Loftárásir Eldur kviknaði í Trípillja-orkuverinu eftir loftárás Rússa í fyrri- nótt og logaði eldurinn glatt í gær. Er orkuverið sagt algjörlega ónýtt.
Loftárásir Eldur kviknaði í Trípillja-orkuverinu eftir loftárás Rússa í fyrri- nótt og logaði eldurinn glatt í gær. Er orkuverið sagt algjörlega ónýtt. — Skjáskot/Telegram
Rússar gerðu eina af mestu loftárásum sínum á Úkraínu til þessa í fyrrinótt. Beindu þeir fjölda eldflauga og sjálfseyðingardróna að orkuverum og öðrum orkuinnviðum landsins, og náðu þeir m.a. að sprengja upp Trípillja-verið, stærsta vatnsorkuver Kænugarðs og nágrennis

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rússar gerðu eina af mestu loftárásum sínum á Úkraínu til þessa í fyrrinótt. Beindu þeir fjölda eldflauga og sjálfseyðingardróna að orkuverum og öðrum orkuinnviðum landsins, og náðu þeir m.a. að sprengja upp Trípillja-verið, stærsta vatnsorkuver Kænugarðs og nágrennis.

Andrí Hota, stjórnarformaður orkufyrirtækisins Centrenerho, sagði við breska ríkisútvarpið BBC í gær að umfang eyðileggingarinnar við verið væri hrikalega mikið, og að Rússar hefðu í raun náð að eyðilegga 100% af framleiðslugetu fyrirtækisins. Sagði hann að Rússar hefðu skotið mörgum eldflaugum á verið, en að næturstarfsmenn þar hefðu náð að forða sér á lífi.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í gær að Rússar hefðu skotið um 40 eldflaugum og beint um 40 sjálfseyðingardrónum að skotmörkum vítt og breitt um Úkraínu, og náði um þriðjungur í gegnum loftvarnir Úkraínumanna.

Ekki er talið að eyðilegging versins muni valda Úkraínumönnum miklum búsifjum í sumar, en Hota sagði að missir versins myndi verða að risavöxnu vandamáli þegar kólna fer aftur næsta vetur. Þá gætu Úkraínumenn reynt að endurreisa verið, en Hota sagði að líklegt væri að Rússar myndu þá ráðast aftur á það, sér í lagi ef bandamenn Úkraínu ná ekki að senda fleiri loftvarnakerfi til landsins. „Við getum gert við, við getum framkvæmt hið ómögulega, en við þurfum vernd,“ sagði Hota.

Rússar beindu einnig spjótum sínum að skotmörkum í Karkív í austurhluta Úkraínu, og að Lvív, sem er í vesturhluta landsins. Rússar hafa gert miklar árásir á Karkív síðustu daga, en yfirvöld í borginni lýstu því yfir í gær að slökkva þyrfti á rafmagni fyrir stóra hluta borgarinnar vegna árásanna. Slökktu yfirvöld meðal annars um stund á neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar til þess að spara rafmagnið.

Tvö jarðhitaver í vesturhluta landsins hlutu mikinn skaða í árás Rússa, og mun missir þeirra setja enn meira álag á raforkunet Úkraínumanna. Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði í gær að árásir sínar hefðu beinst að orkuframleiðslu Úkraínu, og að þeim hefði verið ætlað að trufla hergagnaframleiðslu Úkraínumanna.

Lettar styðja við Úkraínu

Selenskí heimsótti í gær Litháen og hvatti þar vesturveldin til þess að setja ekki kíkinn fyrir blinda augað þegar kæmi að loftárásum Rússa, heldur senda fleiri loftvarnarnakerfi til landsins. Þá nýtti Selenskí tækifærið til þess að undirrita ásamt Edgar Rinkovics, forseta Lettlands, tvíhliða varnarsamkomulag við Lettland, en samkomulagið nær til næstu tíu ára.

Úkraínumenn hafa áður gert álíka samninga við önnur ríki Evrópu, en þeir kveða á um stuðning ríkjanna við varnir Úkraínu, bæði hvað varðar hergagnasendingar á meðan stríðið heldur áfram, en einnig eftir að innrás Rússa lýkur.

Lettar ætla sér að verja um 0,25% af vergri landsframleiðslu sinni til varna Úkraínumanna, en einnig munu þeir aðstoða landið við netvarnir, eyðingu jarðsprengna og þróun drónatækni. Þú munu Lettar styðja við aðildarumsóknir Úkraínu að bæði Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu.

ESB verði að senda loftvarnir

Árásir Rússa í fyrrinótt benda til þess að skotfæraskortur sé nú farinn að há loftvarnakerfum Úkraínumanna. Þá sé einnig brýnt að fjölga þeim kerfum sem Úkraínumenn ráða yfir til þess að verja stærri landsvæði fyrir árásum Rússa.

Guy Verhofstadt, fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu og Evrópuþingmaður, lagði fram í gær tillögu á þinginu um að þingheimur myndi ekki staðfesta fjárlög leiðtogaráðs Evrópusambandsins fyrr en aðildarríki sambandsins hefðu náð að senda til Úkraínumanna sjö Patriot-loftvarnakerfi.

Var tillagan samþykkt með 515 atkvæðum gegn 62 og fögnuðu margir þingmenn með lófataki þegar ljóst var að hún hefði verið samþykkt.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson