Pétur Hann er algjörlega frábær þulur hjá RÚV.
Pétur Hann er algjörlega frábær þulur hjá RÚV. — Morgunblaðið/Eggert
Það er æskilegt að vita nöfn þeirra sem maður vill hrósa. Maður er nefndur Pétur Grétarsson og er þulur hjá Ríkisútvarpinu, auk þess að vera tónlistarmaður. Hann kynnir tónlist milli dagskrárliða á RÚV og gerir það einstaklega fallega og laumar að manni fróðleiksmolum

Kolbrún Bergþórsdóttir

Það er æskilegt að vita nöfn þeirra sem maður vill hrósa. Maður er nefndur Pétur Grétarsson og er þulur hjá Ríkisútvarpinu, auk þess að vera tónlistarmaður. Hann kynnir tónlist milli dagskrárliða á RÚV og gerir það einstaklega fallega og laumar að manni fróðleiksmolum.

Í huganum hef ég venjulega kallað Pétur, þulinn góða, Guðmund. Vandinn við að vera óminnugur á nöfn, og auk þess ekki mannglöggur, er að maður býr til nafn á viðkomandi og það reynist alltaf vera rangt nafn. Svo leiðréttir góð manneskja mann og um leið festir maður rétta nafnið í huga sér. Þetta gerðist einmitt með Pétur, sem ég kallaði Guðmund í þessum dálki fyrir nokkrum vikum. En þar sem Guðmundur reyndist vera Pétur þá er rétt að hrósa Pétri enn eina ferðina, og nú undir réttu nafni hans.

Litlir hlutir skipta máli. Það virðist kannski ekki mikilvægt hver kynnir tónlist milli dagskrárliða á RÚV, en það skiptir mann samt máli. Það hvarflar ekki að manni að slökkva á tækinu þegar maður heyrir rödd Péturs. Hann er orðinn heimilisvinur.

Ég hef heyrt marga hrósa þessum góða þul, sem ég hélt að héti Guðmundur. Pétur á greinilega aðdáendur víða og hefur unnið fyrir því.