Inga Sæland
Inga Sæland
Er það furða þó manni misbjóði sú valdníðsla valdhafanna sem við höfum orðið vitni að í kjölfar þess að Katrín Jakobsdóttir ákvað að hella sér í baráttuna um Bessastaði. Virðingarleysið gagnvart ábyrgðinni sem felst í því að tróna á toppi píramída…

Er það furða þó manni misbjóði sú valdníðsla valdhafanna sem við höfum orðið vitni að í kjölfar þess að Katrín Jakobsdóttir ákvað að hella sér í baráttuna um Bessastaði. Virðingarleysið gagnvart ábyrgðinni sem felst í því að tróna á toppi píramída valdsins sem ráðherra er algjört og gengur gjörsamlega fram af landsmönnum flestum.

Hefði einhverjum dottið í hug þann 10. október sl. þegar Bjarni Benediktsson þáverandi fjármálaráðherra sagði af sér eftir að umboðsmaður Alþingis hafði birt álit sitt á embættisfærslum hans, að hann yrði orðinn forsætisráðherra hálfu ári síðar?

Rifjum upp hvað það var sem Bjarni var talinn hafa brotið af sér samkvæmt áliti UA:

„Það er niðurstaða mín að við ákvörðun sína 22. mars 2022, um sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hf., hafi fjármála- og efnahagsráðherra brostið hæfi samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 3. mgr. 1. gr. sömu laga, og þá í ljósi þess að meðal kaupenda var einkahlutafélag undir fyrirsvari og í eigu föður hans.“

Við skulum ekki draga fjöður yfir það að umboðsmaður er skýrlega að benda á að Bjarni Benediktsson braut stjórnsýslulög.

¶Bjarni Benediktsson taldi sig axla ábyrgð gagnvart áliti umboðsmanns með því að færa sig yfir í utanríkisráðuneytið. Nú hálfu ári síðar hefur hann gert sjálfan sig að forsætisráðherra þjóðarinnar.

Umboðsmaður Alþingis birti og álit sitt á embættisfærslum Svandísar Svavarsdóttur fráfarandi matvælaráðherra þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að hún hafi bæði brotið gegn meðalhófs- og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar sem leiðir ef sér brot á 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi. Leiða má að því líkur að með reglugerð sinni hafi hún gert ríkissjóð bótaskyldan um milljarða króna. Hún axlar ábyrgð með því að færa sig í enn yfirgripsmeira ráðuneyti og er nú orðin innviðaráðherra þjóðarinnar.

Í áliti UA um reglugerð Svandísar segir orðrétt:

„Það er álit mitt að útgáfa reglugerðar nr. 642/2023, um (12.) breytingu á reglugerð nr. 163/1973 um hvalveiðar, hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í 4. gr. laga nr. 26/1949, um hvalveiðar, eins og sú grein verður skýrð með hliðsjón af markmiðum sínum, lagasamræmi og grunnreglum stjórnskipunarréttar um vernd atvinnuréttinda og atvinnufrelsis. Án tillits til þessarar niðurstöðu tel ég einnig með hliðsjón af aðdraganda og undirbúningi reglugerðarinnar, svo og réttmætum væntingum Hvals hf., að útgáfa hennar hafi ekki, við þær aðstæður sem uppi voru, samrýmst kröfum um meðalhóf eins og þær leiða af almennum reglum stjórnsýsluréttar.“

Það er löngu tímabært að æðstu valdhafar þjóðarinnar átti sig á því að völdum þeirra eru takmörk sett og að lögbrot í starfi séu tekin föstum tökum.

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins ingasaeland@althingi.is