungan dreng að flytja úr sveitinni fögru til höfuðstaðarins en slíkt var auðvitað hlutskipti margra annarra ungmenna. Eftir fáein ár í Reykjavík kynntist Baldvin lífsförunaut sínum Guðrúnu Helgu Jónsdóttur sem þá hafði flutt frá Ísafirði í Kópavoginn. Guðrún og Baldvin bjuggu alla tíð í Kópavogi og bjó Guðrún honum og sonum þeirra, Birni og Jóni Halldóri, fallegt heimili. Lengst af starfaði Baldvin sem sölustjóri hjá Honda og átti þar marga fasta viðskiptavini, sem enn minnast Baldvins fyrir trausta og góða þjónustu.

Nú að leiðarlokum viljum við Kristín þakka Baldvini fyrir samfylgdina. Stutt var í aldri milli þeirra systkina, Kristínar og Baldvins, enda voru þau mjög náin. Við minnumst skemmtilegrar ferðar fyrir nokkrum árum með þeim Baldvini og Guðrúnu um Vestfirði þar sem við ferðuðumst vítt og breitt á heimaslóðum Guðrúnar en minnisstæðast var þó að koma á Ingjaldssand, þar sem ættfólk Guðrúnar bjó lengst af. Við sendum Guðrúnu og sonum þeirra, tengdabörnum og barnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Megi minningin um góðan dreng ávallt vera okkur hugstæð.

Hrafn Magnússon.

Það eru margar minningarnar sem koma upp í hugann, þegar ég sest við tölvuna til að minnast vinar míns og mágs, hans Baldvins. Við Baldvin urðum fljótt nánir vinir, þegar hann kom inn í fjölskylduna okkar í Álftröð 5 og þau Gunna systir mín rugluðu saman reytum. Í fyrstu voru það bílamálin sem leiddu okkur saman, en svo ákveðin ævintýramennska á þessum fornbílum sem hann aðstoðaði mig við að kaupa í fyrstu. Baldvin var ávallt til í að aðstoða mig, sem og aðra, ef hann mögulega gat. Þá var Baldvin glettinn og kunni að taka glettni að sama skapi. Hann og pabbi áttu skemmtileg samtöl og samskipti, þar sem þeir stríddu hvor öðrum með gamanmálum frá Þingeyjarsýslu og Lundarreykjadal, ættarslóðum þeirra hvors um sig. Það var gaman að líta yfir bílakostinn á ættarmótum okkar fyrir tveim árum, allt Hondur. Eftir að ég flutti vestur 1991, þá var nóg fyrir mig að hringja í Baldvin og segja honum að ég væri búinn að selja bílinn sem ég hafði þá átt og vantaði annan. Það liðu ekki margir dagar uns hann hringdi og sagði mér að sækja annan bíl sem var klár fyrir mig, allt frágengið. Hann var ekki margmáll, en með látbragði sínu svaraði hann.

Baldvin var ótrúlega mannglöggur. Mér fannst hann þekkja helming þjóðarinnar. Hann mundi allt það fólk sem kom á bílasölurnar sem hann vann á í gegnum árin. Fyrsti bíllinn sem hann aðstoðaði mig við að kaupa var Volkswagen, árgerð 1958. Rétt eftir kaupin, 5. maí 1970, gaus í Skjólkvíum við Heklu og þangað fórum við Baldvin á voffanum, mikla óvissuferð, en skemmtilega. Þá voru það berjaferðirnar sem við fórum margar saman. Við vorum með hústjald og gistum ávallt í því. Einu sinni rigndi þvílík ósköp að við ákváðum að fá gistingu í Bjarkalundi. Baldvin þekkti auðvitað vertinn þar, hann Svafar. Hótelið var fullt, en við fengum að liggja í svefnpokunum í fatahenginu við anddyrið, en urðum að fara á fætur um leið og fyrsti þjónninn fór á kreik. Eitt skiptið tjölduðum við á árbakka rétt við þjóðveginn í Vatnsfirði. Þegar við ætluðum að klára að fylla föturnar á sunnudagsmorgninum, þá hafði snjóað 30 sentímetra, allt hvítt, svo að við ákváðum að sofa lengur þar sem það var ekkert ferðaveður, bíllinn á sumardekkjum. Eitt sinnið voru lítil sem engin ber, þá fórum við út á Ingjaldssand að leita berja, en enduðum á dansleik þar, en lítið varð um ber það árið. En yfirleitt tíndum við heil ósköp, þekktum hvar var að finna bláberin í Kjálkafirði og hvar krækiberin var að finna í Vatnsfirði.

