Hljómeyki Kammerkórinn var stofnaður fyrir hálfri öld og heldur upp á tímamótin með tónleikum.
Hljómeyki Kammerkórinn var stofnaður fyrir hálfri öld og heldur upp á tímamótin með tónleikum.
Kammerkórinn Hljómeyki var stofnaður 1974 og heldur upp á 50 ára afmælið með tónleikum í Hallgrímskirkju sunnudaginn 14. apríl og í Dómkirkjunni 17. júní. Nokkrir söngvarar úr Póýfónkórnum vildu syngja öðruvísi tónlist en þeir sungu þar og byrjuðu því með Hljómeyki til hliðar

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Kammerkórinn Hljómeyki var stofnaður 1974 og heldur upp á 50 ára afmælið með tónleikum í Hallgrímskirkju sunnudaginn 14. apríl og í Dómkirkjunni 17. júní.

Nokkrir söngvarar úr Póýfónkórnum vildu syngja öðruvísi tónlist en þeir sungu þar og byrjuðu því með Hljómeyki til hliðar. „Þeir vildu syngja meiri kammermúsík,“ útskýrir Hildigunnur Rúnarsdóttir formaður Hljómeykis. Foreldrar hennar voru á meðal stofnenda og hún fylgdi í fótsporin ásamt nokkrum úr yngri kynslóð söngvara þegar kórinn fékk boð um að taka þátt í Sumartónleikum í Skálholti 1986, en það samstarf varði í þrjá áratugi. Hljómeyki hefur auk þess komið fram víða heima og erlendis og gefið út nokkra geisladiska og úrval laga á streymisveitunni Spotify.

Hildigunnur segir að Hljómeyki sé væntanlega sá kór fyrir utan Hamrahlíðarkórinn sem hafi gert einna mest af því að panta og frumflytja ný tónverk. Á þessum tímamótum hafi þau ákveðið að velja nokkrar helstu perlurnar og flytja á tónleikum. Stærri verkin séu Requiem eftir Jón Nordal, Ad beatam virginem (Til hinnar sælu meyjar) eftir Báru Grímsdóttur, Veni Sancte spiritus eftir Oliver Kentish og hluta úr Heil veri þú María (úr Komu) eftir Þorkel Sigurbjörnsson. „Auk þess flytjum við fjórar perlur sem við höfum pantað og/eða frumflutt og eru komnar í almannaeigu kórasamfélagsins,“ segir Hildigunnur. Það eru Heyr þú oss himnum á eftir Önnu Þorvaldsdóttur, Hvíld eftir Huga Guðmundsson, Nú legg ég þér í lófa eftir Þóru Marteinsdóttur og Vorlauf eftir hana sjálfa.

Ættjarðarlög

Rut L. Magnússon var fyrsti stjórnandi kórsins en núverandi stjórnandi er Erla Rut Káradóttir. „Hljómeyki er elsti starfandi kammerkór landsins,“ staðhæfir Hildigunnur. Hann sé sjálfstæð stofnun sem ráði stjórnanda, en hafi aðstöðu í Listaháskólanum til að æfa og geyma gögn gegn því að syngja í skólanum þegar þess sé óskað. Í kórnum séu nú 25 manns og sé æft einu sinni í viku.

Hildigunnur minnist margra toppa með kórnum. Á fyrstu árunum í Skálholti hafi tónskáldin til dæmis stjórnað kórnum því þá hafi hann ekki verið með eigin stjórnanda. Meðal annars hafi verið tekinn upp diskur með Þorkel Sigurbjörnsson sem stjórnanda. „Diskurinn er ómetanleg heimild um það hvernig Þorkell hugsaði verkin sín.“ Einnig sé ógleymanlegt að hafa unnið með verk eftir Jón Nordal. „Ég held að enginn annar kór hafi flutt Requiem.“

Kórinn verður með samsöngstónleika 17. júní. „Þá syngjum við ættjarðarlög fyrir og með áheyrendum,“ segir Hildigunnur. „Við frumflytjum líka tvær útsetningar á þjóðlögum sem Hafliði Hallgrímsson samdi og tileinkar kórnum á 50 ára afmælinu.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson