Guðmundur Úlfur Arason fæddist á Landspítalanum í Reykjavík 15. febrúar 1934. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 24. mars 2024.
Foreldrar hans voru Ari Guðmundsson, sjómaður, bóndi og rafvirkjameistari í Reykjavík og víðar, f. 18. des. 1910 í Gröf, Gufudalshreppi, Austur-Barðastrandarsýslu, d. 23. apríl 1989, og kona hans Dagný Eygló Hjörleifsdóttir, húsfreyja og saumakona í Reykjavík og víðar, f. 16. feb. 1916 í Dúkskoti í Reykjavík, d. 31. okt. 1976. Ari og Dagný skildu og var Guðmundur eina barn þeirra.
Guðmundur var í sambúð með Auði Ingólfsdóttur, f. 16. nóv. 1938. Þau slitu samvistum. Foreldrar hennar voru Ingólfur Jóhannesson, f. 14. sept. 1906, d. 13. maí 1975, og kona hans Rakel Loftsdóttir, f. 22. mars 1914, d. 12. ág. 1998. Guðmundur og Auður áttu tvo syni. Þeir eru: 1) Ari, f. 4. maí 1956, eiginkona Guðrún Gunnlaug Jónsdóttir, f. 7. jan. 1952. Börn þeirra: Guðmundur Jón, f. 5. feb. 1980, Guðný Marta, f. 22. okt. 1983 og Hannes Þór, f. 3. okt. 1990. Sonur Guðrúnar og stjúpsonur Ara: Davíð Hansson, f. 18. okt. 1974; 2) Róbert Ingi, f. 15. júní 1957, eiginkona Þuríður Ólöf Rúnarsdóttir, f. 4. okt. 1961. Börn þeirra: Davíð Jón, f. 11. nóv. 1979, Andri Páll, f. 21. apríl 1981, Auður Ósk, f. 4. des. 1984, Magni Lár, f. 11. okt. 1988, Gylfi Þór, f. 21. sept. 1995, og Ágúst Örn, f. 21. sept. 1995.
Guðmundur var kvæntur Dómhildi Sigurrós Glassford, f. 27. sept. 1943, d. 3. mars 2022. Þau skildu. Foreldrar hennar voru Ása Hulda Jónsdóttir, f. 15. nóv. 1921, d. 18. jan. 1992, og James W. Glassford. Börn þeirra: 1) Dagný Eygló, f. 1. ág. 1965. Sonur hennar: Eyþór, f. 24. jan. 1998, 2) Karl Sigþór, f. 25. júlí 1966. 3) Sveinbjörn Pétur, f. 27. okt. 1973. Sonur hans: Ingi Alexander, f. 14. okt. 2009. Dóttir Dómhildar og fósturdóttir Guðmundar: Ása Ósk Glassford, f. 2. feb. 1963. Barnabarnabörn Guðmundar eru 17.
Guðmundur lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar 1951. Hann tók hið meira fiskimannapróf frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1960 og farmannapróf frá sama skóla 1965. Mestallan sinn starfsferil stundaði Guðmundur sjómennsku, í fyrstu á fiskiskipum, aðallega nýsköpunartogurunum. Hann var m.a. á Agli rauða NK-104 þegar togarinn fórst undir Grænuhlíð í janúar 1955 og var síðasti eftirlifandi skipverjinn frá því slysi. Um þessar mundir vann Guðmundur einnig á nokkrum netaverkstæðum við netaviðgerðir og –uppsetningar. Á tímabilinu 1960-1964 var hann forstöðumaður skipstjórnarnámskeiða á Ísafirði, Akureyri, Siglufirði og Eyrarbakka á vegum Stýrimannaskólans í Reykjavík. Frá árinu 1963 starfaði Guðmundur sem stýrimaður og skipstjóri á flutningaskipum, íslenskum og erlendum, lengst af sem skipstjóri á flutningaskipinu Hvalvík. Á árinu 1994, þegar Guðmundur lét formlega af sjómennsku, tók hann að sér hlutastarf sem eftirlitsmaður á vegum Fiskistofu og Hafrannsóknarstofnunar um borð í fjölda fiskiskipa, íslenskra og erlendra. Árið 2002 þegar Guðmundur fór endanlega í land hafði hann starfað til sjós í 51 ár, á um það bil 70 skipum.
Útför Guðmundar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 12. apríl 2024, og hefst athöfnin klukkan 10.30. Streymi:
https://fb.me/e/5uAP0vbOO
Eitt áttum við pabbi sameiginlegt, við vorum báðir aldir upp af sömu konunni, Dagnýju Eygló Hjörleifsdóttur, sem var móðir hans og amma mín. Þó svo að pabbi væri til heimilis á sama stað og við amma fyrstu uppvaxtarárin mín, þá sá maður hann sjaldan. Hann var sjómaður og bókstaflega alltaf úti á sjó.
Ég kynntist pabba ekki að ráði fyrr en hann tók mig með sér til sjós á síldarflutningaskipið Dagstjörnuna, níu ára gamlan, og síðar á síldarflutningaskipið Haförninn.
Haförninn var gerður út frá Siglufirði, þar sem farmi hans var landað, og var pabbi yfirstýrimaður og afleysingarskipstjóri á því skipi á árunum 1966-1969. Þá hvarf síldin vegna ofveiði og skipið var selt úr landi. Ég var með pabba á Haferninum í þrjú sumur og kynntist honum þá nokkuð vel.
Pabbi kappkostaði að hafa alla hluti í röð og reglu um borð og gat verið nokkuð höstugur þegar mikið lá við. Hann var alla ævi bindindismaður á áfengi og tóbak en það var sjaldgæft meðal sjómanna. Þó svo að sumir teldu hann fanatískan hvað áfengið varðar, þá fannst mér hann ekki vera með meiri afskiptasemi í þeim efnum en aðrir skipstjórar sem ég hef siglt með. Öryggi skipsins og mannskapsins um borð var honum ávallt ofarlega í huga.
Á þessum árum voru sjóslys við Íslandsstrendur fremur algeng. Pabbi var alls ekki ókunnur þeim. Hann var bátsmaður á togaranum Agli rauða NK-104, þá rétt rúmlega tvítugur, þegar togarinn fórst undir Grænuhlíð árið 1955. Það tókst að bjarga 29 mönnum af togaranum við mjög erfiðar aðstæður en fimm fórust. Af þeim sem björguðust af Agli rauða var pabbi sá síðasti til að falla frá. Óttar Sveinsson gerir vel grein fyrir þessu slysi í Útkalls-bók sinni „Þrekvirki í Djúpinu“, sem kom út árið 2018, en mikill hluti bókarinnar er byggður á frásögn pabba. Tæplega tveimur árum eftir strand Egils rauða, en þá var pabbi á togaranum Hafliða frá Siglufirði, tók hann þátt í björgun áhafnarinnar á togaranum Fylki RE-161. Á þessum tíma var áfallahjálp ekki til og þurftu þeir sem björguðust lifandi úr sjóslysum að burðast með erfiða lífsreynslu alla tíð. Þó svo að pabbi hafi, til að byrja með, gert lítið úr því sálræna áfalli sem hann varð fyrir, þá veit ég að þessi sjóslys mótuðu skapgerð hans fyrir lífstíð, ekki síst viðhorf hans gagnvart öryggismálum til sjós.
Eftir 90 ára lífshlaup, þar af 51 ár til sjós, er pabbi kominn í lokahöfn. Hann var einkabarn móður sinnar og því við hæfi að hann fái sína hinstu hvílu hjá henni. Megi hann hvíla í friði.
Minningargrein á www.mbl.is
Ari Guðmundsson.
Fallinn er frá níræður að aldri frændi minn Guðmundur Úlfur Arason skipstjóri. Mig langar að minnast hans fáeinum orðum.
Við kynntumst fyrst sumarið 1941 er hann kom til stuttrar dvalar vestur á Bíldudal til afa okkar og ömmu, Guðmundar Arasonar frá Barmi í Gufudalssveit og Þorbjargar Guðmundsdóttur frá Skáleyjum á Breiðafirði. Þau bjuggu þá að Hóli og ráku þar kúabú til mjólkursölu í þorpinu. Afi og amma eignuðust tíu börn auk einnar fósturdóttur. Og þó að flest barna þeirra væru farin að heiman er hér var komið var sannarlega margt umleikis þar á bænum sem tók hug okkar allan. Guðmundur Úlfur var fyrsta barnabarn afa og ömmu og skipaði þann sess af meðvitaðri ábyrgð og reyndist með tímanum öðrum ættræknari í þessari fjölskyldu og hafði til að mynda forystu um niðjamót er haldið var á æskuslóðunum er stundir liðu fram.
Þegar hefðbundnu skólanámi lauk fór Guðmundur Úlfur strax til sjós og þar með var stefnan tekin fyrir lífstíð. Hann var tvítugur skipverji á togaranum Agli rauða frá Neskaupstað er hann strandaði í blindhríð og brimi við Grænuhlíð norðan Ísafjarðardjúps við afar erfiðar björgunaraðstæður.
Á Agli rauða voru 34 skipverjar, 5 fórust en 29 var bjargað. Nú mun Guðmundur Úlfur seinastur eftirlifenda úr þessu slysi sem kveður.
