Sigríður Ólafsdóttir fæddist á Mörk á Laxárdal 4. nóvember 1924. Hún lést á Héraðshæli Austur-Húnvetninga, HSN Blönduósi, á skírdag, 28. mars 2024.

Foreldrar Sigríðar, hjónin Jósefína Þóranna Pálmadóttir og Ólafur Björnsson, eignuðust fjögur börn auk hennar: Helgu Maríu, f. 1915, hfr. í Hnjúkahlíð, Pálma, f. 1916, bónda í Holti, óskírðan dreng 1918, Ingimar Guðmund, f. 1922, en Sigríður var yngst.

Foreldrar hennar fluttu ofan af Laxárdal þegar hún var 13 ára og fengu jarðnæði í Blöndudalnum. Til náms í Laugaskóla sneri hún 17 ára og fór í Kvennaskólann á Blönduósi tvítug. Tvo vetur var Sigríður einnig syðra í borginni og vann við saumaskap hjá Stefönu föðursystur sinni sem nýttist henni vel þegar hún eignaðist sjálf eigin fjölskyldu.

Hún giftist Jóni Tryggvasyni frá Finnstungu á gamlárskvöld 1946 og reisti með honum nýbýlið Ártún í landi Ytra-Tungukots og Tungu. Þau bjuggu allan búskap sinn í Ártúnum og störfuðu bæði mikið að félagsmálum. Jón lést 2007.

Börn þeirra Sigríðar og Jóns eru: Ingi Heiðmar, f. 1947, kvæntur Auði Hörpu Ólafsdóttur, f.k. Helga Þórðardóttir, Tryggvi Þór, f. 1948, kvæntur Jóhönnu Magnúsdóttur, Guðrún Þóranna, f. 1950, gift Guðmundi Guðmundssyni, Klara Sólveig, f. 1952, gift Sigurði Friðrikssyni, Margrét, f. 1954, Ólöf Una, f. 1958, gift Þórarni Ólafssyni, og Ásgeir, f. 1964, kvæntur Elínu Fjólu Þórarinsdóttur.

Barnabörn Ártúnahjónanna eru 19, barnabarnabörn 35 og tvær systur ungar, sem nú ganga um Ártúnahlað, eiga langalangömmu í þessari lífsglöðu konu.

Sigríður fékkst við vefnað, gerð minjagripa, brúðugerð, listmálun o.fl. á efri árum sínum og hún opnaði húsið sitt í Ártúnum sumarið 2014, árið sem hún varð 90 ára, og laðaði þangað marga gesti að skoða málverk, handverk hennar og saumaskap frá þeirri tíð þegar barnahópur hljóp þar um ganga og völl.

Útför hennar verður gerð frá Blönduóskirkju í dag, 12. apríl 2024, kl. 13, tónlistarflutningur hefst hálftíma fyrir athöfn.

Það er sérkennilegt að andlát manneskju á 100. aldursári komi manni að óvörum en það var tilfinningin þegar ég heyrði að elsku amma mín hefði látist. Sigga amma var merkilega heilsuhraust miðað við aldur og ekkert sem benti til þess að hún myndi kveðja í bráð. Það eina sem í raun háði henni var heyrnarskerðing og það hafði áhrif á samskipti undir það síðasta þar sem hún átti stundum erfitt með að heyra. En það var alltaf augljóst hvað hún var glöð að hitta niðja sína sem komu í heimsókn til hennar á Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi.

Amma var áhugasöm og vakandi yfir velferð ættarinnar sem kemur frá henni og eiginmanni hennar Jóni Tryggvasyni. Þau voru gift í 61 ár þar til Jón afi lést árið 2007 á 90. aldursári. Þau byggðu sér bæ í Ártúnum, ólu þar upp sjö börn og tóku síðar alúðlega á móti barnabörnum og barnabarnabörnum í heimsókn sem öll eiga góðar minningar og sterka taug til bæjarins þar sem hann vakir á mótum Blöndu og Svartár. Í minningu barnabarns þá var þetta staður gleði, góðmennsku, trausts og jákvæðni þar sem amma og afi voru kjarninn. Það er sárt að þau séu nú bæði horfin úr þessum heimi og strengur við rætur slitinn en um leið farsæld að hafa fengið að njóta þess að eiga þau að svo lengi.

