Erlendur Helgi Árnason frá Eyhildarholti í Skagafirði fæddist 4. ágúst 1963. Hann lést á Landspítalanum 26. mars 2024.

Foreldrar hans voru Árni Gíslason frá Eyhildarholti, f. 21.1. 1930, og Ingibjörg Sveinsdóttir, f. 8. janúar 1936, d. 6. janúar 2018.

Systkini Erlendar Helga eru: Sveinn, f. 23. mars 1959, kona hans er Sigurlaug Eyrún Sigurbjörnsdóttir, f. 3. apríl 1966. Gísli, f. 19. júní 1961, kona hans er Guðrún Ingólfsdóttir, f. 20. apríl 1963. Guðrún Eyhildur, f. 2. júlí 1968, maður hennar er Guðmundur Rúnar Halldórsson, f. 21. september 1971.

Eftirlifandi maki Erlendar Helga er Sonja Kjartansdóttir, f. 5.8. 1964, sonur þeirra er Guðmundur Smári, f. 24.7. 2008.

Útför hans fer fram frá Langholtskirkju í dag, 12. apríl 2024, klukkan 13.

Nú er komið að kveðjustund. Lífsljósið hans Ella er slokknað, svo óvænt og ósanngjarnt eftir skyndileg veikindi. Missirinn er mikill.

Eftir fyrsta áfallið í október var þér ekki hugað líf, en þú varst svo sannarlega þrautseigur og komst okkur öllum á óvart. Þú varst kominn á þann stað að til stóð að þú fengir heimfararleyfi um páskana til elsku Sonju þinnar og Guðmundar Smára. En á augabragði breyttist allt og þín heimferð var í sumarlandið.

Elli var ljúfur maður með góða nærveru. Vildi öllum gott gera, með sinn góða húmor og kímniglampa í augum. Þú varst alltaf fljótur að rétta hjálparhönd ef til þín var leitað enda laghentur og vannst öll þín verk af alúð. Við nutum góðs af þegar okkur í fjölskyldunni vantaði verkfæri, þá var gott að kíkja í skúrinn hjá Ella, þar var margt að finna.

Kynni okkar Bjössa við Ella hófust þegar Sonja systir kynnti okkur fyrir ástinni sinni. Þar vorum við fjölskyldan lánsöm, öðlingur sem þú varst. Elli var góður sjómaður og Bjössi og áhöfnin á Vigra var heppin að fá eins góðan og traustan félaga og þú varst. Sannkallaður dugnaðarforkur, vinnusamur og gekkst í öll verk með allri þinni jákvæðni og hógværð. Elli var stoltur Skagfirðingur og heimahagarnir og fólkið hans í Skagafirði áttu stóran sess í hjarta hans.

Okkur þykir það svo sárt að yndislegi drengurinn ykkar, Guðmundur Smári, augasteinninn þinn, sér núna, aðeins fimmtán ára, á eftir pabba sínum. Þið voruð bestu vinir og aðaláhugamálið var fótboltinn. Saman fóruð þið á nokkra leiki að horfa á liðið ykkar Tottenham. Það var sko toppurinn.

Elsku Guðmundur Smári, frændi og vinur okkar, við vitum að mamma þín á eftir að styðja þig og styrkja og halda þétt utan um þig. Þið eigið eftir að hjálpa hvort öðru í ykkar mikla missi og sorg eins náin og þið eruð.

Um leið og við vottum ykkur okkar dýpstu samúð kveðjum við Ella með söknuði og þökkum fyrir allar góðu samverustundirnar.

Erla og Sigurbjörn (Bjössi).

Kæri frændi.

Lífið kennir manni stöðugt að njóta þess tíma sem okkur er gefinn hér á jörðu. Það er erfið sú hugsun að tími okkar saman sé liðinn. Minningar hellast yfir frá góðum stundum og þær gleðja á sorgarstund.

Af æsku okkar varstu stór partur, mótaðir hana með trausti og gagnkvæmri virðingu. Að komast úr þéttbýlinu á unga aldri í sumarstörfin í sveitinni var dýrmætt veganesti inn í lífið. Þar lærðum við systkinin margt af þér.

Minningar um ferðalög í gamla rússajeppanum við bústörfin lifa vel og vélavinnan sem þú treystir okkur delludrengjum fyrir ungum að árum setti þig í guðatölu á þeirri stundu.

Eftir morgunamstrið og matinn var hádegisblundurinn fastur liður fyrir framhald dagsins. Það viðurkennist nú að stundum reyndi á þolinmæðina, biðin meðan á blundi stóð.

Pípan og tóbakið var svo ekki langt undan á þessum tíma og átti sinn stað á eldhúsbekknum.

Telja mætti ótal atburði þessa tíma því minnisstæð eru þau yngri árin í sveitinni.

Þegar leið á árin tókstu stefnuna í allt aðra átt þar sem þú kvaddir bústörfin og lagðir sjómennsku fyrir þig.

