Unnið er víða á síðasta kafla tvöföldunar Reykjanesbrautar, frá Krýsuvíkurvegi um 5,6 km að Hvassahrauni.
G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir verktaka vinna að borunum og sprengingum við hringtorg við Rauðamel. Við Hraunavík hafi vatnslögn verið tengd, göngustígur grófmótaður og nú sé unnið að smíði undirganga sem og uppslætti á brúarvængjum en platan hafi þegar verið steypt.
Hann segir mikinn kraft í framkvæmdunum, en verkið sé unnið í samstarfi Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðarbæjar, HS Veitna, Mílu, Orkufjarskipta, Ljósleiðarans, Carbfix og Veitna. „Verkið tafðist lítillega um tíma en nú má jafnvel reikna með verklokum fyrir áætlun,“ segir G. Pétur. Áætluð verklok eru 30. júní 2026.