Amma lagði mikið upp úr því að vera fallega til fara og það var reisn yfir henni. Hún rak stórt heimili en hafði unun af listsköpun og ræktun, hvort sem það var skógarhólfið sem hún ræktaði í hlíðinni fyrir ofan bæinn, fallegi garðurinn sem hún ræktaði við bæinn eða inniblómin sem döfnuðu hjá henni. Blómaræktin var sameiginlegt áhugamál hjá okkur og ræddum við það iðulega þegar við hittumst. Eitt sinn sagðist hún sakna þess að eiga eitt inniblóm sem var vinsælt fyrir nokkrum áratugum en ófáanlegt í dag. Þá dugði að auglýsa á Facebook og væn ókunnug kona í Hafnarfirði gaf afleggjara sem fór með næstu ferð norður í land og endaði í blómapotti í gluggakistu í Ártúnum. Amma hafði einnig gaman af því að spila og var jafnan gripið í spil eða kapal þegar færi gafst. Ég legg reglulega þrjá kapla sem amma kenndi mér sem færa í senn hugarró og ljúfa tengingu við bæði ömmu og afa. Amma lifði mikla umbreytingartíma á sinni ævi. Eitt sinn sagði hún mér frá því að hún og afi hefðu verið niðri í miðbæ Reykjavíkur 8. maí 1945 og upplifað þegar fólk fagnaði stríðslokum í Evrópu. Hún sagði líka að þau hefðu orðið fyrir áhrifum af táragasi sem var beitt til að leysa upp óspektir þegar sló í brýnu milli breskra sjóliða og Íslendinga. Þetta höfðu fáir ef einhverjir ættingjar heyrt áður en ömmu þótti þetta ekki tiltökumál. Annað sem fáir vita er að amma var höfundur að nafninu á Húnaveri sem margir þekkja. Hún átti raunar líka nafngiftina á Ártúnum og þessi hugarsmíð ömmu mun lifa áfram um ókomna tíð.

Ég er stolt af því að bera nafn ömmu minnar sem átti ástríka ævi og lét gott af sér leiða. Hún elskaði afa og valdi afmælisdaginn hans 28. mars til að skilja við þessa jarðvist. Takk fyrir allt, elsku amma mín.

Sigríður Dögg
Guðmundsdóttir.

Elsku amma.

Ég var svo heppin að alast upp í næsta húsi við ykkur afa og minningarnar eru ótal margar. Fyrst og fremst vil ég segja að þú hafðir mikinn karakter. Þú notaðir orðatiltæki sem ég heyrði engan annan nota: „Ég hélt ég yrði ekki eldri,“ sagðir þú þegar þú varst að lýsa einhverju sem hafði komið þér á óvart eða „ég hélt ég myndi tvístrast“ þegar þú varst góðlátlega að gera grín að einhverjum aðstæðum sem höfðu farið í taugarnar á þér.

Þau voru endalaust mörg kvöldin þar sem ég kom yfir til þín og þú hitaðir handa okkur hunangste, við spiluðum rommí og spjölluðum. Þú varst skemmtilegur félagsskapur því þú hafðir áhuga á svo mörgu og þú hafðir sterkar skoðanir á hinum ýmsu hlutum. Þú sýndir mér og því sem ég var að segja líka alltaf áhuga. Þú varst nýjungagjörn og meðan mamma og pabbi buðu bara upp á línulega dagskrá í sjónvarpinu í okkar húsi þá fékkst þú þér myndlykil sem opnaði fyrir ótal sjónvarpsstöðvar. Á tímabili kom ég á hverju kvöldi yfir til þín því það var einhver þáttur sem ég þurfti að horfa á. Þú sast oft með mér og hneykslaðist á vitleysunni í sjónvarpinu, og ég verð að segja amma, að ég hafði oft meira gaman af þér og þínum viðbrögðum en sjálfum þættinum.

Við náðum alltaf mjög vel saman og þegar ég var unglingur kom tímabil þar sem ég vildi helst gista á dýnu á gólfinu inni hjá þér og Snati fékk auðvitað að vera með. Þá áttum við góðar stundir, hlustuðum á miðilsfundi í útvarpinu og spjölluðum um yfirnáttúrulega hluti, en dulræn málefni voru einmitt eitt af þínum áhugamálum. Þú áttir reyndar fjölmörg áhugamál, málaðir fallegar myndir, ræktaðir garðinn þinn, varst alltaf með einhverja handavinnu, last ljóð og veltir fyrir þér íslenskri tungu.