Guðmundur Úlfur lauk skipstjórnarnámi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Þá kom vel fram að siglingafræði lá vel fyrir honum enda glöggur og skarpgreindur. Eflaust var það meðfram þess vegna sem honum var falið næstu árin að halda námskeið víða um land fyrir minna próf skipstjórnarmanna.
Guðmundur Úlfur var skipstjóri á Hvalvíkinni um skeið sem Finnbogi Kjeld gerði út. En lengstum starfsaldri við skipstjórn skilaði Guðmundur Úlfur annars erlendis. Þann hluta starfsævinnar bjó hann og fjölskylda hans í Hollandi.
Við starfslok fluttu þau heim og settust að í Hveragerði þar sem Guðmundur Úlfur hefur búið síðan. Honum varð fimm barna auðið og afkomendur hans eru 27 við leiðarlok. Ég þakka Guðmundi Úlfi trausta vináttu frá fyrstu tíð um leið og ég sendi öllum aðstandendum hans hugheilar samúðarkveðjur og bið minningu hans blessunar Guðs.
Óli Þ.
Guðbjartsson.
Fyrstu kynni mín af Guðmundi voru á Siglufirði 1957 á síldarárunum, en hann vann með föður mínum við netabætingar og einnig var hann á togurum og bátum og þótti ákaflega kappsamur alla tíð. Því fengum við skólabræður hans að kynnast í stýrimannaskólanum en þar var hann góður námsmaður og lukum við farmannaprófi 1965. Hann hafði klárað meira fiskimannapróf nokkrum árum áður og var ráðinn kennari í svokölluðum minni fiskimannsprófum sem voru 120 tonna réttindi og tóku við af 30 tonna réttindum. Á þessum árum voru fiskiskipin að stækka og 30 tonna réttindin dugðu ekki. Þessi námskeið voru haldin á nokkrum stöðum á Norðurlandi og Vestfjörðum og voru margir skipstjórnarmenn sem luku 120 tonna réttindum hjá Guðmundi og er við vorum í þriðja bekk farmannadeildar voru margir nemendur hans í meira fiskimannaprófi að taka full réttindi á hvaða fiskiskip sem var. Gerðu nemendur hans góðan róm að hans kennslu, að þeir hefðu farið tiltölulega létt í gegnum meiraprófið.
Þegar við lukum prófi 1965 fór Guðmundur á Haförninn sem var í síldarflutningum á milli NA-miða og Siglufjarðar og þar var hann þar til síldin brást endanlega. Eftir það fór hann í siglingar á þýskum og dönskum kaupskipum og líkaði vel. Það næsta sem ég vissi af honum var að hann kom í heimsókn og bað mig um að leysa sig af á Eldvík, sem er kaupskip í eigu skipafélagsins Víkurskipa, en hann átti að fara til Danmerkur og sækja Hvalvík sem var nýtt skip félagsins og var hann í 15 ár skipstjóri þar. Þessi heimsókn varð til þess að ég tók alfarið við Eldvík og var hjá Víkurskipum í tíu ár og voru samskiptin við Guðmund mjög góð alla tíð.
Guðmundur var ekki hávaxinn maður en samsvaraði sér vel, ljós yfirlitum og hafði gráblá augu sem voru full af kímni, er hann sagði sögur af mönnum og málefnum, en gátu skotið neistum er honum rann í skap, en hann átti það til, er verið var að losa eða lesta skipið, og gekk á ýmsu, en eins og áður kom fram þá var hann fullkappsamur og gaf ekkert eftir. Margir skipsfélagar hans þökkuðu fyrir að hann var algjör bindindismaður en þegar veislur voru haldnar um borð fyrir viðskiptavini skipafélagins þá var veitt vel og var hann hrókur alls fagnaðar. Á hátíðisdögum um borð þegar góður matur var framborinn og góðar sósur bragðbættar með úrvalsrauðvíni, þá var bannað að láta hann vita, en hann borðaði vel og dásamaði góðan mat og varð ekki meint af, og tel ég ekkert að því að upplýsa þetta að vini mínum gengnum. Enda höfðu þessar sósur engin áhrif á hans bindindi, enda bindindismaður alla tíð.
Guðmundur naut sín vel sem skipstjóri á Hvalvík alla tíð og var mjög áhugasamur um gang félagsins, þess vegna var það öllum starfsmönnum mikið áfall þegar félagið hætti allri starfsemi.
Ég þakka Guðmundi fyrir góð kynni og samstarf og óska honum góðrar ferðar á eilífum hafsvæðum, því ég veit að hans bíður ferðbúið skip, þar sem svo margir af ágætum sjómönnum Víkurskipa eru farnir yfir.
Guð blessi hann og hans fjölskyldu og ég veit þú ferð sáttur við guð og menn, og saddur lífdaga.
Þorlákur Ásgeir
Pétursson.