Þína einstöku Sonju tengdir þú inn í fjölskylduna og mótaðir lífið með henni og Guðmundi Smára frænda. Fyrir það erum við sannarlega rík. Ekki má gleyma hundinum Krumma sem kallaði fram dýravininn sem innra með þér bjó og þú skildir aldrei við.

Umræður um enska boltann voru líflegar í heimsóknum til þín og vantaði aldrei jákvæðnina í garð þíns liðs, Tottenham. Ég trúi því að þú verðir áfram í sófanum að fylgjast með boltanum í komandi heimsóknum.

Staðreyndin er sú að enginn veit sinn tíma fyrr en allur er. Því ber að þakka þær stundir og gjafir sem lífið færir okkur. Þú eignaðist einstaka fjölskyldu sem ávallt verður hluti af okkur.

Í sorginni kveðjum við þig og þökkum fyrir allt.

Farðu vel, elsku frændi.

Komið er að kveðjustund,

kyrrðin sest nú yfir.

Minningin mun létta lund,

með henni áfram lifir.

Með söknuði nú skiljum vér,

þó sorgin okkur særi.

Nú kallar faðir fund með þér,

við kveðjumst, frændi kæri.

Eyþór Fannar Sveinsson.

Ég kynntist Ella fyrst þegar hann og Sonja felldu hugi saman fyrir hátt í 20 árum. Hann var mjög rólegur og brosmildur maður sem maður þurfti aðeins að hafa fyrir því að kynnast, þar sem hann var lítið að trana sér fram. En þegar maður kynntist honum kom í ljós þessi dásamlega duglegi og góði maður sem vildi allt fyrir alla gera. Alltaf bauð hann upp á kaffibolla og spjall um daginn og veginn þegar maður kíkti í heimsókn. Hann skipti ekki skapi og æsti sig ekki nema Tottenham væri að spila en þá var það af hreinni ástríðu.

Við Elli áttum dýrmætan tíma saman eftir að hann veiktist fyrir fimm mánuðum. Hann barðist af mikilli elju við að ná aftur heilsu og það var aðdáunarvert að fylgjast með framförunum hjá honum en Elli náði lengra til baka en nokkur læknir taldi mögulegt. Ég mun líta til baka með söknuði til allra ólsen-ólsen-spilanna á Grensás. Ef ég vann leit hann kíminn á mig og sagði að ég væri að svindla. Elli var vel liðinn á Grensás og aðrir sjúklingar sóttust í félagsskap hans.

Elsku Sonja og Guðmundur Smári, Elli skilur eftir skarð sem ekki verður fyllt en við reynum að gera það með fallegum minningum.

Þín mágkona,

Anna Kjartansdóttir.

Alltaf var notalegt að koma í heimsókn í Urðarbrunn þegar Elli var í landi. Elli og Sonja tóku samhent á móti okkur með bros á vör. Og Guðmundur var sjaldnast langt undan og hundurinn Krummi.

Þá tóku gjarnan við umræður um fótboltann við þá feðga og gengi Tottenham en Elli var sannur Tottenham-maður. Hann fylgdist grannt með gengi liðsins og fyrirhuguðum leikmannakaupum og fór oft með Sonju og Guðmundi til London að horfa á leiki.

Ekki var síður gaman að ræða við Ella um sjómennsku og þróun sjávarútvegsins eða lífið í sveitinni í Skagafirði sem var honum svo kær. Elli var réttsýnn og íhugull, hógvær í tali og jafnan var stutt í brosið.

Hlýja, festa og trygglyndi hvíldi yfir öllu fasi og framkomu Ella allt frá fyrstu kynnum. Það er sárt að sjá á eftir þessum ljúfa og góða dreng sem óhætt er að segja að hafi dáið í blóma lífsins.

Við færum ykkur, elsku Sonja og Guðmundur Smári, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Erlends Helga Árnasonar.

Margrét og Jakob.

Elsku Sonja og Guðmundur Smári.

Við biðjum allar góðar vættir að styrkja ykkur á erfiðum tímum. Haldið áfram að gera allt það skemmtilega sem þið gerðuð með Ella, þannig er gott að minnast góðs manns sem verður ykkur alltaf svo kær.

Líttu sérhvert sólarlag

Sérhver draumur lifir aðeins
eina nótt.

Sérhver alda rís en hnígur jafnan skjótt.

Hverju orði fylgir þögn –

og þögnin hverfur allt of fljótt.

En þó að augnablikið aldrei fylli stund

skaltu eiga við það mikilvægan fund

því að tár sem þerrað burt –

aldrei nær að græða grund.

Þú veist að tímans köldu fjötra enginn flýr.

Enginn frá hans löngu glímu
aftur snýr.

Því skaltu fanga þessa stund –

því fegurðin í henni býr.

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Með innilegum samúðarkveðjum.

Kvenskátaflokkurinn Langbrók og fjölskyldur,

Valgerður (Vala), Magnea, Kristín, Ingibjörg (Íbí), Hulda, Bjarnheiður (Heiða), Brynhildur (Binna), Andrea og Agnes.