Frumkvöðull Evert var þátttakandi í stofnun Boot Camp á sínum tíma og stofnaði fyrstu CrossFit-stöð landsins.
Frumkvöðull Evert var þátttakandi í stofnun Boot Camp á sínum tíma og stofnaði fyrstu CrossFit-stöð landsins.
Evert Víglundsson, eigandi CrossFit Reykjavík, er mikill frumkvöðull þegar kemur að því að koma nýjum íþróttum til landsins. Hann var þátttakandi í því þegar Boot Camp byrjaði hér á landi og opnaði fyrstu CrossFit-stöðina árið 2008

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Evert Víglundsson, eigandi CrossFit Reykjavík, er mikill frumkvöðull þegar kemur að því að koma nýjum íþróttum til landsins.

Hann var þátttakandi í því þegar Boot Camp byrjaði hér á landi og opnaði fyrstu CrossFit-stöðina árið 2008. Nú er hann með nýja íþrótt sem hann vonast til að muni slá í gegn.

„Þetta er ný íþrótt sem ég er að draga til Íslands ásamt góðu fólki. Hún heitir hyrox, fitness race. Þetta byrjaði í Þýskalandi fyrir um átta árum þegar það var einhver sem vildi blanda saman langhlaupum og hreystiæfingum. Hann bjó til braut sem var kölluð hyrox, stöðluð braut sem er alltaf eins. Þetta snýst aðallega um keppni, sem er ágætt,“ segir Evert í Ísland vaknar.

„Nú er þetta komið um allan heim. Það eru keppnir hér og þar um heiminn nánast hverja einustu helgi og það er farið að keppa í þessu á heimsmeistaramótum. Þetta er eitthvað sem allir geta gert og ég lít á þetta sem gulrót fyrir öll okkar til að stunda líkamsrækt.“

Hann segir brautina alltaf vera eins og íþróttin sé gjörólík crossfit. „Það er þannig séð auðveldara að æfa fyrir þetta. Í crossfit er mikið um ólympískar lyftingar til dæmis sem mörgum finnst erfitt. En það er ekki þarna, það er ekkert tæknilega flókið eða tæknilega þungt. Eitthvað sem venjulegt fólk ætti að geta gert.“

„Keppnin er átta lotur. Hver lota hefst á kílómetra hlaupi svo hlaupin eru átta kílómetrar í heildina. Eftir hvert hlaup er einhvers konar þraut. Það er skíðavél, þungur sleði, burpees og burpees-langstökk, róður í kílómetra, bændaganga, ketilbjöllur, framstig með sandpoka á öxlunum og endar með æfingu með bolta,“ útskýrir Evert. „Átta lotur og alltaf hlaup inn á milli.“

Evert hefur fylgst vel með íþróttinni síðustu fimm ár.

„Þetta er næsta stóra æðið.“ Á sumardaginn fyrsta ætlar hann að halda fyrsta mótið í íþróttinni hér á landi þar sem boðið verður upp á einstaklings-, para- og liðaútgáfu. Hann segir alla áhugasama velkomna.

„Markmiðið er að fá opinbert hyrox-mót hingað til Íslands sem fyrst. En við erum nýkomin inn í þetta. CrossFit Reykjavík er nú orðið fyrsta hyrox-stöðin á Íslandi svo það er mjög skemmtilegt.“