Vogar Börnum á grunnskólaaldri hefur fjölgað um rúm 40% á síðustu mánuðum. Erfitt er að veita nýjum íbúum þjónustu að sögn bæjarstjórans.
Vogar Börnum á grunnskólaaldri hefur fjölgað um rúm 40% á síðustu mánuðum. Erfitt er að veita nýjum íbúum þjónustu að sögn bæjarstjórans. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Vorfundur Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum er haldinn í dag. Á honum verður farið yfir stöðuna í sveitarfélögunum suður með sjó, meðal annars með tilliti til áhrifa eldgosanna á íbúa og byggðarlögin. Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum, flytur erindi á fundinum og þar mun hann greina frá fordæmalausri fjölgun íbúa í sveitarfélaginu og áskorunum sem fylgja; fjárhagslegum og félagslegum.

Baksvið

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Vorfundur Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum er haldinn í dag. Á honum verður farið yfir stöðuna í sveitarfélögunum suður með sjó, meðal annars með tilliti til áhrifa eldgosanna á íbúa og byggðarlögin. Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum, flytur erindi á fundinum og þar mun hann greina frá fordæmalausri fjölgun íbúa í sveitarfélaginu og áskorunum sem fylgja; fjárhagslegum og félagslegum.

„Það hafa á þriðja hundrað manns flutt hingað á síðustu vikum. Íbúafjölgunin er 33% á rétt rúmlega ári, frá ársbyrjun 2023 til mars á þessu ári, og stefnir í að hún verði enn meiri enda er enn verið að úthluta íbúðum á vegum leigufélagsins Bríetar og íbúðafélagsins Bjargs,“ segir bæjarstjórinn í samtali við Morgunblaðið.

Mikill meirihluti nýju íbúanna eru Grindvíkingar að sögn Gunnars Axels. Þeir hafa bæði fest kaup á fasteignum og fengið íbúðir á vegum áðurnefndra félaga. Erfitt er að segja nákvæmlega til um fjölda nýju íbúanna enda hefur Grindvíkingum verið gefinn kostur á að skrá aðsetur sitt tímabundið í ljósi aðstæðna. Kveður Gunnar Axel að fjöldinn sé líklega vanmetinn enda sé allur gangur á því hvort fólk skráir slíkt aðsetur eða ekki.

„Opinber fjöldi hér er 1.599 sem hafa skráð lögheimili og 1.788 með þeim sem hafa skráð aðsetur hér. Sennilega er sú tala nálægt 1.900,“ segir hann. „Þetta er auðvitað gríðarleg fjölgun sem við áttum eðlilega ekki von á. Við reiknuðum ekki með svo hraðri fjölgun að allt myndi fyllast í ársbyrjun. Okkar ýktustu spár hafa raungerst á fyrstu dögum ársins.“

Gunnar segir að þessar tölur segi aðeins hálfa söguna því þessi hraða fjölgun hafi mikil áhrif á alla innviði. „Það er komið að þolmörkum hjá okkur, sérstaklega í skólunum. Börnum á grunnskólaaldri hefur fjölgað um rúm 40%. Við erum að gera allt sem við getum til að tryggja þessu fólki viðeigandi þjónustu en við getum ekki gert meira en innviðir og fjárhagur sveitarfélagsins leyfir.“

Bæjarstjórinn segir að þessi staða setji risastórt strik í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Það megi ekki síst rekja til þess að útsvarstekjur fylgi ekki þessum nýju íbúum sem aðeins eru með skráð aðsetur í Vogum.

„Útgjöld hafa stóraukist og tekjuáætlun stenst ekki lengur. Við gerðum ráð fyrir íbúafjölgun og að samhliða henni yrði tekjuaukning. Að óbreyttu horfum við fram á að þurfa að skerða þjónustu. Við höfum fjölgað starfsfólki í skólanum og bætt við kennslustofu í leikskólanum. En því eru takmörk sett hvað hægt er að veita mörgum viðunandi þjónustu ef við fáum ekki eðlilegan stuðning til að sinna verkefninu. Þetta leysist ekki með góðmennskunni einni saman.“

Stefnir fljótt í óefni

Gunnar Axel segir að ríkisvaldið þurfi að koma með skýr svör um það hvernig eigi að styðja við þessa nýju íbúa. „Við fáum engin svör. Það virðist vera algert stjórnleysi í þessum málum hjá ríkinu. Málinu er ekki lokið með uppkaupum á húsnæði og ég sé ekkert í kortunum sem á að tryggja þessu fólki lögbundinn rétt til þjónustu. Það er algerlega óviðunandi.“

Hann kveðst aðspurður þegar hafa óskað eftir fundi með nýjum innviðaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur. „Ég met stöðuna þannig að ef ekkert verður að gert og það fljótt þá stefni í óefni. Ég trúi því og treysti að nýr innviðaráðherra vilji gera allt til að fyrirbyggja þær aðstæður.“

Bókun bæjarráðs

Óvissa og aukin útgjöld

Bæjarráð fjallaði um stöðu mála á dögunum og í bókun þess kemur fram að tekið hafi verið neikvætt í beiðni um framlag úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna þeirra ófyrirséðu fjárútláta sem Vogar þurfi að taka á sig.

„Kallar bæjarráð eftir skýrum og tafarlausum svörum frá ráðherra sveitarstjórnarmála um hvernig ríkissjóður hyggst styðja við sveitarfélagið og önnur sveitarfélög í sambærilegri stöðu, m.a. hvað snertir lausnir í húsnæðismálum leik- og grunnskóla, sem og að það tekjutap sem sveitarfélagið hefur orðið fyrir og horfir fram á vegna óvissu um fyrirkomulag lögheimilisskráningar þessa hóps verði bætt með viðunandi hætti,“ segir í bókun bæjarráðs.