Fjárfestingar í neti jarðganga á höfuðborgarsvæðinu geta mögulega borið sig. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur og stjórnarformaður í fjárfestingasjóðnum Innviðir II, sem er í eigu nokkurra lífeyrissjóða

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fjárfestingar í neti jarðganga á höfuðborgarsvæðinu geta mögulega borið sig. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur og stjórnarformaður í fjárfestingasjóðnum Innviðir II, sem er í eigu nokkurra lífeyrissjóða. Erlendir fjárfestingasjóðir muni líka ábyggilega sýna slíkri fjárfestingu áhuga en kominn sé tími til að einkaaðilar komi meira að vegagerð á Íslandi.

Tilefnið er viðtal við Holberg Másson í Morgunblaðinu í gær en hann var hvatamaður þess að Sjálfstæðisflokkurinn stofnaði sérfræðingahóp til að meta kosti gangagerðar um land allt. Hugsað er stórt og rætt um 150 km af göngum á landsbyggðinni og 100 km af göngum á höfuðborgarsvæðinu (sjá graf).

Vilhjálmur segir það ekki einfalt mál að leggja í net jarðganga á höfuðborgarsvæðinu.

„Áður en farið er út í framkvæmdir þarf miklar rannsóknir. Meðal annars á eftirspurnarhliðinni. Ákveða þarf skynsamlegustu staðsetningarnar, hvar gangaopin eiga að vera, hvernig flæði í göngunum á að vera og svo framvegis. Marga þætti þarf að skoða áður en ákvörðun er tekin,“ segir Vilhjálmur.

Góður hluti af eignasafni

„Innviðasjóðir leita fanga víða. Innviðasjóðurinn Innviðir II hefur verið með augastað á samgönguframkvæmdum og bauð til dæmis í verkefnið við Hornafjarðarfljót en svo hætti ríkið við uppleggið eins og það var fyrst kynnt. Þessir sjóðir eru starfræktir vegna þess að lífeyrissjóðirnir hafa áhuga á fjárfestingu í innviðum almennt og fjárfestingar í samgöngum eru mjög góður hluti af eignasafni lífeyrissjóða.

Svo má benda á að ef framkvæmdir yrðu á þessum skala myndu margir erlendir innviðafjárfestar örugglega hafa áhuga á að koma að málum,“ segir Vilhjálmur og vísar til þeirra hugmynda sem nú eru ræddar innan Sjálfstæðisflokksins.

Vilhjálmur segir að það myndi taka þrjú til fjögur ár að undirbúa slíka gangagerð á höfuðborgarsvæðinu. Svo megi þrefalda, eða fjórfalda, þann tíma til að áætla framkvæmdatímann. Því sé raunhæft að slík gangagerð geti tekið 15 til 20 ár. Þá megi ganga út frá því að gangagerð á höfuðborgarsvæðinu myndi standa undir sér með veggjöldum en göng annars staðar gæti þurft að styðja við eins og gengur í vegagerð almennt.

Nægir fjármunir til

Þá sé fjárfestingin sem slík ekki óyfirstíganleg.

„Verkefnið yrði vel viðráðanlegt. Það eru til nógir peningar í kerfinu innan lands sem utan til að gera þetta. Ef menn fara út í þetta á annað borð sé ég ekki að peningar séu vandamál. Aðalvandamálið er kerfið hér heima.

Margir aðilar eru til í að byggja og reka samgöngumannvirki en vandamálið er að enginn má reka vegi eða gera neitt í samgöngumálum á Íslandi nema Vegagerðin. Ríkið er bara ekki tilbúið til að leggja í samgöngurnar nægilega mikið út frá hefðbundum forsendum. Það er pólitískt vandamál. Ríkið tekur að sér verkefni sem það ræður ekki við,“ segir Vilhjálmur sem telur að endurhugsa þurfi þetta viðhorf frá grunni.

„Uppbygging, rekstur og viðhald vega og annarra samgöngumannvirkja þarf að geta gengið þannig fyrir sig að ríkið sé ekki að koma að hverju einasta verki. Ef fleiri fengju að koma að málum myndum við fá miklu betri vegi,“ segir Vilhjálmur.

Allir myndu græða

Spurður um það sjónarmið að veggjöld séu óbein skattlagning svarar hann því til „að samfélagslegur ábati af því að byggja vegi og borga fyrir notkunina sé miklu meiri en að hafa fyrirkomulagið eins og það er. Þannig að allir myndu græða,“ segir Vilhjálmur.

Veggjöld þurfi að taka mið af vegalengd og þeim sparnaði sem hlýst af notkun þeirra. Við innheimtu veggjalda í jarðgöngum sé þumalfingursreglan að greiðsluviljinn sé metinn helmingurinn af því sem fólk sparar með notkuninni. Þá sé rétt að veggjöld fari eftir notkun og jafnframt þurfi að huga að því hvenær dagsins göng séu notuð. Allt þetta kalli á mikla greiningu á umferðinni.

Höf.: Baldur Arnarson