Það voru margar næturgistingarnar í Hrauntungunni, hjá Gunnu og Baldvin, eftir að við Gróa fluttum vestur og áttum erindi í bæinn. Ekkert mál og uppbúið rúm tilbúið hvenær sem var. Þegar þau komu vestur á sumrin, tjölduðu þau vagninum sínum á túninu við Kjarrholt 6, og tengdu vagninn við rafmagn þar. Eins voru það útilegurnar sem við fórum í saman um landið, skoðuðum og skemmtum okkur.

En nú er komið að leiðarlokum kæri vinur. Minningin um þig mun lifa áfram. Vertu sæll og takk fyrir vináttu þína og samfylgd í gegnum árin. Kveðja frá okkur Gróu.

Önundur Jónsson.

Baldvin vinur okkar er farinn og hans er sárt saknað af Hlíðarvegsfjölskyldunni. Það er erfitt að finna réttu orðin um þennan einstaka mann því hann var ekki bara maðurinn hennar Gunnu frænku, hann var mikill vinur okkar hjóna og góði frændi barnanna okkar. Sannarlega aufúsugestur á okkar heimili. Hann datt inn í kaffi á ólíkustu tímum hress og glaður, fékk kaffibolla, sagði fréttir og fannst gaman að tala um pólitík og velta vöngum. Ef veður var gott fannst honum við eiga að fara með bolla út á pall og svo var hann horfinn aftur en skildi eftir sig notalegt andrúmsloft.

Baldvin var í eðli sínu lipur og skemmtilegur og alveg einstaklega greiðvikinn. Við höfum notið þessa ríkulega. Minnisstæðast er þegar hann fyrir áratugum lánaði okkur bílinn sinn vestur á firði en honum var mjög annt um bílana sina og á þeim tíma var óalgengt að biðja um slíkt. Það var líka hann sem dró okkur í fyrstu hálendisferðina og kynnti okkur dýrð íslenska víðernisins. Ásamt Birni tók hann okkur með í einstaka vetrarferð í Landmannalaugar. Við nutum þessa vel og öðluðumst ólæknandi ást á hálendi Íslands sem við sækjum heim nær öll sumur. Við Veiga, Gunna og Baldvin höfum gert margt skemmtilegt saman gegnum tíðina og farið í ferðalög og útilegur alls konar auk ferða til útlanda. Þar toppar einstök Kúbuferð þar sem við náðum að kynnast lífi innfæddra fyrir óvanalega tilviljun og frábær ferð með góðum hópi á Íslendingaslóðir í Kanada.

Baldvin hafði áhuga á fólki og hann hafði áhuga og þekkingu á bílum svo það er ekki að undra að hann var vinsæll og góður sölumaður bíla. Lengst vann hann sem sölumaður Honda og oft fengum við að heyra sögur um Baldvin úr ólíkustu áttum, um þennan greiðvikna skemmtilega og hjálpsama sölumann. Sá sem keypti af honum bíl virtist oftast kaupa af honum aftur og aftur.

Synir Baldvins og Gunnu eru Björn og Jón Halldór. Gunna og synirnir eru tengd okkur órjúfanlegum böndum og eiga hlutdeild í okkar fjölskyldulífi. Börn Björns eru Guðjón Birkir og Dagný en Jón Halldór á Andreu, Guðrúnu Helgu, Viktor Örn, Ísak Loga, Baldvin og Anitu. Afinn var stoltur af hópnum sínum.

Þessi minningarorð um Baldvin eru frá okkur öllum á Hlíðarvegi. Eftir andlát hans báðum við Jónu, Orra og Jón Einar að segja okkur hvaða orð kæmu fyrst í hugann um Baldvin. Orðin langur, glaður, góður, vel að sér, hafði gaman af pólitískri umræðu, einstaklega hjálpsamur, alltaf jákvæður, glaðvær, mikill frændi, manni leið vel í návist hans, skemmtilegur, hress og hafði góða nærveru, komu strax upp og segja mikið um þennan góða mann sem skilur eftir sig stórt skarð hjá okkur sem eftir lifum.

Já, góður drengur er genginn og hans er sárt saknað en minning hans lifir. Á kveðjustund gleðjumst við yfir góðu lífi sem þessi mæti maður átti með Guðrúnu Helgu og fjölskyldu þeirra. Við þökkum allar ljúfu samverustundirnar sem við áttum með Balda um leið og við vottum öllum aðstandendum dýpstu samúð.

Sverrir, Rannveig (Veiga), Jóna, Orri, Jón Einar og fjölskyldur.

Hverju sem ár

og ókomnir dagar

að mér víkja,

er ekkert betra

en eiga vini,

sem aldrei svíkja.

(Davíð Stefánsson)

Þessar ljóðlínur koma í huga mér, er ég kveð með söknuði minn kæra vin, öðlinginn Baldvin J. Erlingsson, sem nú hefur lagt í sína hinztu för.

