Landsvirkjun Nú hillir undir að bygging Hvammsvirkjunar geti hafist.
Landsvirkjun Nú hillir undir að bygging Hvammsvirkjunar geti hafist.
Tekjutap Landsvirkjunar (LV) vegna skerðinga á afhendingu raforku til viðskiptavina sinna frá því í lok síðasta árs nemur hundruðum milljóna króna. Blöndulón hefur sögulega aldrei staðið jafn lágt á þessum tíma og staðan á öðrum lónum er álíka slæm

Guðmundur H. Hilmarsson

gummih@mbl.is

Tekjutap Landsvirkjunar (LV) vegna skerðinga á afhendingu raforku til viðskiptavina sinna frá því í lok síðasta árs nemur hundruðum milljóna króna. Blöndulón hefur sögulega aldrei staðið jafn lágt á þessum tíma og staðan á öðrum lónum er álíka slæm.

Nú hefur Landsvirkjun neyðst til að skerða afhendingu raforku lengur en vonast hafði verið til og er ástæðan fádæma lélegt vatnsár og að gengið hafi hratt á uppistöðulón fyrirtækisins. Ekki er útlit fyrir að staðan batni fyrr en hlýna tekur og vorleysingar hefjast, með vaxandi innrennsli á vatnasviðum Landsvirkjunar.

„Þetta er áframhald á því sem höfum áður tilkynnt. Við höfðum tilkynnt að skerðingarnar á Suðvesturlandi giltu út apríl og út maí á Norðausturlandi. Nú verður þetta framlengt sunnanlands út maí og fram í miðjan júní norðaustanlands,“ segir Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Landsvirkjun, við mbl.is.

Valur segir að samningar séu þannig að hægt sé að taka álverin niður um tíu prósent ákveðinn hluta ársins en á ársgrundvelli sé skerðingin mun minni.

Skrefi nær virkjun

Landsvirkjun getur þó fagnað því að Umhverfisstofnun hefur veitt heimild til breytinga á vatnshloti vegna fyrirhugaðra framkvæmda við 95 MW Hvammsvirkjun í Þjórsá.

Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóra framkvæmda hjá Landsvirkjun, segir að undirbúningur fyrir byggingu Hvammsvirkjunar hafi staðið lengi og með þessu færist Landsvirkjun skrefi nær því að geta hafið framkvæmdir. Orkustofnun mun auglýsa ný gögn og veita fjögurra vikna athugasemdafrest. Eftir það fái Landsvirkjun 2-4 vikur til að bregðast við athugasemdum.

Höf.: Guðmundur H. Hilmarsson