Ég mun spila í jarðarförinni þinni amma og þessi vika þar sem ég hef verið að undirbúa tónlistina hefur verið mér mjög dýrmæt. Þegar ég var að velja lögin þá hlustaði ég meðal annars á gamlar plötur með Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps. Það er tregablandin tilfinning að vita af afa standa þarna og stjórna kórnum. Ég bið þig að skila kærri kveðju til hans frá mér. Við frænkurnar munum spila enduróm frá liðnum tíma, lögin Vormorgun og Næturró eftir Jónas, bróður afa, og önnur lög sem við vitum að þér þótti vænt um. Amma, ég kveð þig með þakklæti og mun halda áfram að minnast okkar góðu stunda. Ég er viss um að þú hefur bakað afmæliskringlu og pönnukökur, sem engin gerði betri en þú, á deginum sem þú fórst frá okkur, afmælisdeginum hans afa.

Sigurdís Sandra Tryggvadóttir.

Brosmild og björt, gestrisin og flott. Þannig má í örfáum orðum lýsa Siggu ömmu í Ártúnum sem nú er látin á 100. aldursári sínu. Við kynntumst ömmu á áttunda áratug síðustu aldar. Það er merkilegt til þess að hugsa að þá var hún rétt skriðin yfir fimmtugt, aldur sem við systkinin erum komin á núna. Einhvern veginn eigum við erfitt með að setja okkur í hennar spor enda eru þær þjóðfélagsbreytingar sem við höfum lifað hjóm eitt miðað við þær breytingar sem amma upplifði. Hún ólst upp á Mörk uppi á Laxárdal þar sem aldrei var bílvegur, rafmagn né rennandi vatn í húsi.

Sigga amma var mikil móðir og ættmóðir og átti gott samband við börn sín, barnabörn og barnabarnabörn og fylgdist með þeim öllum af einlægum áhuga. Hún rak af miklum myndugleika stórt heimili í Ártúnum þar sem okkur barnabörnunum fannst alltaf gott og gaman að koma, bæði þegar við vorum börn að aldri og þegar við vorum orðin fullorðin. Alltaf tók amma brosandi á móti okkur með faðmlagi og kossi og bauð svo upp á veitingar inni í eldhúsi eða betri stofunni. Amma átti mörg skapandi áhugamál, garðyrkju, trjárækt, handverk og listmálun. Hún var með næmt auga og lipra hönd og eftir hana liggja allmörg listaverk og hannyrðir. Garðurinn hennar var mikið augnayndi og skógurinn hennar uppi í brekkunni ofan við húsið dafnaði.

Amma las mikið og var vel að sér í íslenskum bókmenntum, auk þess sem hún fylgdist vel með fréttum. Hún var lengstum heilsuhraust og það var magnað að sjá hvernig hún hélt jákvæðni sinni og áhuga á mönnum og málefnum fram á sína síðustu daga. Við minnumst elskunnar og hlýjunnar og allra góðu stundanna sem við áttum í Ártúnum hjá þeim afa. Við kveðjum ömmu með söknuði og þökkum samfylgdina.

Starri og Rakel Heiðmarsbörn.

Elsku amma kvaddi okkur hinn 28. mars síðastliðinn, á afmælisdegi afa, eftir tæplega 100 ára ævi. Hún ólst upp á Mörk í Laxárdal og hún og afi bjuggu saman í Ártúnum í Blöndudal alla sína tíð. Fyrir mig voru það mikil forréttindi að fá að alast upp með ömmu og afa í næsta húsi, stutt að hlaupa yfir í hús við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Þessi nálægð gerði það að verkum að ég var mjög tengd ömmu og eyddi með henni miklum tíma í daglegum störfum og kynntist mörgum af hennar hugðarefnum.

Amma var fjölhæf, hugmyndarík og sjálfstæð. Hún var mikil hannyrða- og listakona og var alltaf uppfull af hugmyndum að næsta verkefni. Hún hafði brennandi áhuga á garðinum sínum og skógarhólfinu og naut þess að koma upp skógi og fylgjast með blómum og trjám vaxa og dafna. Hún var iðulega með margt í gangi og vildi koma miklu í verk og dagurinn hennar var því oft þéttskipaður. Hún var ein af þeim sem láta sér sjaldan leiðast.

Amma hafði miklar skoðanir á samfélaginu og lífinu. Hún var vel lesin og ávallt inni í allri samfélagsumræðu. Hún hafði mikinn áhuga á fjölskyldunni sinni sem er stór og hafði gaman af að fylgjast með öllu sem þar var í gangi.

Elsku amma, ég þakka þér fyrir öll árin sem við áttum saman. Stundirnar sem ég átti með ykkur afa voru ómetanlegar og ég mun búa að þeim alla ævi.

Bergþóra.