Guðsteinn Frosti Hermundsson fæddist 25. ágúst 1953 í Egilsstaðakoti í Villingaholtshreppi. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 28. mars 2024.

Foreldrar hans voru Hermundur Þorsteinsson bóndi, f. 8.10. 1913, d. 31.12. 1999 og Laufey Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 20.3. 1920, d. 5.1. 2019. Systkini eru Helga Elín, f. 22.10. 1944, Sigurbjörg, f. 6.6. 1947 og Einar, f. 23.11. 1955.

Guðsteinn kvæntist á jóladag 1977 eftirlifandi eiginkonu sinni, Kristínu Tómasdóttur frá Hafsteini á Stokkseyri, f. 29.11. 1954. Foreldrar hennar voru Tómas Karlsson útgerðarmaður, f. 20.11. 1923, d. 27.11. 2008 og Bjarnfríður Símonardóttir húsfreyja, f. 26.12. 1921, d. 11.2. 2007.

Börn Guðsteins og Kristínar eru: 1) Margrét Harpa, f. 15.6. 1977, maki hennar er Ómar Helgason og börn þeirra eru Kolfinna Sjöfn, Hafdís Laufey, Hrafnkell Frosti og Helgi Tómas. 2) Hermundur, f. 10.12. 1980, maki hans er Nína Dóra Óskarsdóttir og börn þeirra eru Þorgerður Kolbrá, Óskar Atli, Hrafnhildur Karitas og Ingibjörg Katrín. 3) Bjarnfríður Laufey, f. 24.3. 1982, maki hennar er Ólafur Þór Jónsson og börn þeirra eru Jón Finnur, Kristín Björk og Egill Frosti. 4) Tómas Karl, f. 21.3. 1990, maki hans er Una Kristín Benediktsdóttir og börn þeirra eru Benedikt Trausti og Harpa Kristín.

Guðsteinn ólst upp við hefðbundin sveitastörf í Egilsstaðakoti. Hann tók landspróf frá Selfossi og síðar meirapróf. Hann stundaði nám við smíðar en þurfti að hætta vegna afleiðinga slyss. Guðsteinn var bóndi allt sitt líf en vann einnig við ýmis störf meðfram búskapnum, s.s. í fiskvinnslu, í sláturhúsi, við smíðar, leigubílaakstur og dyravörslu. Guðsteinn keypti Vesturbæinn á Egilsstöðum ásamt konu sinni og hófu þau búskap þar 25.6. 1977. Þau voru með blandaðan búskap og lögðu aðaláherslu á fjárrækt og kartöflurækt. Fyrstu árin stundaði Guðsteinn selveiði í Þjórsá en stundaði einnig netaveiði á laxi í Þjórsá alla sína búskapartíð. Guðsteinn og Kristín voru með fjölmörg börn í sumardvöl í sveit og eins voru þau með fósturbörn bæði til skemmri og lengri tíma.

Guðsteinn var glaðlyndur og mjög félagslega sinnaður, sat um tíma í stjórn Búnaðarfélagsins og einnig í stjórn Landssambands kartöfluframleiðenda. Hann var mikill söngmaður og söng nánast alla sína tíð í Kirkjukór Villingaholtskirkju.

Guðsteinn fékk alvarlega heilablæðingu 1. júlí 2018 og hætti búskap í kjölfarið. Hann bjó síðustu ár á hjúkrunarheimilunum Fossheimum og Móbergi á Selfossi.

Minningargrein á www.mbl.is

Útför Guðsteins Frosta fer fram frá Selfosskirkju í dag, 12. apríl 2024, klukkan 13.

Í dag kveð ég tengdaföður minn og vin, Guðstein Frosta. Fyrir tæpum 30 árum kynntist ég honum, þegar við Margrét Harpa vorum að draga okkur saman, og urðum við fljótt góðir vinir. Margar skemmtilegar minningar koma upp í hugann þegar ég lít til baka. Veiðiferðirnar í Eystri-Rangá og í Veiðivötnum, þar sem hann naut sín í botn. Veiðin skipti þá engu máli heldur kunni hann svo vel að meta samveruna og útiveruna. Í Veiðivötnum varð alltaf að byrja í Litla-Skálavatni, af því að þar fékk hann þann stóra fyrir nokkrum árum, og svo varð að enda í Litla-Sjó á kvöldin.

Kvöldin voru dálítið tíminn hans Guðsteins – helst úti í náttúrunni. Það var einstakt að fara með honum að vitja um net í Þjórsá, hann gaf sér svo mikinn tíma til að segja frá hvernig staðið var að veiðinni. Hvernig látrin voru sett út og svo flóðin í ánni ásamt selveiðunum. Já, ánni sem hann þekkti eins og lófann á sér, ánni hans afa eins og börnin mín kalla hana.

Ég minnist allra símtalanna sem við áttum, stundum daglega. Þá var mest pælt í búskap eða einhverjum tækjum sem voru keypt en oft var hann bara að heyra hvernig gengi með hitt og þetta eða þá hvernig veðrið væri.

