Gunnar Jóhann Gunnarsson fæddist á Akureyri 6. október 1954. Hann lést 30. mars 2024.

Foreldrar hans eru Gunnar J. Sigurjónsson, f. 3. ágúst 1925, d. 28. ágúst 2004, og Jóhanna S. Tómasdóttir, f. 19. apríl 1929, búsett á Akureyri. Systkini Gunnars eru: Sigurlaug Þóra, f. 1950, d. 2024, Tryggvi, f. 1953, Sigríður Dóra, f. 1956, Gunnhildur, f. 1957, d. 1957, Sigurjón, f. 1959, Gunnhildur Harpa, f. 1961, og Tómas, f. 1964.

Gunnar lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar vorið 1971.

Hann vann verkamannavinnu hjá Akureyrarbæ í byrjun starfsævinnar og var jafnframt virkur í starfi verkalýðsfélagsins Einingar, gegndi fyrir félagið trúnaðarstörfum og sat í stjórn þess um tíma.

Síðar lauk Gunnar námi í framreiðslu í Hótel- og veitingaskólanum og starfaði meðfram námi og að því loknu í H-100 um árabil. Á seinni hluta starfsævinnar vann Gunnar við næturvörslu á Hótel KEA og ýmsa verkamannavinnu.

Gunnar hafði alla tíð mikinn áhuga á mannrækt og andlegum málefnum. Hann starfaði um áratuga skeið í Alþjóða Samfrímúrarareglunni á Akureyri. Þar gegndi hann ýmsum embættum og var gerður að heiðursfélaga reglunnar árið 2018.

Útför hans fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 12. apríl 2024, klukkan 13.

Hann var í miðjum systkinahópnum, lét oftast ekki mikið fyrir sér fara, blés ekki í eigin lúðra, talaði ekki hátt, en hafði margt fram að færa. Alltaf tilbúinn að hlusta, hjálpa og ráðleggja. Ekki skipti máli hvort beðið var um hjálp til að byggja snjóhús eða heimalærdóm.

Hann kynnti okkur fín vín, gamalt koníak og vel vafða vindla. Síðar gerðist Gunni grænmetisæta, þar gilti það sama. Hann var með fróðleik á reiðum höndum, en ýtti aldrei sínum skoðunum eða lífsháttum að neinum eða predikaði.

Öllum störfum sem hann tók að sér, launuðum jafnt sem ólaunuðum, sinnti hann af kostgæfni og samviskusemi.

Líklega muna flestir eftir honum sem Gunna í Háinu. Þar stóð hann vaktina allar helgar og flesta virka daga og fór ekki í manngreinarálit þó að óskir einstaka viðskiptavina hafi honum þótt skrýtnar. Hann gætti hagsmuna eigenda jafnt sem starfsfólks, enda taldi hann þá oftast fara saman, markmiðið að þjóna viðskiptavinunum sem allra best.

Síðar sinnti hann næturvörslu á Hótel KEA og þar eins og áður voru einkunnarorð hans þagmælska og þjónusta.

Gunni hafði alla tíð mikinn áhuga fyrir mannkynssögu og andlegum málefnum. Hann las mikið og var fróður um hvort tveggja. Ferðalög hans til Egyptalands og Parísar voru honum kærkomið tækifæri til að sinna þessum áhugamálum og svöluðu söguþorsta hans. Þegar heim var komið hafði hann frá mörgu að segja.

Seinni part ævi hans fór mikið af frítíma hans í andleg málefni og starf hans í Samfrímúrarareglunni veitti honum mikla ánægju og lífsfyllingu.

Síðustu æviárin háði hann baráttu sem bauð ekki upp á sigur, heldur eingöngu að hörfa undan. Eins og svo oft áður var það hægt og hljótt og engin uppgjöf fyrr en endirinn blasti við.

En minningin um góðan bróður og vin lifir og yljar.

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas Gunnarsbörn.

Í dag kveðjum við reglubróður og góðan vin, Gunnar J. Gunnarsson, sem lést á Heilbrigðisstofnuninni Hlíð 30. mars sl. Gunnar vígðist inn í Alþjóða Samfrímúrararegluna Le droit humain og stúkuna Gimli nr. 853 hinn 21. mars 1990. Hann var einn af stofnfélögum stúkunnar Austra nr. 1768 sem var stofnuð 2002.

Hann var einn af styrkustu máttarstólpum hennar og vann af áhuga og dugnaði að uppbyggingu frímúrarastarfsins í stúkunni. Gunnari voru falin mörg trúnaðarstörf innan Reglunnar sem hann ræktaði af krafti og eldmóði.

Þennan eldmóð nýtti Gunnar sér í þeim tilgangi að lifa og starfa eftir kenningum Reglunnar, m.a. virða mannréttindi, frelsi til trúarbragðaskoðana, jafnrétti kynjanna og umburðarlyndi til allra manna. Gunnari var vel ljóst að mannræktarstarf er stöðug viðleitni, það var hans hugsjón sem hann lifði eftir.

Gunnar var afar vel lesinn, stálminnugur og mjög vel að sér í siðakerfi og sögu Reglunnar og nutum við góðs af þeirri þekkingu hans. Hann naut þess heiðurs að vera heiðursmeistari í stúkunni Austra nr. 1768.

Að leiðarlokum þökkum við Gunnari af alhug allt hans góða starf í þágu Alþjóða Samfrímúrarareglunnar á Akureyri.

Við kveðjum Gunnar með virðingu og þökk og ástvinum hans vottum við dýpstu samúð.

Fyrir hönd Alþjóða Samfrímúrarareglunnar á Akureyri,

Freyja Rögnvaldsdóttir, Margrét
Guðmundsdóttir.