Íþróttahús Áformað er að byggja fjölnota íþróttahús við Frostaskjól.
Íþróttahús Áformað er að byggja fjölnota íþróttahús við Frostaskjól. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
Borgarráð samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að heimila umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar að hefja útboðsferli vegna byggingar á nýju fjölnota íþróttahúsi KR við Frostaskjól. Í bókun meirihluta borgarráðs kemur fram að hann telji brýnt…

Borgarráð samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að heimila umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar að hefja útboðsferli vegna byggingar á nýju fjölnota íþróttahúsi KR við Frostaskjól.

Í bókun meirihluta borgarráðs kemur fram að hann telji brýnt að efla íþróttaaðstöðu KR til að þjóna börnum og ungmennum í hverfinu. Þar kemur fram að hið nýja fjölnota íþróttahús verði um 6.700 fermetrar að stærð og þar af íþróttasalur um 4.400 fermetrar. Í húsinu verður hægt að æfa knattspyrnu innandyra á gervigrasvelli og miðað við að hægt sé að keppa mótsleiki í átta manna bolta. Í hliðarbyggingu er gert ráð fyrir skrifstofurýmum, lyftingasal, fundarsölum og öðrum rýmum sem þjónusta starfsemi hússins. Gert ráð fyrir svölum inni í íþróttasal ásamt svölum utan á byggingu sem snýr að aðalvelli KR.

Sjálfstæðismenn í borgarráði fögnuðu því að þessum áfanga væri náð svo hefja megi uppbyggingu fjölnota íþróttahúss við Frostaskjól. Málið eigi sér langan aðdraganda og mikilvægt að uppbygging íþróttahússins fari af stað á næstu mánuðum.