Það er gæfa mín og gleði að hafa átt vináttu hans fagra og fölskvalausa í góða hálfa öld.

Minningar liðinna áratuga eru ófáar, samverustundirnar svo ótal margar, stundum af litlu tilefni, stundum stóru, stundum engu. Allar eru þær umvafðar birtu, gleði og einlægri vináttu.

Á kveðjustund er margs að minnast og margt að þakka. Ég þakka honum einstakan hlýhug og hjálpina alla, sem ætíð var auðsótt, ætíð sjálfsögð, sem aldrei verður fullþökkuð og aldrei mun gleymast. Ég þakka góðar og gefandi gleðistundir, velvild og vinarþel, já, þakka allt sem hann var mér og mínum alla tíð.

Elsku hjartans Guðrúnu, minni kæru vinkonu, sonum þeirra, Birni og Jóni, svo og ástvinum öllum votta ég mína dýpstu samúð og bið góðan Guð að styrkja þau, sem nú syrgja sárt.

Mínum kæra vini, gleðigjafanum sanna, óska ég fararheilla til nýrra heimkynna, þar sem ætíð ríkir birta, friður og eilíft vor.

Þín gullnu spor

um ævina alla

hafa markað langa leið,

skilið eftir sig ótal brosin

og minningar bjartar

sem lýsa munu

um ókomna tíð.

(Höf. ók.)

Veri hann Guði ávallt falinn.

Ásthildur.

Höfðingi er fallinn, Baldvin Erlingsson, sem ég og mínir eigum svo góðar minningar um. Baldvin var sá sem vaknaði snemma um helgar og fór með okkur strákana, Nonna, Björn og mig, á rúntinn, það var farinn bílasölurúntur að sjálfsögðu og þegar vel lá á honum var lagt á heiðina og ís tekinn í Hveragerði. Síðar meir, þegar ég var farinn að stunda bílasölurúnta sjálfur, er mér minnisstætt þegar komið var inn á Bílasöluna Skeifuna, mörgum árum eftir að Baldvin hætti þar, og ég heyrði símtöl sölumanna; „nei, Baldvin vinnur ekki hér lengur“. Þá var okkar maður kominn til Honda-umboðsins, þar sem hann kláraði sinn feril.

Elskuleg Gunna og Baldvin hringdu í okkur hjónin þegar við vorum í vinnu að gera upp íbúð á Njálsgötu, vissu af streðinu í okkur, og sendu okkur dýrindis máltíð sem við nutum.

Elsku Gunna, Björn og Nonni ásamt fjölskyldum, það er með hlýjum hug en sárum sem við kveðjum Balda.

Megi allt gott fylgja ykkur í framhaldinu.

Orri, Geirný og börn.

Baldvin var stór maður. Með stórt hjarta. Og svo var hann stórskemmtilegur.

Baldi, eins og hann var gjarnan kallaður, var maðurinn hennar Gunnu, æskuvinkonu minnar frá Ísafirði.

Gunna fluttist þaðan 14 ára en við héldum alltaf góðu sambandi með heimsóknum og bréfaskriftum eins og tíðkaðist á þeim árum. Árið 1967 skelltum við okkur í tjaldútilegu inn í Álftafjörð. Þá barst Baldi lauslega í tal. Og svo allt í einu var Gunna trúlofuð Balda og barn á leiðinni. Mér þótti nú alveg nóg um, það hlaut að vera meira en lítið í þennan Balda spunnið. En örlögin höguðu því þannig að ég kynntist Balda ekki fyrr en áratugum síðar og þá skildi ég vel að hún Gunna mín hefði heillast. Það var gaman að vera með Gunnu og Balda. Hann var alltaf hress, en ljúfur og hlýr. Hann þekkti fólk út um allt land, var fróður um menn og málefni og kunni ógrynni af alls kyns sögum. Gaf sér tíma til að spjalla við börnin og fylgdist með þeirra lífi. Við áttum góðar stundir saman í sumarbústaðnum okkar í Skóginum (Tunguskógi við Ísafjörð), í Hrauntungunni hjá þeim, síðar Bæjarlind og hér á Króknum. Nú verða sögurnar ekki fleiri.

Ég hitti Balda stuttu fyrir páska. Þá var hann orðinn þreyttur og sjúkdómurinn hafði tekið sinn toll. Gunna stóð eins og klettur við hlið hans. En hann bað mig nú að segja henni Gunnu sinni sögur og hressa hana við, henni veitti ekki af.

Við Árni kveðjum Balda með væntumþykju og hlýju og þökkum eðalsamverustundir. Elsku Gunna mín, Björn, Nonni og fjölskyldur. Megi góðar minningar vera ykkur styrkur.

Ásdís S. Hermannsdóttir (Addý).