Nýstúdentar Flestir þessara nýútskrifuðu stúdenta úr MR fóru í háskóla og lá ugglaust á að komast út í lífið. Þjóðfélagið munar líka um hvert ár.
Nýstúdentar Flestir þessara nýútskrifuðu stúdenta úr MR fóru í háskóla og lá ugglaust á að komast út í lífið. Þjóðfélagið munar líka um hvert ár.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andrés Magnússon andres@mbl.is Stytting námstíma í framhaldsskólum úr fjórum árum í þrjú hefur verið nokkuð til umræðu upp á síðkastið. Styttingin átti sér stað skólaárið 2015-2016 og mæltist misjafnlega fyrir, í mörgum skólum lukkaðist hún vel, en í nokkrum skólum síður.

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Stytting námstíma í framhaldsskólum úr fjórum árum í þrjú hefur verið nokkuð til umræðu upp á síðkastið. Styttingin átti sér stað skólaárið 2015-2016 og mæltist misjafnlega fyrir, í mörgum skólum lukkaðist hún vel, en í nokkrum skólum síður.

Nú er komin frekari reynsla á það eftir að nokkrir árgangar stúdenta úr þessari nýju námshögun hafa skilað sér í háskóla og eðlilegt að mat sé lagt á hana.

Í liðnum mánuði var þannig greint frá rannsókn við Háskóla Íslands (HÍ), sem vakti mikla athygli í fjölmiðlum, en hermt var að niðurstöðurnar sýndu að styttingin hefði haft slæm áhrif á einkunnir og námsframvindu í háskóla, en einnig ýtt undir brotthvarf úr háskóla.

Sú umræða hafði m.a. þau áhrif að Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra sagði að til greina kæmi að endurskoða styttinguna.

Misvísandi niðurstöður

En standa niðurstöðurnar undir þessum ályktunum?

Umrædd rannsókn var gerð af hópi hagfræðinga við HÍ með Gylfa Zoëga prófessor í broddi fylkingar, en hann hefur áður fundið styttingunni margt til foráttu. Það hefði hugsanlega átt að vekja einhverjar spurningar, en á móti er skiljanlegt að ótíndir ráðherrar eða blaðamenn hafi ekki hætt sér til þess að draga tölfræðiformúlur fræðaþula Háskólans í efa.

Morgunblaðinu hafa hins vegar borist ábendingar sérfræðinga á sviði tölfræði og hagrannsókna þar sem bæði niðurstöður og ályktanirnar eru dregnar í efa. Lúta þær athugasemdir bæði að aðferðafræði rannsóknarinnar og túlkun hagfræðinganna á eigin niðurstöðum.

Sem fyrr sagði vöktu niðurstöðurnar mikla og skiljanlega athygli í fjölmiðlum, ekki síst sú niðurstaða að einkunnir nemenda sem höfðu verið 3 ár í framhaldsskóla hefðu reynst vera um hálfum lægri að meðaltali en hinna sem höfðu verið í 4 ár í framhaldsskóla.

Í rannsókninni voru framkvæmd ýmis tölfræðileg próf til að kanna hvort tölfræðilega marktækur munur væri á því hvort nemendur hefðu verið í þriggja eða fjögurra ára kerfi. Sérfræðingar sem blaðið hefur rætt við telja að sú fullyrðing hagfræðinganna, að einkunnir væru marktækt lægri, sé jafnhæpin og hún vakti mikla athygli.

Þegar nánar er rýnt í gögn og niðurstöður rannsóknarinnar kemur í ljós að þrjár megintegundir tölfræðiprófa eru notaðar í rannsókninni til þess að kanna áhrif nokkurra þátta á einkunnir nemenda í HÍ.

Enginn tölfræðilegur munur

Þegar ekki var tekið tillit til aldurs háskólanema fékkst sú niðurstaða, að greina mætti tölfræðilegan mun á nemum eftir því hvort þeir höfðu verið 3 eða 4 ár í framhaldsskóla.

Um leið og þættir á borð við einkunnir í framhaldsskóla, kyn nemenda og aldur eru teknir með í reikninginn kemur hins vegar í ljós að ekki eru nein tölfræðilega marktæk áhrif af því hvort nemandi var þrjú eða fjögur ár í framhaldsskóla.

Með öðrum orðum sýna líkön hagfræðinganna og niðurstöður þeirra að stytting framhaldsskólans úr fjórum árum í þrjú hafi ekki haft tölfræðilega marktæk áhrif á einkunnir nemenda í Háskóla Íslands.

Rannsóknin sýnir hins vegar að aldur háskólanema skiptir máli, en varla kemur mörgum á óvart að aldur og þroski einstaklinganna ráði nokkru um námsárangur.

Þessar niðurstöður koma skýrt fram í rannsókn hagfræðinganna, en eru í ósamræmi við yfirlýsingar þeirra og umræðu í fjölmiðlum um rannsóknina.

Fleira er tínt til, svo sem að ekki sé ljóst hvort skoðað hafi verið hvort þriggja ára nemendurnir hafi dreifst með sama hætti í háskóladeildir og þeir sem höfðu lokið fjögurra ára námi. Það skiptir máli, því styttingin kann að hafa haft áhrif á hversu góðir námsmenn halda áfram í háskóla og um leið hvaða nám þeir völdu sér, en einkunnagjöf getur verið harla misjöfn milli deilda, milli miserfiðra námsgreina.

Í kjölfar rannsóknarinnar var einnig fullyrt að brottfall úr framhaldsskóla hefði aukist vegna styttingar framhaldsskólans. Opinberar tölur sýna hið gagnstæða, að verulega hafi dregið úr brottfalli nýnema í framhaldsskólunum.

Eins var í frétt Morgunblaðsins í gær greint frá niðurstöðum Hagstofunnar um að námsframvinda hefði batnað verulega í framhaldsskólum. Þar ljúka nú rúm 60% stúdentsprófi á áætlun en það gerðu aðeins tæp 45% fyrir styttinguna.

Við blasir að í þessu flókna og veigamikla viðfangsefni, námstíma barna og ungmenna, er margt órætt, en í fyrrgreindri rannsókn er a.m.k. ekkert að finna sem kallar á að horfið sé frá því að íslenskir krakkar taki stúdentsprófið 19 ára og komist sem því nemur fyrr út í lífið.