Guðsteinn var bóndi af líf og sál, átti góðar kindur og hafði gaman af því að stússast í þeim og oft gat það tekið óratíma því það varð að hugsa og spá og spekúlera. Hann keypti hrúta að og átti gullfallegan fjárstofn svo eftir var tekið. Réttardagurinn var hátíðisdagur hjá Guðsteini, því þá komu fjölskyldan og vinir saman og þá var alltaf fjölmennt í kjötsúpu í Vesturbænum.

Guðsteinn hafði sérstaklega gaman af því að atast í afabörnunum sínum, segja sögur af alls konar tröllum og furðuverum og hlustuðu þau alla jafna með mikilli athygli á sögurnar. Hann sprellaði og lék mikið við þau og minnist ég sérstaklega eltingaleiks í einu jólaboðinu í Vesturbænum. Það var alltaf fjör í kringum Guðstein, enda var hann bæði stríðinn og gamansamur. Jafnframt var hann traustur og passaði upp á sitt fólk. Alltaf urðum við að láta vita þegar við kæmum heim, sérstaklega ef veður var tvísýnt og ef eitthvað stóð til við framkvæmdir hjá okkur þá var hann óðara kominn að hjálpa til. Hvort sem til stóð að steypa, mála eða setja upp innréttingu – allt vann hann af mikilli vandvirkni.

Guðsteinn var kartöflubóndi og vann hann við kartöflur af mikilli natni og áhuga, enda stór hluti af hans búskap. Sá okkur fjölskyldunni alltaf fyrir góðum kartöflum og eru sérstaklega minnisstæðar jólakartöflurnar, sem voru svo bragðgóðar og fallegar að þær litu út fyrir að vera bónaðar. Það var sérstakt að fá ekki jólabobblur frá Egilsstöðum þegar hann veiktist fyrir rúmum fimm árum. Þá breyttist allt en hann var samt alltaf kátur og jákvæður og hjálpaði þannig öllum í kringum sig í gegnum þann erfiða tíma.

Ég votta Systu og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð. Það er gott að eiga góðs að minnast.

Ómar Helgason, Lambhaga.

Elsku afi Gutti, alltaf var hann að grínast. Ég varð alltaf brjáluð þegar hann kallaði mig Guðrúnu sína á Kvískerjum. Hann gerði líka stundum „Fagur, fagur fiskur í sjó“ við mig og þóttist ætla að lemja hendinni sinni eins fast og hann gat en var bara að grínast. Ég man vel þegar við fórum að vitja um laxanet í Þjórsá og þegar við vorum úti í fjárhúsi, í réttunum og kartöflugeymslunni og hann gaf mér allar ónýtu kartöflurnar svo ég gæti leikið mér við að skera þær og skræla. Svo drakk hann alltaf kaffi úr sama blómabollanum sínum, sem aldrei fór í þvott. Allar þessar minningar mun ég geyma í hjartanu. Ég mun alltaf elska þig, elsku afi Gutti.

Hafdís Laufey Ómarsdóttir.

Elsku afi Gutti.

Afi Gutti var að mínu mati besti afi í heimi. Hann var skilningsríkur, indæll, þolinmóður og sanngjarn maður. Það var líka alltaf fjör í kringum hann afa og hann var alltaf til í að gera eitthvað með okkur, segja okkur sögur sem hann kunni nú margar, kenna okkur alls kyns hluti eða leika við okkur krakkana.

Þegar ég hugsa til baka er mér minnisstæðast allt það sem við brölluðum saman. Eins og öll skiptin sem hann hjálpaði mér að stríða ömmu, til dæmis þegar ég faldi mig hjá uppþvottavélinni og hann fékk grey ömmu til að fara inn í eldhús fyrir mig, til að bregða henni. Eða öll þau skipti sem ég kom í heimsókn og þá sat hann í afa sæti og las Bændablaðið með blómabollann sinn og hlustaði á fréttirnar. Líka eitt skiptið þegar það var hakk og spagettí í matinn og hann fékk þá „frábæru“ hugmynd að setja smá paprikukrydd í matinn sinn til að krydda hann örlítið og setti því bara dass … en svo kom í ljós að þetta var víst chiliduft en ekki eitthvert milt paprikukrydd, hann drakk svo heila vatnsflösku með alla skellihlæjandi kringum sig.

Svo eru líka litlu hlutirnir sem ég man eins og til dæmis þegar hann ýtti mér á rólunni sem var inni í fjárhúsi, þegar ég fékk að kúra á milli afa og ömmu þegar ég vaknaði of snemma og svo þá miklu þolinmæði sem hann sýndi mér alltaf og þá sérstaklega þegar við fórum saman að vitja um laxanetin í Þjórsá og þegar ég náði ekki að taka alla moldarkögglana af bandinu í kartöfluupptekt á haustin.

Afi Gutti var virkilega góður maður og það er alveg á hreinu að hann bætti hvert líf sem hann kom nálægt. Hann var rosalega jákvæður og hress maður, en á vorin kom líka ákveðinn púki í hann afa Gutta. Honum fannst að vorin væru alltaf besti tími ársins og það fór sko ekki fram hjá honum þegar vorboðinn mætti og daginn tók að lengja. Mér finnst því við hæfi að láta fylgja ljóðið um vorboðann, Lóuna.

Lóan er komin að kveða burt snjóinn,

að kveða burt leiðindin, það getur hún.

Hún hefur sagt mér, að senn komi spóinn,

sólskin í dali og blómstur í tún.

Hún hefir sagt mér til syndanna minna,

ég sofi of mikið og vinni ekki hót.

Hún hefir sagt mér að vakna og vinna

og vonglaður taka nú sumrinu mót.

(Páll Ólafsson)

Ég sakna þín ósköp mikið.

Þín afastelpa,

Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir.

Elsku Guðsteinn frændi hefur nú kvatt okkur en við trúum því að hann sé kominn á góðan stað hjá ömmu og afa og öðru góðu fólki sem vakir yfir okkur. Það er skrítið að setjast niður og eiga að finna orð um elsku besta Gutta frænda sem var svo stór hluti af uppvexti okkar í sveitinni.

Við ólumst upp við að þekkja ekki annað en að vesturbærinn hjá Guðsteini og Systu væri okkar annað heimili. Maður var vanur að sjá Guðstein á Zetornum sínum á ferðinni um hlöðin við bústörf eða á leiðinni í kaffi til ömmu og afa. Ósjaldan sá maður tvo traktora hlið við hlið einhvers staðar á milli bæjanna þar sem þeir pabbi sátu hvor í sínum traktornum og spjölluðu saman um heimsmálin og verkefni dagsins.

Guðsteinn var söngelskur og með mikla útgeislun án þess að trana sér fram. Það var ávallt stutt í glettnina og prakkaraskapinn en hann var líka einstaklega barngóður og traustur sem klettur. Það kom bersýnilega í ljós þegar pabbi slasaðist á Þorláksmessukvöld. Mamma var með þrjú lítil börn og fjórða á leiðinni. Þá var Guðsteinn mættur með bros á vör, gæddi lífið von og umvafði okkur systkinin eins og sín eigin.

Við erum óendanlega þakklát fyrir allar stundirnar í hverfinu, kotasöngpartíin og skemmtilegu minningarnar sem láta mann brosa út í annað.

Enginn veit hvað okkar bíður

eða hvar í kvöld mun gist.

Elfur tímans áfram líður,

eflaust margt í burtu flyst.

Fullvíst er samt það, að þó hann

þætti blautur, gamla Flóann

helst ég kýs sem himnavist.

(Flóavísur, Gísli Halldórsson)

Elsku Systa, Margrét, Hermundur, Benna Laufey, Tómas og fjölskyldur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Megi góður guð styrkja ykkur í sorginni. Minningin um elsku frænda mun lifa í hjörtum okkar.

Kotasystkinin,

Guðbjörg, Þorsteinn, Halla, Laufey og Sveinn Orri.

Í dag kveðjum við bóndann í Flóanum, alinn upp við nið og ísabrot Þjórsár, fjárbónda og jarðepla, kom árum saman með jólakartöflurnar á hlaðið við Vallaskóla, rauðar og gull, datt líka í heimspekina með félögunum norður í Krossneslaug, þeir fengu að sjá Guðstein vaggandi í bátkænu norður í straumi Héraðsvatna, en farinn að syngja Jóavísur, Guðmundar eða Ragnars er fór að kvölda við Hnjúkinn háa.

Minningar lifna og leita orða þegar Guðsteinn Frosti kveður okkur – alltof snemma – og nú var komið að ferðinni síðustu og hlýir hugir vina fylgja bóndanum brosmilda úr Egilsstaðahverfinu, kveðjum með ljóði frá einu kórskáldanna okkar, Jóa í Stapa:

Við sungum um sólskin og yndi

um söngfugl, er kvakaði í mó

um fannhvíta fljúgandi svani

um friðinn í heiðanna ró.

Um lindina blikandi bjarta

um blóm, er í moldinni grær.

Það færði okkur fögnuð í hjarta

það flutti okkur sumrinu nær.

(JG)

Ingi Heiðmar Jónsson.

hinsta kveðja

Elsku afi okkar, takk fyrir allt. Takk fyrir allar skemmtilegu stundirnar okkar saman í sveitinni. Við óskum þess að geta gert síðasta nebbakossinn okkar einu sinni enn eða ruglað saman fótunum okkar í fótastríði. Við munum sakna þín, hversu frábær og skemmtileg manneskja þú varst. Þú verður alltaf í hjörtum okkar og við munum alltaf sakna þín.

Leiddu mína litlu hendi,

ljúfi Jesús, þér ég sendi

bæn frá mínu brjósti, sjáðu,

blíði Jesús, að mér gáðu.

Kveðja,

Kristín Björk, Jón Finnur og Egill Frosti.